Kjartan Gíslason (37) er algjör súkkulaðigrís:

 

Omnom-súkkulaðið hefur farið sigurför um landið og er komið í útrás. Súkkulaðið er einstaklega vandað og bragðið eftir því. Súkkulaðiævintýrið byrjaði þó sem tilraun tveggja vina á yfirgefinni Orkubensínstöð.

Omnom Omnom

GÓMSÆTT: Þeir félagar gera bragðgott súkkulaði á yfirgefinni bensínstöð.

 

Bragðgott í útrás „Við erum fjórir sem stöndum á bak við þetta. Ég er matreiðslumaður og félagi minn, Karl Viggó, er bakari og konditori-meistari, við erum mest á bak við súkkulaðidunkana. Hinir tveir, André Úlfur Visage hannaði allt útlit á súkkulaðinu og  Óskar Þórðarson, æskufélagi minn er framkvæmdarstjóri,“ segir Kjartan Gíslason, matreiðslumaður og einn framleiðanda súkkulaðisins víðfræga.

„Þetta byrjaði allt saman sem ein stór tilraun, enda tók tilraunamennskan rúmt ár. Við vorum lengi að læra á hráefnið og hættum ekki fyrr en við vorum orðnir fullkomlega sáttir við niðurstöðuna. Súkkulaðið er unnið frá grunni og lífrænt ræktaðar kakóbaunir notaðar.“

Fyrst þegar vinirnir hófu rekstur var framleiðslan 100 stykki á viku en núna eru stykkin orðin 5.000. „Viðtökurnar hafa komið skemmtilega á óvart. Þetta byrjaði eiginlega sem áhugamál sem hefur síðan undið upp á sig. Við hugsuðum þetta fyrst sem skemmtilegt hliðarstarf til að auka tekjurnar en núna er þetta orðið að fyrirtæki með sjö starfsmenn.“

Omnom OmnomAndré Úlfur Visage, grafískur hönnuður, á heiðurinn að litríku og skemmtilegu umbúðunum sem umlykja súkkulaðið. „André er frá Suður-Afríku en hefur búið hér á landi í tíu ár. Velgengnin er mikið honum að þakka enda eru umbúðirnar áberandi og skera sig úr.“

Omnom hefur ekki einungis verið vinsælt hér á landi heldur er komið í mikla útrás sem gengur eins og í sögu. „Við erum komnir með stóran dreifingaraðila í Svíþjóð og súkkulaðið er komið í 60 verslanir. Einnig erum við komnir á Ameríkumarkað og erum með dreifingaraðila þar sem er búinn að koma þessu í 30 verslanir. Við erum að selja meira af súkkulaðinu erlendis heldur en hérna heima.“

Höfuðstöðvar Omnom eru á yfirgefinni bensínstöð á Seltjarnarnesi sem mörgum þykja heldur skringileg húsakynni. „Viggó fann þetta í gegnum mann sem hann þekkti og var bakari með litla vinnuaðstöðu þarna. Þessi ágæti maður fór af landinu og þá ákváðum við að stökkva á þetta húsnæði. Þetta var alveg nógu stórt fyrst en núna er þetta orðið allt of lítið og við þurfum að fara leita að einhverju nýju.“

Lesið Séð og Heyrt – nýtt blað á leiðinni.

Related Posts