Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm upplifði drauminn þegar hún lærði leiklist í London. Og hefur hún nú útskrifast sem leikkona. En enn þá eru nokkrir draumar sem hún á eftir að upplifa.

 

 

Fullt nafn: Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm.
Aldur: 25 ára.
Starf: Leik- og söngkona.
Maki: Enginn.
Börn: Engin.
Morgunhani eða nátthrafn: Það er síbreytilegt. Nátthrafn þessa dagana því ég vinn á kvöldin.
Fjallganga eða fjöruferð: Fjallganga, mér er hálf illa við sjóinn.
Ertu femínisti: Já, svo sannarlega. 

 

Afrek sem mig langar að ná: 

Keyra þvert yfir Bandaríkin. Draumaferðalagið er að fara í „roadtrip“ með tveimur vinkonum mínum, frá New York til LA og fara suðurríkjaleiðina. Við elsku allar kántrítónlist og förum þetta mjög líklega í kúrekastígvélum með góðu stoppi í Nashville.

Læra að spila á mandólín og banjó. Ég er byrjuð á mandólíninu og tek banjóið næst.

Prjóna peysu. Ég prjóna alveg heil ósköp og hef gert í mörg ár en hef ekki klárað heila peysu hingað til. Ég er búin að vera með eina í vinnslu í rúmlega ár en tekst alltaf að gleyma henni og byrja á sokkum eða vettlingum.

Gefa út lag eftir sjálfa mig. Ég hef sungið mörg falleg og skemmtileg lög eftir aðra en langar einn daginn að gefa út lag eftir mig sjálfa. Ég hef prófað mig áfram og einn daginn kemur eitthvað frá mér.

Hitta pennavinkonur mínar í Los Angeles. Ég hef átt pennavinkonur, þótt það séu meira tölvupóstar og Facebook-skilaboð í stað bréfa núorðið, í 10 ár núna sumarið 2015 og það er á óskalistanum að fara einn daginn og hitta þær í LA.

 

Afrek sem ég er búin að ná: 

Er leikkona. Ég ætlaði alltaf að verða leik- og söngkona og dreymdi um að læra leiklist í London frá því ég var lítil. Sá draumur rættist. Dagurinn sem ég komst inn og útskriftardagurinn voru því ansi magnaðir dagar.

Gefa út plötu. Platan mín, Á góðri stund, með lögum dægurlagasöngkonunnar Erlu Þorsteins kom út sumarið 2011. Það var ekkert lítið sérstök tilfinning að halda á fyrsta eintakinu í höndunum. Ég var mjög stolt þann daginn.

Læra á og spila sjálf á gítar á tónleikum. Ég var mjög lengi alltof góðu vön en bróðir minn er frábær gítarleikari svo ég þurfti aldrei að sjá um það sjálf. Ég byrjaði að spila fyrir rúmu ári og get ekki hætt, spilaði í fyrsta sinn á gítarinn á tónleikum í júní.

Sjá Leann Rimes og Martinu McBride á tónleikum. Það eru nokkrir tónleikar á óskalistanum en þessir eru efstir. Þessar söngkonur hafa verið í miklu uppáhaldi og fyrirmyndir mínar síðan ég var lítil. Hvorug þeirra er mikið að túra og alls ekki mikið utan Bandaríkjanna. Ég sá þær svo báðar á Country to Country-hátíðinni í London, Leann 2013 og Martinu 2014.

Búa í öðru landi og tala annað tungumál eins og innfædd. Þetta er eitthvað sem var alltaf á planinu. Ég flutti til Englands árið 2010. Þrátt fyrir að hafa talað ensku frá barnsaldri, eins og flestir Íslendingar, þá er gaman að tala hana nú alveg reiprennandi. Bretar verða oft hissa þegar ég segist vera útlendingur.

 

 

Related Posts