Miðað við alþjóðlegar rannsóknir glíma 15.000 Íslendingar við sama vandamál:

Að jafnaði glíma yfir 250.000 Norðmenn við kynlífsvandamál á hverjum degi ársins. Þetta eru ríflega 5% norsku þjóðarinnar. Þetta kemur fram í viðtali Verdens gang við Elsu Almås prófessor í kynlífsfræðum (sexologi) við Agder háskólann.

„Bæði norskar og alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að 5% til 6% fólks glímir við vandamál í kynlífi sínu og þurfa á sérfræðihjálp að halda til að leysa þau,“ segir Elsa Almås. Hún bætir því við að niðurstöðurnar séu mismunandi eftir því hvernig spurt er en sennilega sé framangreint hlutfall of lágt. Nær væri að segja að um 10-15% væri að ræða.  Hér má bæta við að ef hlutfallið 5% er yfirfært á Ísland glíma að jafnaði um 15.000 Íslendingar við kynlífsvandamál í dag.

Elsa Almås vill að menntun kynlífsfræðinga sé nýtt betur en hingað til. Hún segir að erfitt sé fyrir kynlífsfræðinga að fá fulla vinnu og flestir sinni þessu sem aukastarfi með öðru. Hinsvegar séu betri tímar framundan hvað kynlífsheilsu Norðmanna varðar. Þarlend heilbrigðisyfirvöld hafa sett í gang átak til efla fræðslu og ráðgjöf til þeirra sem glíma við kynlífsvandamál.

Related Posts