Júlíus Brjánsson (63) hlær hrossahlátri:

 

Kaffibrúsakarlinn Júlíus Brjánsson hefur verið í hestamennsku allt sitt líf. Þar hefur hann kynnst ansi litríkum karakterum og gefur nú út bók sem er samansafn af flökkusögum úr hestamennskunni.

 

Litríkar og lygilegar „Þetta eru flökkusögur í gamanstíl. Sögurnar koma alls staðar að úr hestaheiminum og það eru margir þekktir hestamenn sem koma við sögu,“ segir leikarinn og hestamaðurinn Júlíus Brjánsson sem gefur út bókina Hrossahlátur og segir frá ýmsu sem hann hefur orðið vitni að í hestamennskunni.

Júlíus Brynjólfsson Júlíus BrynjólfssonFlökkusögur

Júlíus segir sögurnar hafa gengið manna á milli og skemmt mörgum. „Sumar sögurnar eru eflaust einhverjar sem fólk kannast við og síðan eru aðrar alveg nýjar. Ég reyni að segja þær með mínum hætti en eins og flestir vita er eðli flökkusagna að þær breytast þegar þær berast á milli manna.“

Litríkir á hestbaki

Margur hestamaðurinn hefur löngum verið þekktur fyrir allt annað en venjulegan persónuleika og segir Júlíus það vera ástæðuna fyrir því að svona auðvelt sé að setja saman skemmtilega bók með frásögnum af þeim. „Hestamenn eru hrikalega skemmtilegir og mikið til af litríkum og sterkum persónuleikum sem stunda hestamennsku. Þarna er mikið um sérstakar og skemmtilegar manngerðir. Það er allt of mikið til af venjulegu fólki og það er meira af óvenjulegu fólki í hestamennskunni heldur en gengur og gerist og fyrir vikið er gaman að segja sögur af þeim,“ segir Júlíus og tekur fram að bókin sé langt í frá einungis ætluð hestamönnum.

 Helgi Björns og hinir

„Það eiga allir að geta haft gaman af þessum sögum. Þótt það séu þekktir hestamenn þarna sem aðrir hestamenn þekkja til þá fylgja með útskýringar af hverjum einstaklingi sem er til umræðu. Það eru sögur af alls konar persónuleikum þarna, eins og Sigurbirni Bárðarsyni, Finni Ingólfssyni, Helga Björnssyni og Hilmi Snæ, svo fáeinir séu nefndir.“

Það eru nokkur ár síðan Júlíus sagði skilið við leiklistina en fylgist þó enn mikið með því sem er að gerast. „Mér líst vel á það sem er í gangi og það er mikil gróska. Það er auðvitað peningaleysi í leiklistinni eins og í öðru í samfélaginu og hún hefur liðið fyrir það. Það eru léleg laun og allir þurfa að borða og borga reikningana. En það hefur aldrei verið annað eins magn af ungu og hæfileikaríku fólki í leiklistinni og er í dag.“

Ekkert unglamb

Júlíus hefur ekki hugleitt hvað hann væri að gera ef hann væri enn þá að leika. „Ætli ég væri ekki að leika gamanleik einhvers staðar. Ég er ekkert unglamb lengur og markaðurinn er hrifnari af lambakjötinu og ég beygi mig undir markaðslögmálin.“

Related Posts