Lína Rut (48) kemur sér fyrir í gamalli prentsmiðju:

Myndlistarkonan og hönnuðurinn Lína Rut er flutt í flennistórt iðnaðarhús í Reykjanesbæ. Þar ætlar hún bæði að búa og vera með vinnustofu. Hún tók á móti gestum á nýja staðnum og notaði tækifærið til að kynna nýju barnabókina sína, Núi og Nía, sem hún hefur verið með í vinnslu í fjórtán ár.

ALLIR SAMAN: Lína Rut með stórfjölskyldunni.

ALLIR SAMAN:
Lína Rut með stórfjölskyldunni.

Smart „Þetta er gömul prentsmiðja sem hefur staðið auð meira og minna í mörg ár og þarna fundum við iðnaðarhúsnæði í íbúðahverfi og það gerði náttúrlega útslagið,“ segir Lína Rut. „Þegar maður er með börn er það ekki spennandi kostur að búa í iðnaðarhverfum þar sem svona byggingar fyrirfinnast auðvitað helst.“

LISTRÆN BÖRN: Tvö barna Línu Rutar skemmtu gestum með tónlist. Ísold söng við undirleik Más, bróður síns. Hún stundar nám við LHÍ og Már, sem er blindur, er feykilega flinkur á píanóið.

LISTRÆN BÖRN: Tvö barna Línu Rutar skemmtu gestum með tónlist. Ísold söng við undirleik Más, bróður síns. Hún stundar nám við LHÍ og Már, sem er blindur, er feykilega flinkur á píanóið.

Lína Rut segir ekki síst að hrátt yfirbragð húsnæðisins heilli. „Ég hef voða gaman af þessu hráa lúkki og fíla það. Þetta verður bæði íbúðarhúsnæði og vinnustofa,“ segir Lína Rut sem er þegar flutt inn með fjölskylduna. „Ég er líka með litla vinnustofu í Hafnargötunni í Reykjanesbæ og ætla að halda henni. Þar sinni ég hönnuninni, Krílunum mínum og minni hönnunargripum og verð svo með listaverkin á nýja staðnum. Mér finnst gott að aðskilja þessa tvo heima enda eru þeir gjörólíkir og ég þarf að setja mig í allt aðrar stellingar þegar ég geri listaverk en þegar ég er að framleiða hönnunina mína.“

ÖNNUR AÐALPERSÓNAN: Nía í skóginum. Hún er önnur aðalpersóna nýju barnabókarinnar, Núi og Nía.

ÖNNUR AÐALPERSÓNAN:
Nía í skóginum. Hún er önnur aðalpersóna nýju barnabókarinnar, Núi og Nía.

Fjölskyldan er búin að koma sér fyrir í prentsmiðjunni. „Við fluttum bara inn og gerðum ekkert annað. Við máluðum tvo veggi og síðan ekki söguna meir. Við höfum aldrei verið þessar 2007-týpur og ætlum ekki að fara að taka upp á því núna. Við gerum þetta bara hægt og rólega og erum ekki með neitt stress. Ég nenni því ekki.“

Lína Rut bauð til útgáfuteitis á nýja heimilinu og kynnti nýja barnabók sína, Núi og Nía, sem hún gerði í samstarfi við Þorgrím Þráinsson rithöfund.

„Þetta er litríkt ævintýri sem heitir Núi og Nía. Ég fékk hugmyndina að sögunni fyrir fjórtán árum þannig að þetta hefur verið löng meðganga. Stundum gafst ég upp og ákvað að þetta yrði aldrei að veruleika og stundum lá hún kannski í dvala í heilt ár. Sagan lét mig samt ekki í friði og skaut alltaf upp kollinum aftur. Það eru fjögur eða fimm ár síðan ég teiknaði fyrstu fígúruna, hann Núa. Síðan komu þær koll af kolli. Þegar ég var komin með beinagrindina að sögunni og allar myndirnar hafði ég samband við Þorgrím Þráinsson og hann lagði myndunum til orð og ævintýrið lifnaði við. Ég fór því akkúrat öfuga leið og leitaði til Þorgríms vegna þess að ég lít ekki á mig sem rithöfund, heldur hugmyndasmið og myndlistarkonu.“

Related Posts