Á lífsleiðinni erum við alltaf að læra eitthvað, sama hvort við nemum þann lærdóm í skóla lífsins eða í einhverjum af þeim fjölda skóla sem í boði er á öllum skólastigum heima og erlendis. Sumar lexíur lærir maður fljótt og vel, aðrar er maður lengur að tileinka sér og sumar lærast líklega aldrei.
Bestu lexíurnar, bæði góðar og slæmar, hef ég lært í skóla lífsins og hef reynt að tileinka mér þessar sem taldar eru hér á eftir. Þar sem ég er einlægur og óstýrilátur þrjóskupúki gengur það ekki alltaf upp, en það kemur alltaf nýr dagur og ný lexía:
*Það er engin skylda að nýta allar gjafirnar sem þú fékkst í vöggugjöf, þær voru gefnar án skilyrða. Það er hins vegar hrein heimska að nýta sér ekki þessar þrjár í ómældu magni: gáfur, góðmennsku og gjafmildi.
*Lestu og lærðu alla ævi, líka það sem er ekki kennt í bókum.
*Fólk sem baktalar þig er skræfur, það hefur ekki kjark til að segja þér hlutina í eigin persónu. Vorkenndu því og tileinkaðu þér valkvæða heyrn.
*Lærðu að setja þig í spor annarra, jafnvel þó að þú komist ekki í skóna þeirra.
*Eignastu nýja vini, en haltu vinskap við þá gömlu líka. Hver og einn er einstakur og frábær viðbót í minningabankann. Svo verður svo gaman að þekkja einhverja þegar þú mætir á Grund.
*Sannir vinir standa með þér í gleði og sorg, það er gott en ekki skylda að komast að því minnst einu sinni á ævinni.
*Þú hættir ekki að hlæja þegar þú eldist, þú eldist þegar þú hættir að hlæja.
*Reyndu við yngri karlmenn, þeir eru skemmtilegri og sprækari, en alveg jafnvitlausir og þeir eldri (sorrí strákar).
*Fólk mun særa þig, yfirgefa þig og stinga þig í bakið. Reyndu að kynnast fólki og snúðu óhrædd við því baki. Öll sár gróa um síðir.
*Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig, flestir hafa þetta í heiðri. Þeir fáu sem gera eru ekki siðlaus skítseyði sem er alltaf gott að losna við.
*Brosum og munum að lífið er of stutt fyrir falska vini, vondan mat, lélega tónlist, leiðinlegar bækur, flatan bjór, ljóta skó, lélegt kynlíf og að aka um á leiðinlegum bílum.
*Það gengur allt mun betur ef jákvæðni er með í för og tónlist, helst sú sem þú getur sungið með (illa). Áhyggjur valda líka hrukkum, sem gera mann eldri.
*Elskaðu þig skilyrðislaust, ef að þú gerir það ekki geturðu ekki ætlast til að aðrir geri það.
*Við eigum öll rétt á hamingjunni.

14369953_10154237709049584_3764743452200329108_n

 

 

2016, Aldís Pálsdóttir, Ásta Garðarsdóttir, séð & heyrt, Starfsmannamynd, SH1606012200, Ragna

Ragna Gestsdóttir

 

 

Related Posts