grÞótt enn séu tíu milljónir manna myrtar í gamni utanlands og sumarsól á himninum yfir Íslandi sé varla nema fjarlæg minning hljótum við samt að vera uppi á bestu tímum allra tíma. Offita er helsti heilsufarsvandi fátækra og meira að segja sýklarnir sem stráfelldu fólk fyrr á öldum eru að verða ónæmir fyrir fúkkalyfjum. Öllu hefur verið á botninn hvolft og allt fer þetta einhvern veginn, þótt maður efist stundum um það. Lífið er hringrás og við því er ósköp lítið að gera annað en að njóta þess á meðan er og láta óbærilega léttleikandi nið tilverunnar skola sér áfram.

Sem betur fer er æskudýrkun bara bóla sem springur þegar hver kynslóð kemst til nokkurs þroska. Sköpunarverkið er enda svo dásamlegt að það hugsar fyrir öllu, þannig að það er í raun frábært að eldast. Konur blómstra sem kynverur þegar þær eru komnar yfir miðjan aldur og kynþokki karla eflist með hverri hrukku og gráu hári.

Einn galli er þó á þeirri gjöf sem aldurinn er. Eftir því sem innstæðan í lífsreynslubankanum hleðst upp eflist tilhneigingin til þess að nöldra yfir öllu og engu. Ég varð til dæmis skyndilega svo gamall að ég þrái ekkert heitar en að fá níunda áratuginn minn aftur.

Allt var einhvern veginn betra þegar ég var ungur. Og það sem var slæmt þá hefur ekki skánað mjög síðan. Ísraelar eru enn að murka lífið úr Palestínuaröbum eins og þeir hafa gert alla mína tíð og nú missir maður ekki stöku nætursvefn af áhyggjum yfir kjarnorkuvopnaeign Sovét- og Bandaríkjanna, heldur er maður andvaka allar nætur yfir því að alls konar terroristar og smáríki lumi á atómbombum.

Ég naut þess að alast upp á einföldum og saklausari tímum. Tímum ógnarjafnvægis kalda stríðsins og ógnarjafnvægi er af hinu góða. Í því felst öryggi. Það er þó huggun harmi gegn að í eilífðarsnúningi hringekju lífsins er stöðugt ógnarjafnvægi.

Merking þrífst nefnilega á andstæðu sinni og þannig lifir maður lífinu til hins ýtrasta framan af í trylltri hræðslu við ellina. Með aldrinum áttar maður sig síðan á að allur ótti er óþarfur og þá verður maður frjáls. Frjáls til að óttast framtíðina, mæra hið liðna og orna sér við syndirnar sem maður framdi í hræðslukasti æskuáranna.

Svona er nú tilveran geggjuð í öllum sínum léttleika.

 

Þórarinn Þórarinsson

 

Related Posts