Í tilefni af því að íslenska karlalandsliðið er komið á stórmót í knattspyrnu í fyrsta sinn höfum við ákveðið að rifja upp viðtal frá árinu 2012 við landsliðsþjálfara Íslands, Lars Lagerback.

 

Landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck í nýju ljósi – Litblindi skógarbóndinn

Lars Lagerbäck er kominn til starfa fyrir KSÍ. Hann á að reyna að koma gullkynslóð Íslands inn í lokakeppni í fyrsta sinn. Lars er sigursælasti þjálfari Svía og kom þeim fimm sinnum á lokamót. Hann er sveitastrákur frá Ovansjö sem gat lítið í fótbolta en hafði gríðarlegan áhuga á öllu sem viðkom íþróttum. Þessi auðmjúki skógarbóndi settist niður með blaðamanni Mannlífs og sagði frá áhuga sínum á Íslandi, sögu, menningu og að sjálfsögðu fótboltanum.

Capture1

 

„Maður verður að vera raunsær en samt bjartsýnn. Ef Ísland spilar t.d. við Spán er ég nógu raunsær til að vita að það eru ekki miklar líkur á sigri en að sama skapi trúi ég, af öllu mínu hjarta, að ég geti stýrt liðinu til sigurs. Annars ætti ég ekki að vera í þessu starfi. Maður verður að segja sannleikann. Sænskir leikmenn eða íslenskir eru ekki bestu leikmenn í heimi og þeir verða að gera sér grein fyrir því. Ef þeir halda að þeir séu eins og Zlatan eða Messi þá getur íslenska landsliðið ekki unnið neina leiki. Svona leikmenn eru ekki til á Íslandi, en það er hægt að gera liðið að því besta. Við getum t.d. verið best skipulagða landslið heims, við getum haft besta móralinn og við getum hlaupið og barist meira en öll önnur lið í heiminum.

Jafnvel þótt við höfum tæknilega séð ekki bestu leikmenn heims, er hægt að gera annað sem gerir þá að bestu leikmönnum heims. Maður á alltaf að trúa því að maður geti unnið hvern sem er. Í fótbolta er það nefnilega hægt. Maður getur kannski bara unnið Spán einu sinni en það er hægt,“ segir Lars Lagerbäck, nýi landsliðsþjálfarinn í fótbolta. Lars er kominn til starfa og hefur heldur betur látið vita af sér. Nýjar hefðir hafa verið innleiddar og kúltúrinn í kringum landsliðið er að taka stakkaskiptum. Allt sem virtist vera svo svart fyrir skömmu er það ekki lengur. Það ríkir bjartsýni hjá íslenskum knattspyrnuunnendum um fótboltalandsliðið.

Capture2

Hafnaði tilboðum olíuþjóðanna

Lars fæddist í smábænum Ovansjö og ólst upp á skógarbýli sem hann keypti af foreldrum sínum fyrir þó nokkrum árum. Þeir voru skógarbændur en Lars hafði mestan áhuga á íþróttum og sleppti fjölmörgum tímum í skólanum því hann var alltaf með hugann við íþróttir – hvaða nafni sem þær nefndust. „Ég er alinn upp á skógarbýli og maður lærir að bera virðingu fyrir fólki sem gerir góða hluti, hverjir sem þeir eru. Maður lærir líka að vinna, sem er góður kostur til að hafa með sér út í lífið.“

Lars er gríðarlega vinsæll í Svíþjóð enda var knattspyrnulandslið Svía fastagestur á stórmótum undir hans stjórn. Alls hefur hann tekið þátt í átta stórmótum, sjö með Svíþjóð og einu með Nígeríu. Ekki amaleg ferilskrá frá sveitapilti sem kann best við sig með góða bók við hendina og viskí í glasi. „Ég er líka mikill áhugamaður um sögu og hef alltaf verið skotinn í því hvað Íslendingar hafa lítið þróað tungumálið sitt. Það hefur lítið sem ekkert breyst og það kann ég að meta. Reyndar kann ég almennt vel að meta Ísland og Íslendinga. Ég hef komið hingað nokkrum sinnum, aðallega í fótboltatengdum erindum en þó einu sinni sem túristi. Ég fór þá til Akureyrar. Það var vor en samt mikill snjór og rosalega fallegt.“

Ráðningu Lars hefur verið vel tekið af fótboltasamfélaginu hér á landi enda leiddi könnun Stöðvar 2 skömmu fyrir ráðninguna í ljós að mikill meirihluti vildi fá erlendan þjálfara. Hann er sagður fá rúmlega tvær milljónir í mánaðarlaun en það fæst ekki staðfest. „Sé miðað við innlenda þjálfara er ég kannski töluvert dýrari en miðað við alþjóðlegan standard er ég ekki mjög dýr. Ég er sáttur við samninginn sem ég gerði og hef alltaf verið sáttur við mína samninga. Skv. þeim fyrsta sem ég gerði við sænska knattspyrnusambandið var ég bæði þjálfari og yfirmaður þjálfaramála og þannig fékk ég 5000 sænskar krónur aukalega, en ég er ekki í þessu vegna peninganna. Ég væri að ljúga ef ég segði að þeir skiptu engu máli en ef þeir skiptu öllu hefði ég stokkið á eitthvað tilboð sem mér barst á sínum tíma. Ég fór aldrei í neinar samningaviðræður við lið olíuþjóðanna en fékk fimm eða sex tilboð sem litu vel út. Mjög vel.“

 

Ætlaði að hætta eftir Nígeríuverkefnið

Eftir að Svíþjóð komst ekki á Heimsmeistaramótið 2010 hætti Lars með landslið Svíþjóðar eftir níu ára starf. Eftir stutt frí kom neyðarkall úr óvæntri átt. Nígeríu vantaði þjálfara til að fara með lið sitt á HM og Lars var beðinn að stýra því. „Það var frábær lífsreynsla og þegar ég var beðinn að taka þetta að mér hugsaði ég mig ekki tvisvar um. Þetta voru ótrúlegir sex mánuðir en ég var að spá í að hætta eftir þá. Ég átti dálítið verkefni eftir hjá sænska sambandinu en þegar Geir (formaður KSÍ) spurði hvort ég hefði áhuga á starfinu hér var ég strax mjög áhugasamur því Íslendingar eru viðkunnanlegir. Það þurfti lítið til að sannfæra mig.“ Hann neitar samt að vera í ævintýraleit á gamals aldri. „Þetta er ekkert svo mikið ævintýri, en þó verður ævintýri að sjá hvort við komumst eitthvað áfram. Svo er auðvitað alltaf spennandi að skoða hvað maður getur og að vinna með nýju fólki.“

Capture

Gullkynslóð Íslands er að koma upp og töluvert sóknarfæri fyrir þessa undankeppni. Ísland fékk engin risalið í sinn riðil og strákarnir sem komu úr U-21. árs landsliðinu eru orðnir ári eldri, betri í fótbolta og sumir komnir til stærri liða. Möguleikinn á því að Ísland nái að gera einhverjar rósir í undankeppninni er því alveg fyrir hendi. „Í riðlinum eru þrjú lið sem eru á topp 20 lista FIFA en við náum vonandi að gera þetta að jöfnum riðli,“ segir Lars og bætir við að möguleikinn á sigri sé alltaf fyrir hendi í fótbolta. Þess vegna sé hann vinsælasta íþrótt í heiminum. „Ef maður spilar t.d. við Spán má maður teljast heppinn að vinna og það er nánast ómögulegt þegar maður skoðar liðið á pappírum. Fyrirfram er auðveldara að vinna t.d. Noreg, Slóveníu og Sviss. En þetta er það sem er svo skemmtilegt við fótboltann, maður getur alltaf unnið, jafnvel þótt maður sé litla liðið! Þetta er ekki hægt í nokkurri annari boltaíþrótt, ekki í íshokkí, handbolta, blaki eða hverju sem er.“

 

Vill helst hafa tvo frammi

Lars kýs að spila leikkerfið 4-4-2 en í hans huga þarf margt að ganga upp til að hann spili það kerfi með íslenska landsliðinu. „Ef ég hef rétta blöndu af leikmönnum vil ég spila með tvo framherja. Þá er hægt að nota þá mjög mikið í leiknum en það fer auðvitað eftir styrk þeirra og liðsins. Í draumaheimi vil ég spila með tvo frammi og þegar liðið spilar við betra lið finnst mér betra að hafa þetta þannig. Þá er hægt að búa til eitthvað í sókninni, en ef bara einn er frammi er erfitt að skapa eitthvað. Svo margt þarf að smella saman; gæði sendinga þurfa t.d. að vera mikil svo hægt sé að færa liðið framar o.s.frv. Þegar ég var með sænska liðið spiluðum við einu sinni við Spán og Zlatan var einn frammi. Hann fékk lítinn stuðning og gat ekki búið neitt til fyrir okkur, en þetta var hægt með Zlatan og Henke Larsson því Larsson hafði svo ofboðslega hlaupagetu. Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa til í vörninni en um leið og við unnum boltann var hann orðinn fremstur. Þannig fjölbreytni er gott að hafa.“Capture8

Lars mætti íslenska landsliðinu þó nokkrum sinnum á meðan hann stýrði Svíum og  hrósaði oftar en ekki sigri. Hann var þó hrifinn af leikstíl og hugarfari íslensku leikmannanna. „Það var alltaf erfitt að spila við Ísland. Jafnvel þótt við værum að vinna stórt, kunni ég að meta vinnuframlag þeirra og hvað þá langaði ekki að vera í þeirri stöðu sem þeir voru komnir í. Ég kunni að meta þetta og bar alltaf virðingu fyrir íslenska liðinu og leikmönnum þess. Ég tel að hægt sé að gera eitthvað með þessa blöndu sem hér er til staðar.“

 

Rak tvo lykilmenn úr landsliðinu

Lars er óhræddur við að taka erfiðar ákvarðanir. Þannig rak hann t.d. þrjá lykilmenn Svía heim úr landsliðsverkefni eftir að þeir höfðu farið út þegar þeir máttu það ekki. Þetta voru engar smástjörnur heldur Zlatan Ibrahimovic, stærsta stjarna liðsins, Olaf Melberg, besti varnarmaður Svía, og Cristian Wilhelmsson, sem lengi hefur verið í hópi fremstu miðjumanna Evrópu. Lars er maður fárra reglna. Hann vill frekar hafa viðmið en eina reglan sem þarna var við lýði var sú að eftir kvöldmat og fram að morgunmat áttu allir að vera inni á hótelinu. Þetta virtu þremenningarnir ekki og urðu því að fara heim með skottið á milli lappanna.

„Þeir brutu reglu sem hópurinn var búinn að koma sér saman um. Þetta snerist um að vera kominn inn á hótelið á ákveðnum tíma og vera þar en ekki úti að leika sér. Við höfðum alltaf létta kvöldhressingu um kl. hálf ellefu en þeir fóru út eftir það. Ég þurfti því að taka ákvörðun. Mjög erfiða ákvörðun. Ég gat gefið þeim aðvörun eða látið þá biðja hópinn afsökunar en okkur fannst þetta bara það stórt að þessi ákvörðun var á endanum tekin. Tveir af þremur voru bestu leikmenn liðsins og ég segi alltaf við þá bestu að þeir hafi meiri ábyrgð en restin af hópnum. Ég varð þannig fyrir miklum vonbrigðum en þetta var alls ekki risamál. Þeir voru ekki að drekka áfengi eða neitt slíkt. Þeir fóru út af því að Olaf átti afmæli og ég hefði ábyggilega leyft þeim að fara hefðu þeir talað við mig. Vonandi geta menn hagað sér eins og fullorðnir menn í íslenska landsliðinu og sýnt að þá langi að vinna fótboltaleiki. Alla leiki. Þremenningarnir fóru bara í kælingu í einn leik og svo voru þeir velkomnir aftur í liðið. Zlatan reyndar tók sér frí í tvo,“ segir hann og glottir.

Capture4

Íslenskir landsliðsmenn hafa stundum brotið agareglur og segir Lars að á þeim málum verði bara tekið þegar þar að komi. Hann spáir ekki í hvað gerðist í fortíðinni. „Ef þeir haga sér eins og atvinnumenn og vilja spila fyrir land og þjóð eru þeir velkomnir, annars geta þeir bara verið hjá sínum liðum. Þeir þurfa að leggja sig fram fyrir mig til að vera í liðinu,“ segir hann og bætir í raddstyrkinn. „Það þarf náttúrlega að vera agi bæði innan vallar og utan, annars vinnurðu aldrei neitt. Það er alveg á kristaltæru. Leikmenn þurfa að axla mikla ábyrgð. Ferillinn er mjög stuttur, 10-15 ár og það er mikið fylgst með leikmönnum í dag. Ég vil helst að liðið komist að samkomulagi um hlutina og kýs að hafa fáar reglur því ef þær eru brotnar þarf maður að bregðast við og refsa. Þó þarf auðvitað að hafa einhverjar reglur og ef ég get ekki komið skilaboðum áleiðis til leikmanna verður annað hvort leikmaðurinn sem skilur þau ekki að fara eða ég að hætta. Ég er ekki að fara að hætta en ég geri hlutina frekar á rólega mátann. Ég er lítið í því að öskra.“

Knattspyrnuþjálfari er ekki bara þjálfari, hann er nánast eins og húsmóðir yfir hópnum og stundum lenda þjálfarar í aðstæðum þar sem þeir þurfa að hlusta á ansi skrautleg vandamál leikmanna sinna. „Ég vil helst geta rætt hvað sem er við mína leikmenn. Það eina sem ég ræði ekki er hvernig ég vel liðið.“

 

Of miklir peningar í fótboltanum

Lars er kominn til starfa, eldmóður er til staðar og ekki annað að sjá en hann komi með kraft inn í starf KSÍ. Eitt það fyrsta sem hann tók eftir eru öll knattspyrnuhúsin á Íslandi en aðeins þrjú fullbyggð knattspyrnuhús eru til í Svíþjóð. Þar var tekin sú stefna að setja peningana í að byggja færri risahús en fleiri minni. Varðandi peningamálin hefur Lars ákveðnar skoðanir á peningum sem flæða nú inn í heimsfótboltann. Olíubarónar koma veifandi dollurum og eru nánast að eyðileggja þessa fallegu íþrótt. Venjulegur maður hefur varla lengur efni á miða á völlinn og krafan um árangur er nánast óeðlileg. „Ég held að þeir sem hafa smávegis vit í kollinum viti að það eru komnir allt of miklir peningar í fótboltann í dag. Fáir hlutir sameina fólk á sama hátt og boltinn og því má kannski skilja að menn fái vel borgað, en auðvitað er rugl að þegar fullt af fólki á ekki fyrir mat og lifir í fátækt, geti tvítugir strákar fengið hundrað milljónir króna á mánuði. Þá er þetta komið út í rugl.“

Lars verður með starfsstöð sína í Svíþjóð, enda spila flestir landsliðsmennirnir í Skandinavíu, en ætlar samt að vera hér á landi eins mikið og hann þarf og getur. „Ég verð eitthvað hér því mig langar líka að skoða íslensku deildina og ég hef sagt Sigurði Ragnari að hann megi nota mig hér á landi. Þá verður aðstoðarþjálfarinn minn, Heimir Hallgrímsson, hér. Við höfum hist nokkrum sinnum og ég er mjög hrifinn af því sem hann hefur upp á að bjóða.“ Heimir er tannlæknir úr Vestmannaeyjum sem er doktor í knattspyrnufræðum og gríðarlega vel metinn þjálfari. Þeir tveir eiga að spyrna við fótum enda hefur íslenska landsliðið nánast verið í frjálsu falli undanfarin ár og liðið er í kringum 100. sæti á styrkleikalista FIFA. Sá Íslendingur sem þekkir Lars hvað best er einmitt téður Sigurður Ragnar, landsliðsþjálfari kvenna og fræðslustjóri KSÍ, sem hefur unnið náið með Lars í gegnum UEFA.

Capture7

Ekki leikur án snertingar

Fyrsta verkefni Lars með íslenska landsliðinu verður í Japan 24. febrúar og fimm dögum síðar mætir liðið Svartfjallalandi. Vináttuleikir hafa ekki verið hátt skrifaðir undanfarið og leikmenn virðast meiðast á ólíklegustu stöðum skömmu fyrir þá. Lars fagnar þó öllum verkefnum með sitt nýja lið. „Ef maður skoðar þetta í samhengi eru þetta leikir sem eru langt frá því að vera alvöru keppnisleikir en t.d. í Nígeríu voru vináttuleikir risastórir. Ef allir leikmenn voru með þegar ég var með sænska liðið, Zlatan, Henke og Freddie Ljungberg, var næstum alltaf uppselt. Þó er áhuginn auðvitað ekki sá sami og á öðrum leikjum. Maður finnur það á liðinu og sjálfum sér og jafnvel þótt mér finnist þetta mikilvægir leikir, snúast þeir ekki um líf eða dauða. FIFA hefur einmitt fækkað vináttuleikjum því peningarnir streyma inn til félaga, félögin borga sínum leikmönnum og toppleikmenn eru að spila allt of marga leiki. Félögin vilja halda sínum leikmönnum hjá sér til að vinna með sínum þjálfurum því þetta eru svo margir leikir, sérstaklega þegar menn eru í toppliðunum. Þá spila þeir kannski í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni og svo koma bikarkeppnir inn í þetta líka. Messi spilaði um 80 leiki á síðasta tímabili, sem er nánast eins og fullt

NBA-tímabil. Lygilegt. Sérstaklega ef tekið er mið af því að fótbolti er ekki leikur án snertingar. Leikmenn þurfa að hafa gríðarlegan andlegan styrk.“

 

Þarf að vinna leikmenn á sitt band

Það er ekki hægt að sleppa Lars án þess að tala aðeins um enska boltann þar sem Íslendingar eru nánast sér á báti. Stuðningsmenn hér á landi eru einstakir og fjölmörg dæmi þess að menn og konur fari á fleiri leiki í Englandi yfir árið en hér heima. Lars segist hafa tilfinningar til tveggja liða þótt hann haldi ekki með neinu sérstöku. „Ég er ekki stuðningsmaður neins liðs, en þegar Dalglish, Ian Rush og þessir gæjar voru upp á sitt besta var Liverpool mitt lið. Svo heimsótti ég West Ham 1975 og hef alltaf dálitlar taugar til þeirra. Eftir að ég fór að vinna á alþjóðavettvangi og fór að þekkja leikmenn og þjálfara, fór ég að halda meira með þeim en liðunum.“

Þessi magnaði sveitamaður er með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir ótrúlega ferilskrá. Stórmenni með gríðarlega mikla auðmýkt sem veit alveg hvað það er að taka til hendinni. „Ef maður vinnur með fótboltamönnum þá er lítið mál að halda sér á jörðinni,“ segir hann og glottir.

Hann segir nauðsynlegt fyrir alla þjálfara að eiga langa sigurhrinu. „Maður þarf að hafa töluvert sjálfsöryggi í kringum leikmenn. Ég hef verið heppinn með minn feril og hef þokkalegt sjálfsöryggi. „Ég trúi ekki á fólk sem talar bara um hvað það hefur gert og afrekað í lífinu og hvað það sé flott og fágað. Maður getur séð hvað fólk hefur afrekað bara með því að horfa á það. Leikmenn vita vonandi hver ég er og hvað ég stend fyrir en það þýðir samt ekki að ég þurfi ekki að vinna þá á mitt band. Þeir þurfa að sjá að ég hafi persónuleika og kunnáttu í þetta starf til að þeir virði mig og geri eins og ég vil að þeir geri.“ Vonandi hlusta leikmenn Íslands, taka eftir og læra, því Lars Lagerbäck er maður sem veit hvað hann segir. Ferilskrá hans talar sínu máli – ein og sér.

 

1062918_1200_675

Hver er Lars Lagerbäck?

Fæddur? „16. júlí 1948.“

Hæð? „186 cm.“

Þyngd? „Úff, allt of mikil. 105 kíló.“

Augnlitur? „Veit það ekki, ég er litblindur.“

Hárlitur? „Heyrðirðu ekki það sem ég sagði áðan?“

 

Eitt leyndarmál? „Ég er náttúrlega litblindur og kann allt of vel við að borða. Borða of mikið.“

Mesti hrekkur sem þú hefur gert? „Ég hef ekki gert mikið af þeim í gegnum tíðina. Ég nota frekar orðagrín.“

Varstu erfitt barn? „Ég var ekkert sérstakur námsmaður því ég hafði meiri áhuga á íþróttum og sinnti þeim miklu frekar en náminu.“

Hvaða íþróttir stundaðir þú þegar þú varst yngri? „Í litlu samfélagi prófaði maður allar íþróttir. Fótbolti var alltaf númer eitt en ég prófaði að keppa í íshokkí, körfubolta og við unnum þriðju deildina einu sinni í körfu. Það er kannski ekki mesta afrek íþróttasögunnar en töluvert afrek fyrir mig á þeim tíma. Ég keppti líka í bruni.“

Horfir þú mikið á íþróttir í sjónvarpinu? „Já, mjög mikið. Fyrir utan fótbolta finnst mér skíði og gönguskíði frábært sjónvarpsefni.“

Ertu pólitískur? „Ég hef mikinn áhuga á pólitík en hef aldrei verið skráður í flokk og aldrei gefið upp hvað ég kýs. Ég er ekki kommúnisti eða langt til hægri – bara blanda af öllu held ég.“

Ef þú fengir eina ósk, hver yrði hún? „Er það ekki bara að standa sig með íslenska landsliðinu? Í víðari skilningi myndi ég vilja frið í heiminum og enda hungursneyð víða um heim en þetta er mín ósk og það sem ég einbeiti mér að.“

Hverjir vinna Meistaradeildina? „Barcelona.“

Besti leikmaður sem þú hefur þjálfað? „Erfið spurning sem er eiginlega ekki hægt að svara. Mig langar að nefna Olaf Melberg, Freddie Ljungberg, Henke Larsson og Zlatan því þeir bjóða upp á allt sem hægt er að bjóða upp á í fótbolta.“

Fyndnasti leikmaður sem þú hefur stýrt? „Ætli ég segi ekki Teddy Lukic. Hann var svo afslappaður og hrikalega gáfaður að þegar hann kom með einhverja athugasemd var hún nánast alltaf fyndin. Hann er ein dásamlegasta persóna sem ég hef kynnst.“

Besti leikmaður alionel-messi-thomas-muller-barcelona-bayern-munich-champions-league-06052015_1dzp64uc807ve19p95c28l0daqllra tíma? „Úff, það er svo erfitt að svara svona. Gunnar Nordal skoraði flest mörk á einu tímabili á Ítalíu, en hversu góður er hann miðað við Pelé, Cruyff, Zidane, Maradona, Beckenbauer og Messi? Zlatan er einstakur leikmaður, með eiginleika sem enginn annar hefur og ég hef aldrei séð annað eins og þegar hann skoraði með hælnum á móti Ítölum. En ef ég verð að svara, ætla ég að segja Messi.“

 

3404893_1200_675

Er Ísland síðasta liðið sem þú þjálfar? „Ég er að verða gamall og ef ég á að vera raunsær þá er það mjög líklegt. Ég kann vel við mig hér, það er mikill áhugi á landsliðinu og ég er enn með eldmóð svo ég sé ekkert því til fyrirstöðu að vera með landsliðið næstu ár en maður veit aldrei hvað gerist í fótbolta. Kannski töpum við þremur leikjum í röð og þá verð ég bara rekinn. Ef það er eitthvað sem maður veit í fótbolta þá er það að maður veit aldrei neitt!“

Lars um stærstu íþróttastjörnu Svía, Zlatan Ibrahimovic: „Við bárum gríðarlega virðingu hvor fyrir öðrum. Hann er mjög sérstakur persónuleiki en um leið sterkur, bæði í klefanum og innan hópsins. Maður þurfti alltaf að vera á tánum í kringum hann.“

 

 

Uppáhalds …

-matur? „Ég borða nánast allt. Ég er mjög hrifinn af sushi og öllum fiski. Svo klikkar gott kjöt með gratíni aldrei.“

-drykkur? „Ég er viskímaður og single malt-viskí er uppáhalds áfengi drykkurinn ásamt rauðvíni. Annars drekk ég yfirleitt bara vatn.“

-veitingastaður? „Ég á engan uppáhaldsveitingastað en hef borðað á mörgum glæsilegum víðs vegar um heiminn. Ég borða oftast á Froskinum í Stokkhólmi; sá staður er í eigu kokksins sem ferðaðist með sænska landsliðinu og ég mæli með honum.“

-bók? „Ég les mikið og á margar uppáhaldsbækur. Eina bók get ég lesið aftur og aftur og það er Focking Sweden. Hún fjallar um að allir séu að flytja frá sveitum Svíþjóðar og í höfuðborgina – ekki ósvipað og á Íslandi.“

-kvikmynd? „Gaukshreiðrið.“

-leikari? „Fáir kannast eflaust við hann hér en það er George Rydeberg“

-tímarit? „Ætli ég eigi nokkuð uppáhaldstímarit … nema kannski bara tímaritið um umhirðu skóga. Það heitir North Forest.“

-dýr? „Ég er ekki mikill dýramaður en við höfðum hunda þar sem ég ólst upp og ætli ég segi ekki hundar.“

-staður? „Fótboltavöllurinn? Nei, ætli það sé ekki skógarbúgarðurinn minn.“

 

 

 

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, um Lars:Capture6

Hvernig maður er hann?

„Lars virkar rólegur og yfirvegaður. Hann sýnir öllum virðingu, er þægilegur í umgengni og það er gott að vinna með honum. Hann hefur lúmskan húmor og það er ekki til hroki hjá honum þótt hann hefði alveg efni á því þar sem hann hefur náð frábærum árangri sem þjálfari. Þrátt fyrir að vera þekktur um allan heim sem þjálfari virkar hann á mig þannig að hann hafi engan sérstakan áhuga á að vera í kastljósi fjölmiðlanna, hann vill eiga sitt einkalíf í friði. Hann er áhugasamur um Ísland, ber mikla virðingu fyrir íslenskri knattspyrnu og finnst mörg íslensk landslið hafa náð mögnuðum árangri á knattspyrnuvellinum miðað við fólksfjölda og fjármagn sem við höfum úr að spila. Þá finnst honum Ísland mjög fallegt og honum finnst Íslendingar duglegt fólk. Þessir hlutir heilluðu hann m.a. þegar hann tók þá ákvörðun að taka að sér landsliðsþjálfarastarfið.“

 

Hvernig þjálfari er hann?

„Lars er mjög taktískur þjálfari sem hefur ákveðnar skoðanir á fótbolta og veit nákvæmlega hvernig hann vill láta landsliðið spila í vörn og sókn; 70-80% af æfingunum sem hann verður með hjá landsliðinu munu snúast um leikskipulag í vörn og sókn og föst leikatriði. Það eru ekkert endilega skemmtilegustu æfingarnar fyrir leikmenn en þær ættu að skila árangri. Ísland þarf að spila mjög skipulagða knattspyrnu því yfirleitt spilum við gegn sterkari þjóðum. Lars er tilbúinn að hlusta á ráðleggingar, leggur mikið upp úr góðu samstarfi við aðra landsliðsþjálfara og þjálfara félagsliða, er fróðleiksfús og alltaf í leit að meiri þekkingu. Hann hélt marga fundi þann tíma sem hann var hér í byrjun janúar og nýtti tímann vel. Vinnubrögð hans hafa skilað Svíþjóð frábærum árangri og skila sér vonandi til okkar líka.“

 

Getur hann komið okkur í lokakeppni?

„Lars trúir því að það sé alltaf möguleiki og lýsir sér sem bjartsýnum raunsæismanni. Þegar dregið var í riðla var Ísland neðarlega á styrkleikalistanum en ef leikmenn, þjálfarateymi og stuðningsteymi landsliðsins undirbúa sig 100% og gefa allt sem þeir eiga í hvern leik er alltaf möguleiki fyrir hendi að komast í lokakeppni. Hann hefur trú á verkefninu, annars hefði hann eflaust ekki tekið það að sér. Hvort við komumst í þessa lokakeppni eða þá næstu verður að koma í ljós en möguleikarnir eru svo sannarlega fyrir hendi. Það er að koma upp ný kynslóð knattspyrnumanna á Íslandi sem hefur vanist góðum árangri með yngri landsliðum og vonandi skilar það sér í bættum árangri A-landsliðs karla.“

 

Heldur þú að hann lyfti íslenskum fótbolta á hærra plan?

„Ég hef trú á því að þetta hafi verið mjög góð ráðning hjá KSÍ og það sem þurfti á þessum tímapunkti fyrir landsliðið. Framtíðarmarkmiðið hlýtur þó að vera að hafa íslenskan landsliðsþjálfara og ég veit að Lars er þeirrar skoðunar sjálfur. Þjálfarar eru yfirleitt dæmdir af úrslitum leikja en honum hafa fylgt jákvæðir straumar þótt starf hans sé stutt á veg komið. Einn maður mun ekki breyta öllu, að lyfta íslenskum fótbolta á hærra plan hlýtur að vera samstarfsverkefni allra sem koma að knattspyrnunni á Íslandi. Að mörgu leyti hefur náðst frábær árangur, t.d. þegar litið er til árangurs flestra landsliða okkar, fjölda atvinnumanna sem við búum til miðað við fólksfjölda, öflugt starf aðildarfélaganna, gæði þjálfaramenntunarinnar eða þeirrar aðstöðu sem hefur verið byggð upp hér. Að sjálfsögðu viljum við samt alltaf gera enn betur og það er ein af ástæðunum fyrir því að Lars er hérna með okkur.“

 

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts