Ég hlusta óhóflega á símatímann á Útvarpi Sögu og kannski er það þess vegna sem ég bý við skakka heimsmynd og hef á tilfinningunni að trúarbragðastríð sé að skella á í voru prinsipplausa landi. Vaðallinn í sumum sem taka til máls í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni er sá sami og bergmálar á Sögu þannig að kannski er þetta bara tilfellið og kristnir og múslimar séu að búa sig undir bardaga um heimsyfirráð á Íslandi.

Þar sem ég tilheyri hvorugum hópnum á ég þó bæði bágt með að trúa þessu og enn síður skilja hvað veldur þessum tryllingi og ótta. Eldri kona sem ég kannast við og hlustar mikið á Sögu sefur vart af áhyggjum yfir því að múslimarnir séu að koma til þess að skera af henni klitórisinn. Ég ætti kannski að fara að stressa mig yfir því að þeir komi líka, hrifsi af mér hálfétinn beikonborgara og flysji af mér forhúðina. Samt ekki.

Þeir sem eru í mesta fárinu yfir trúarbragðaóttanum gleyma nefnilega mannlega þættinum. Þessi þáttur gleymist líka alltaf. Til dæmis þegar regluverk er rýmkað, bankar seldir og velsæld reiknuð út í Excel. Mannlegi þátturinn gleymdist þar líka og efnahagskerfið hérna hrundi. Það er mannlegt að vera gráðugur, eigingjarn, skara eld að eigin köku og skeyta í engu um náungann.

Það er líka mannlegt að vilja éta það sem mann langar í, helst beikon. Það er mannlegt að falla í freistni, láta eftir nautnunum. Þráin eftir kynlífi, frelsi og þekkingu er okkur í blóð borin. Þetta eru náttúruöfl sem ekkert fær stöðvað. Síst af öllu trúarbrögð.

Trúarbrögð hafa verið misnotuð í gegnum árþúsundin til þess að reyna að beisla villidýrið innra með okkur, kúga konur, drepa homma og svo framvegis. Ólýsanleg illvirki á pari við djöfulganginn í fábjánunum í ISIS hafa verið framin í krafti Biblíunnar. Þeir sem aðhyllast bókstafinn í báðum deildum eru haldnir brenglaðri þörf fyrir að skipta sér af því hvernig aðrir lifa lífinu.

Við á Vesturlöndum erum góðu heilli komin lengra en þeir í austri og erum löngu búin að brjóta af okkur kúgunarhlekki trúarinnar. Og þetta á eftir að fara á sama veg með íslam. Mannlegt eðli verður aldrei beislað þannig að það er í raun ekkert að óttast.

Það myndi samt gera lífið mun skemmtilegra ef hrædda fólkið og ofsatrúarliðið gæti bara fattað þetta strax. Freud var að hringja og minna á að við munum alltaf brjótast undan oki siðmenningar, ef siðmenningu skyldi kalla.

 

Þórarinn Þórarinsson

Related Posts