ELDSNEYTI FYRIR VIRKA Í ATHUGASEMDUM

BækurSex árum eftir hrunið mikla er Björgólfur Thor Björgólfsson orðinn hundleiður á að vera stimplaður útrásarvíkingur. Hann stígur hér fram í bókinni Billions to Bust and Back: How I made, lost and rebuilt a fortune til þess að greina frá sinni hlið mála. Viðskiptablaðamaðurinn Andrew Cave, sem skrifar fyrir The Telegraph, gerir bókina með Björgólfi og skilar liprum og læsilegum texta. Eins og alþjóð veit er Björgólfi annt um nafn sitt og orðspor og vitaskuld er hér um málsvörn að ræða en hún er áhugaverð og það væri fásinna að skella skollaeyrum við því sem Björgólfur hefur fram að færa. Sama hvað hverjum sýnist munu viðhorf hans alltaf varpa einhvers konar ljósi á atburðina og þótt virkir í athugasemdum séu þegar froðufellandi yfir ósvífni Björgólfs, að dirfast að verja hendur sínar, verður ekki af honum tekið að hann virkar frekar einlægur. Hann opnar á ýmiss konar bannhelgi í fjölskyldusögu sinni og verður að fá hrós fyrir að reyna ekki að dylja það að hann er býsna drjúgur með sig og sjálfsöruggur gæi.

DRAUGAGANGUR Í HÖFÐI GUÐNA

BækurGuðni Ágústsson hefur tekið saman lítið varnarrit fyrir valkyrjuna og tálkvendið Hallgerði langbrók sem fær heldur snautlega útreið hjá höfundi Njálu og hefur í gegnum tíðina verið illa liðin hjá íslenskum almenningi sem hefur gert hana ábyrga fyrir dauða Gunnars á Hlíðarenda fyrir að hafa neitað bónda sínum um lokk úr hári sínu í bogastreng á ögurstundu. Þessi lífseiga firra þolir vitaskuld enga skoðun og í seinni tíð hafa margir hallast á sveif með Hallgerði, enda stórkostleg persóna og kjarnakona.

Hvað Guðna gengur til að spretta allt í einu Hallgerði til varnar er óljóst og strax í inngangsorðum Guðna hvarflar að manni að hann sé búinn að missa glóruna þar sem hann greinir frá því að Hallgerður hafi kallað til sín af bæjarhólnum í Laugarnesi. Guðni skrifar kverið sem sagt að áeggjan Hallgerðar og er litlu farsælli en húskarlar þeir sem hún atti á foraðið forðum. Hann hefur það eftir Hallgerði að hún hafi verið misnotuð kynferðislega, verið lög í einelti og beitt alls kyns órétti. Sjálfsagt margt til í þessu og Guðni segist skoða sögu Hallgerðar út frá nútímanum. Þar sem þeir eru vandfundnari fornmennirnir í íslenskum samtíma hlýtur maður að spyrja sig hvort einhver annar hafi ekki verið betur til þess fallinn að nútímagreina Hallgerði.

Bók Guðna er að mestu ómarkviss samtíningur úr Njálu og öðrum heimildum um Hallgerði sem ætlað er að renna stoðum undir þær kenningar sem Hallgerður gólaði á Guðna út úr hóli og gætu sem best rúmast í innrammaðri grein í Mogganum.

Hallgerður hefur fengið betri vörn áður, til dæmis í bókinni Leyndar ástir í Njálu sem Rósa B. Blöndal sendi frá sér 1987 og Guðni vitnar meðal annars til. Hann bætir litlu við annað en því sem Hallgerður segir honum en þau hefðu alveg eins mátt ræða mjólkurbúskap á 21. öldinni og áhrif ESB á landbúnaðinn.

ÆÐISLEGBækur

Stíll, kaldhæðni og skopskyn Steinunnar Sigurðardóttur nýtur sín í botn í Gæðakonum þar sem hún segir frá eldfjallafræðingnum Maríu Hólm. Hún er á leið til Parísar í flugvél þegar kona gefur henni gaum. Leiðir þeirra liggja aftur saman og ekki ljóst hvað þessi dularfulla kona vill Maríu.

Gæðakonur er besta bók Steinunnar til þessa, í það minnsta af þeim sem ég hef lesið. Stíll hennar heillar og það er ekki á hverjum degi sem maður kemst í sannkallaðar fagurbókmenntir sem byggja upp spennu sem magnast á endasprettinum í óvissu og áhyggjum af örlögum aðalpersónunnar.

SUBBULEG MORÐ

BækurYrsa Sigurðardóttir kann að spinna spennandi sögur og er í góðum gír í DNA og býður upp á krassandi morð sem fá hárin til að rísa, enda fengur að subbulegum drápum, ekki síst þegar morðtólin eru aðgengileg á hverju heimili. Býsna skemmtilegt og upplífgandi allt saman. Hasarinn byrjar á því að ung kona er myrt hrottalega á heimili sínu og eina vitnið er sjö ára dóttir hennar. Morðinginn er hvergi nærri hættur og lætur til sín taka aftur og radíóamatör fær undarleg skilaboð sem tengja hann báðum fórnarlömbunum án þess að hann þekki nokkuð til þeirra.

DNA er mjög spennandi og rígheldur þannig en sem fyrr er stíll Yrsu gallaður, orðalag klúðurslegt sem er ljóður á annars skemmtilegri spennusögu. Með smá yfirlegu og fínpússningu yrðu bækur Yrsu fyrsta flokks þrillerar en því miður fær maður á tilfinninguna að hún skili handritum alltaf á seinustu stundu, þegar prentvélarnar eru farnar að ýlfra. Ekki síst þar sem þessum gloppum fjölgar eftir því sem líður á söguna.

Related Posts