Já, ég á það til að vinna hratt og framkvæma strax. Ég seldi húsið mitt einn, tveir og bingó og pakkaði saman risastórri búslóð á örfáum dögum og kom fyrir hér og hvar um bæinn.

Kona á nokkuð mikið af leiritaui, bæði hversdags og spari, og einhver ósköp af fötum, sem ég fer sjaldan eða aldrei í. Ég tók loforð af sjálfri mér að fara í gegnum þetta og gefa út um allar trissur. Við það skal ég standa – ég lofa. Því hvað hefur kona við átján gallabuxur að gera? Maður spyr sig.

Og hvert flutti frúin með krakka, ketti og krúsir – jú, til pabba gamla. En ekki hvað, ég seldi ofan af mér slotið og hef ekki fundið annað. En líkt og margt annað í lífi mínu þá gerðist þetta allt nokkuð hraðar en gengur og gerist í fasteignaviðskiptum og afhendingartíminn var mjög knappur. En það hafðist með góðri aðstoð vina og pabba. Hvar væri ég án pabba sem situr nú uppi með dóttur á fimmtugsaldri og hennar ketti og krakka.

Ég hreiðraði um mig í bókaherbergi móður minnar heitinnar og er þar með dívan og örfáar nauðsynjar sem komast fyrir í einni tösku, lítilli. Ég þarf í raun og veru ekki mikið meira. Tannbursti, náttföt og meikdolla, það er allt og sumt.

Yngri drengirnir fluttu í gömlu herbergi okkar systra og hafa komið sér vel fyrir og sá elsti býr í kjallaranum með sinni draumadís. Allir undir sama þaki.

Það mun taka einhvern tíma fyrir okkur að finna takt í þessum nýja hversdagsleika, smyrja samskiptin og skerpa á hlutverkunum.

Ég fór á stefnumót daginn eftir að ég flutti inn til pabba. Á meðan ég sat í bíóinu var mér hugsað til föður míns og var að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki að láta hann vita að ég kæmi kannski svolítið seint heim, ég minni á að ég er á fimmtugsaldri, mér finnst ég samt vera 17 ára. Þegar ég læddist niður stigann þá fann ég að pabbi svaf með annað augað opið.

Maður losnar greinilega aldrei við börnin sín – og það er bara allt í lagi – eins og lífið á Séð og Heyrt sem er alltaf skemmtilegt.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts