Framsóknarkonan Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (41) sýnir á sér nýja hlið:

 

Oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur slakar hvergi betur á en í eldhúsinu og þar er Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir á heimavelli.

HORFT YFIR BORGINA

HORFT YFIR BORGINA: Sveinbjörg með prinsinum á heimilinu, Eyjólfi Erni, og saman horfa þau yfir borgina sem mamma tekur þátt í að stjórna.

X-B „Ég slaka best á í eldhúsinu og þar finn ég ró. Ég geng meira að segja svo langt að baka lummur fyrir krakkana mína á morgnana,“ segir Sveinbjörg sem hefur þurft að sitja undir ýmsu eftir að pólitískur ferill hennar hófst í síðustu borgarstjórnarkosningum – en stendur það allt af sér.

Sveinbjörg býr á fjórðu hæð í Safamýrinni, ásamt þremur börnum sínum, í íbúð foreldra sinna þar sem hún ólst upp ásamt systrum sínum. Börnin heita Stefanía Þórhildur, 16 ára, Sesselja Katrín, 13 ára, og prinsinn á heimilinu, Eyjólfur Örn sem er 10 ára.

„Ég og faðir barnanna, Haukur Albert Eyjólfsson, skildum fyrir fimm árum en erum samt bestu vinir. Hann starfar fyrir Atlanta-flugfélagið í Sádi-Arabíu um þessar mundir þannig að það er langt á milli,“ segir Sveinbjörg sem á ættir að rekja til Ísafjarðar þar sem pabbi hennar er frá Súðavík en móðirin er frá Neskaupsstað. Sveinbjörg ólst upp fyrir vestan en flutti til höfuðborgarinnar tíu ára gömul.

Sveinbjörg hefur yndi af að hreyfa sig og reynir að nýta hverja lausa stund til að spila blak með félögum sínum og svo hjólar hún um borgina þegar þannig viðrar.

„Ég er ánægð með lífið,“ segir hún og skellir í eina hnallþóru sem hún kallar Draum framsóknarkonunnar.

 


DRAUMUR FRAMSÓKNARKONUNNAR

Marensbotn

4 eggjahvítur

2 dl sykur
1 bolli kornflex

Þeytið eggjahvíturnar þar til myndast hafa stífir toppar. Bætið þá sykrinum út í hægt og rólega og þeytið áfram þar til sykurinn hefur leyst upp, eða a.m.k. svo gott sem. Kornflexið sett út í. Klæðið tvö 22 cm form með álpappír og skiptið blöndunni á milli þeirra. Bakið í 1 klst. við 130°C.

Krem

100 g suðusúkkulaði
1 dl flórsykur
3 eggjarauður
¾ l rjómi

Bræðið suðusúkkulaðið, og hrærið á meðan saman flórsykrinum og eggjarauðunum. Bætið bráðnuðu súkkulaðinu í eggjaflórsykurshræruna og hrærið vel.

Þeytið ½ l rjóma og bætið svo súkkulaðihrærunni út í og þeytið örlítið lengur.

Rjómi

Þeytið afganginn af rjómanum (¼ l – helst aðeins meira en það).

2 svampbotnar

ávextir (ferskir eða niðursoðnir)

Samsetning

Setjið svampbotnana hvorn á sinn diskinn. Setjið ávextina á botninn og eins mikið af safanum frá þeim og hægt er.  Skiptið rjómanum á milli botnanna og dreifið vel úr.

Marengsbotnarnir eru svo settir ofan á rjómann og því næst mjög þykkt lag af kreminu.

Related Posts