Gunnar Ólafsson (54) vill lyfta gömlu merki Reykjavíkur:

 

Reykjavíkurjarlinn Gunnar Ólafsson, leiðtogi Víkingafélags Reykjavíkur, Einherjanna, fann gamalt merki Reykjavíkurborgar fyrir tilviljun í Góða hirðinum. Merkið hefur ekki sést í áratugi. Það er orðið skjaldarmerki Einherjanna og Gunnar vill endilega að borgin noti það meira. Hann grunar sjálfstæðismenn um að hafa ýtt merkinu til hliðar til þess að koma að bláa litnum sem einkennir merki borgarinnar í dag.

 

krums

SÚLUR INGÓLFS: Líkt og nú voru öndvegissúlurnar hryggjarstykkið í gamla borgarmerkinu. Hér er merkið áberandi árið 1954 á einu ljósmyndinni sem hefur fundist af því.

Skarð fyrir skildi Gunnar var í Góða hirðinum um það leyti sem hann var að undirbúa víkingahátíðina sem haldin var í Reykjavík í júlí 2013. Þar fann hann bók um Alþingishátíðina 1930. Í bókinni var opna með myndum af merkjum allra sýslna landsins og þar rak hann augun í merki Reykjavíkur sem hann hafði aldrei séð áður.

„Þessi stórhátíð var haldin 1930, Leifsstyttan kom frá Ameríku og öllu var tjaldað til. Þá kom á daginn að sýslur landsins áttu ekki allar fánamerki, það sem kallað er „code of arms“ á ensku, þannig að það var drifið í að bjarga því. Tryggvi Magnússon kom þessu af stað og hann fékk óskir frá öllum sýslum um hvað ætti að vera á merkjum þeirra og teiknaði út frá þeim.“

 

Merkið sem hvarf

Reykjavíkurmerkið frá 1930 er áþekkt því sem þekkist í dag. Öndvegissúlurnar eru á sínum stað en yfir þeim siglir voldugt víkingaskip. Grunnurinn er hvítur og súlurnar svartar. „Það er ekki nokkur leið að komast að því hversu lengi merkið var notað. Það eru engar upplýsingar að finna um það og í raun kannast furðulega fáir við það. Ég hef eftir mikla leit aðeins fundið eina ljósmynd af merkinu.“

Það eina sem Gunnar segir að liggi ljós fyrir sé að bláa merkið er tekið upp 1957. „Þannig að hitt merkið hlýtur að hafa verið uppi í 26 ár en enginn veit af hverju bláa merkið var tekið upp og hinu ýtt til hliðar. Ég velti því fyrir mér hvort sjálfstæðismenn hafi haft eitthvað um það að segja, að þeim hafi verið illa við rauða litinn í merkinu og viljað fá þann bláa inn.“

 

skajd

SKJALDARMERKIÐ: Víkingarnir í Einherjunum tóku gamla borgarmerkið upp og það prýðir skildi þeirra.

Bitið í skjaldarrendur

Gunnar fór víða í leit að upplýsingum um merkið. Enginn hjá Reykjavíkurborg kannaðist við sögu þess, né heldur á Þjóðminjasafninu og í Þjóðmenningarhúsinu. Hann endaði á Ljósmyndasafni Reykjavíkur þar sem hann fann eina mynd af því frá 1954. En merkið heillaði og Einherjarnir gerðu það að skjaldarmerki sínu og þegar þeir héldu fyrstu víkingahátíðina í Reykjavík flögguðu þeir merkinu og voru með það á skjöldum sínum.

„Ég hitti Jón Gnarr í fjölmenningargöngu í fyrra og sagði honum frá merkinu og lagði til að borgin myndi nota það meira. Honum fannst þetta mjög spennandi en síðan hefur ekkert gerst. Við höldum auðvitað áfram að nota það og eigum þann draum að í framtíðinni fáist borgin til að flagga því víða þegar við höldum hátíðina okkar.“

Gunnar hefur gert óvísindalega könnun á skoðun borgarbúa á merkinu og óhætt er að segja að það falli í kramið. „Ég gerði könnun á 17. júní, gekk á milli fólks og sýndi því merkið og flestir voru á því að þetta væri miklu fallegra en merkið sem við notum í dag. Þannig að það er spurning hvort ekki ætti að athuga hvort það sé vilji hjá borgurunum að nota það meira.“

 

 

Related Posts