Það getur veitt ómælda ánægju að ryksuga gamalt gólfteppi eða stigagang með nýrri ryksugu. Allt verður eins og nýtt; líkt og upphaf á nýju lífi.

Fólk á ryksugurnar sínar allt of lengi en það er óþarfi því nýjar ryksugur til heimilisnota kosta ekki mikið meira en málsverður fyrir tvo á ódýrum veitingastað. En mestu skiptir þó hversu heimilisverkin verða skemmtilegri þegar árangurinn verður margfaldur á við það sem áður var.

Að ryksuga með nýrri ryksugu er eins og að fara í jógatíma eða stunda hugleiðslu. Allt skýrist í góðu og átakalausu verki og hljóðið í nýrri ryksugu er milt; nánast eins og tónlist Sigur Rósar.

Litlu hlutirnir skipta máli.

Eins og að fara út í kjötbúð og kaupa kálfasnitsel fyrir lítið og láta einn pela af rjóma fylgja með. Úr því er hægt að búa til einn frægasta kjötrétt Ítala á örfáum mínútum og annasamur dagur endar sem veisla.

Litlu hlutirnir skipta mjög miklu máli.

Eins og bara að fara niður í þvottahús, setja í vél og fylgjast svo með henni þvo, snúning eftir snúning, á kolli með kaffi. Það er innhverf íhugun í anda Zen.

Svo ekki sé minnst á að kaupa sér framlengingarsnúru og ryksuga bílinn hátt og lágt með nýju ryksugunni úti á plani. Þá fyrst er gaman.

Litlu hlutirnir skipta öllu máli.

eir’kur j—nsson

Og gera lífið skemmtilegra eins og Séð og Heyrt í hverri viku.

Eiríkur Jónsson

Related Posts