„Mamma, hvernig er þessi vísa, farið er vorið, sem allir kunna?“ spurði ég móður mín stuttu eftir að ég hóf skylduna í Ísaksskóla. Hún kenndi mér Vorið góða grænt og hlýtt. Vísa sem er ágæt fyrir sinn hatt en ekki mikið lík bæninni sem allir virtust kunna, nema ég.

Móðir mín lét reglur, hefðir og venjur samfélagsins ekki trufla sig og kenndi dætrum sínum það sem henni þótti gott og gilt. Rétthugsun samtímans hverju sinni mótaði ekki skoðanir hennar.

Á sama tíma og aðrar mæður skörtuðu stífri lagningu og furðulega miklum farða, gekk móðir mín um í hippalegum gallabuxum, með slegið hár og reykti sterkar sígarettur að sjómannasið.

Ég var sannfærð um að Bjartur í Sumarhúsum væri náskyldur mér og Ásta Sóllilja byggi líklegast í þarnæsta húsi. „Hérna hefði nú honum Bjarti þótt gott að búa,“ hafði hún á orði þegar við ókum fram hjá blómlegum ökrum í evrópskum sveitum.

Persónur og leikendur heimsbókmenntanna voru ljóslifandi á heimilinu og jafnsjálfsagt að spjalla um líf og örlög þeirra og ættingja.

Kristilegt uppeldi og kirkjurækni var ekki fyrirferðamikil á mínu æskuheimili, mín guðfræði kom frá bókinni Félagi Jesú. Móðir mín var sannfærð um að Jesús hefði verið hinni eini sanni kommúnisti og ræddi um hann í því samhengi. Lengi vel hélt ég að Jesús væri stjórnmálaleiðtogi.

Þegar stúlkur lásu um örlög kvenna í rauðu ástarsögunum las ég Praxis eftir Fay Weldon.

Hún fór óhefðbundnar leiðir í flestu sem var alveg í stíl við nafn hennar sem var einstakt. Lengi vel var hún eina konan á landinu sem bar það sem fyrsta nafn.

Mikið sem prúðbúnar og venjulegar konur vorkenndu okkur systrunum þegar móðir okkar fékk þá furðulegu hugmynd að fara í nám og það erlendis.

„Hver smyr nestið ykkar,“ sögðu þær andvarpandi með sorg í augunum þegar við systur sátum fyrir svörum í fínu kaffiboði. Blessuð börnin ein með föðurnum sem þurfti að smyrja nesti og þvo þvott, það sem á manninn var lagt.

Móðir mín var fædd á jólum. Jóladagur var á mínu heimili afmælisdagur mömmu. Hún fékk oft furðulegar hugdettur og gerði það sem henni sýndist og það gerði hún þessi jól þegar hún lést á aðfangadag. Hún rétt slapp við að verða 67 ára. Það var alveg í hennar stíl að verða ekki löggilt gamalmenni.

Einstök að eilífu – amen.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts