Ryan Griffiths er tveggja barna faðir í fullu starfi sem lifði á tímabili á hamborgurum, öðru ruslfæði og sykruðum kaffidrykkjum. Hann ákvað einn daginn að létta sig eins fljótt og hægt væri þegar hann greindist með sykursýki 2. Aftur á móti var það ekki sjúkdómurinn sem kom þessu ferli af stað, heldur þurfti ekki annað til en eina ljósmynd þar sem Ryan sá hversu þungur hann var orðinn.
,,Það umturnaði öllu hjá mér þegar ég skoðaði gamla mynd af mér frá sumrinu 2013. Ég var með svo gríðarlega bjórvömb að ég átti ekki til orð,“ sagði Ryan í viðtali við Daily Star og fór að eigin sögn beint í kjölfarið að  hætta neyslu á öllum skyndibitamat og hreyfa sig þrisvar sinnum á dag, sex daga vikunnar.
Þegar ljósmyndin umrædda var tekin vó Ryan u.þ.b. 139 kg og á innan við ári var hann kominn niður í 76 kg. Þyngdartapið þótti mörgum einkaþjálfurum svo magnað að líkamsræktarstöðin PureGym sem hann sótti ákvað að veita honum vinnu sem fitnesskennara. Áskorunin sem beið hans þá var að taka öll prófin sem þurftu til. Ryan vann áður sem upplýsingafulltrúi fyrir símasölufyrirtæki.
,,Ég hef lært heilan helling um heilsu og mataræði af mínum einkaþjálfara sem og mínu eigin skipulagi. Þegar ég byrjaði fyrst að léttast voru margir sem vildu spjalla við mig um það og ég lærði enn meira á því að deila sögum og staðreyndum með öðrum í tengslum við næringu og annað. Ég var líka kominn á það stig að ég var farinn að óttast um mitt eigið líf og afleiðingarnar fyrir fjölskyldu mína. Þessi vitundarvakning bjargaði alveg lífi mínu.“
Ryan býr með fjölskyldu sinni í Northhampton í Bretlandi.

 

 

Related Posts