Maður með flensu heldur að hann sé einn. Liggur á öndinni í rúminu og kúgast í þurru hóstakasti sem lemur svo á lungunum að valda myndi marbletti ef útvortis væri. Getur ekki hugsast að önnur manneskja upplifi álíka þjáningar. Alveg einstök upplifun.

Svo heyrir hann í heimilislækni í útvarpinu sem segir að flensan sé alþjóðleg, komi um jólaleytið og fari aftur seint í febrúar. Og hún er ekki bara á Íslandi heldur líka í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Þar liggur líka fólk, kúgast í þurrum hósta og finnst það vera með marbletti á lungum.

Pensillín virkar eins og asperín á þennan fjanda. Nefrennslið minnkar hægt og hljótt en ekki hóstinn sem getur orðið svo kraftmikill að hlustir í eyrum springa og yfirlið er næst á dagskrá hjá sjúklingi á fjórum fótum í kappi við tímann að ná andanum. Sem hefst.

Á þriðju viku eru marblettirnir á lungunum orðnir hversdagslegir, inngrónir í laskaða sál sem þolir vart meir. Það er þá sem marblettirnir leggjast á hjartað og öll sund lokast.

En það er einmitt þá, þegar botninum er náð, sem marið fer að gefa sig. Án þess að sjúklingurinn taki eftir því fer hann að hressast og það þarf ekki nema svona þrjú korter og þá er hann búinn að gleyma þjáningunum öllum – bæði marblettunum á eiríkur jónssonlungunum og hjartanu.

Þegar öllu er á botninn hvolft var þetta bara eitthvert smáræði. Smáflensa. Menn hrista hana af sér eins og annað og halda svo áfram að gera lífið skemmtilegra. Þangað til næst.

Eiríkur Jónsson

Related Posts