Var í annað sinn fjarverandi frá réttarhaldi vegna þunglyndis:

Dómari í New York hefur dæmt Oasis-rokkstjörnuna Liam Gallagher til þess að greiða rúmlega 600.000 kr. í sekt fyrir að mæta ekki í réttarsal. Liam bar við þunglyndi fyrir fjarveru sinni en dómarinn tók ekki mark á þeirri útskýringu. Í réttinum átti að fjalla um kæru barnsmóður Liam gegn stjörnunni fyrir að hafa ekki greitt meðlag með tveggja ára gamalli dóttur þeirra.

Fjallað er um málið í New York Post. Þar segir að í nóvember s.l. hafi Liam einnig átt að mæta fyrir dómarann í New York í þessu máli. Liam mætti ekki og sagði að ástæðan væri þunglyndi og kvíði. Það lítur því út fyrir að barnsmóðirin, blaðakonan Liza Ghorbani, þurfi að bíða lengi eftir meðlagsgreiðslunum.

Þetta mál er ekki það eina sem hrjáir Liam Gallagher þessa dagana. Hann stendur í skilnaði við eiginkonu sína, söngkonuna Nicole Appleton, og nýlega bárust fréttir um að hljómsveit hans, Beady Eye væri að leysast upp. Beady Eye er skipuð fyrrum Oasis meðlimum fyrir utan Noel bróður Liams.

Related Posts