„Það verður séð fyrir öllu sem þig vantar,“ stendur á spjaldi sem ég hef tvisvar dregið á fyrirlestri hjá hinni stórskemmtilegu Siggu Kling og viti menn, eftir að ég dró spjaldið í fyrra skiptið eftir erfiða kafla í lífi mínu fékk ég í kjölfarið akkúrat það sem mig vantaði þegar spjaldið var dregið (hvort sem það var spjaldinu eða öðru að þakka). Það var því tilvalið bara að slaka aðeins á kröfunum sem ég gerði alltaf til sjálfrar mín og sjá hvað þetta allt sem mig vantaði væri og hvenær mér yrði fært það. Setningin góða varð þannig ein af lífsreglunum mínum (og já, þær eru nokkrar).

15240126_10154455187239584_1041561281_n
En nýjar væntingar, vonir, áherslur og draumar taka við af þeim eldri, ýmist þegar þær hafa verið uppfylltar eða er ekki lengur óskað af einhverjum ástæðum.  Eins og alla hefur mig oft langað í eitthvað á ævinni, bæði veraldlega hluti og huglæga, mig hefur til dæmis langað til að einhverjum myndi líka við mig, elska mig, verja tíma með mér. Eins og gefur að skilja eru veraldlegu hlutirnir mun auðveldari viðureignar, þó að þeir séu minna virði. Oft hef ég fengið það sem ég vildi en oft hefur mér ekki orðið að ósk minni.
Með auknum aldri, þroska og reynslu þá hef ég slakað á og hætt að rembast við hlutina, hætt að rembast við að gera hlutina rétt eða segja eitthvað rétt, einfaldlega til þess að einhverjum líki við mig. Orðið minna kröfuhörð í eigin garð, minna gagnrýnin, einfaldlega bara komið fram við sjálfa mig eins og ég kem fram við vini mína. Við erum jú bara öll mannleg, að gera okkar besta dag frá degi og meira getur maður ekki gert kröfu til.
Með þessu er ég ekki að segja að maður eigi bara að leggja árar í bát, leggjast í sófann og bíða eftir að lífið færi manni það sem mann vantar og langar í, heldur einfaldlega að maður eigi að gera hlutina á eigin forsendum, fyrir sjálfan sig, ekki til að þóknast öðrum, svo lengi sem maður gerir engum öðrum óleik.
Sinntu vinnunni þinni vel, af því að vel unnið verk veitir ánægju. Vingastu við vinnufélagana, af því að það er betra að það sé gaman í vinnunni en leiðinlegt. Gleddu aðra, af því að það gleður þig og gefur þér eitthvað til baka. Leyfðu öðrum að sjá hvað þú ert einstök, skemmtileg og skrýtin skrúfa í gangverki lífsins. Það gefur lífi þínu lit og hversdeginum lag. Ekki hafa áhyggjur, ef því er ætlað að verða, þá gerist það á réttum tíma af réttri ástæðu. Og oft færir lífið manni akkúrat það sem mann vantar en ekki það sem mann langaði í.

sh-1620-46-96376-683x1024

Ragna Gestsdóttir

 

 

Related Posts