Ég keypti mér þó La-z-boy-stól um daginn. Virkilega góð fjárfesting. Fimmtán ára gamall, sér ekki á honum og kostaði ekki nema 7.500 krónur á bland.is.

„Sjö og fimm, það er alltof lágt verð. Það hlýtur að vera eitthvað að honum,“ hugsaði ég fyrst því þegar eitthvað hljómar of gott til að vera satt er það oftast raunin. Það var þó ekki í þessu tilfelli. Stóllinn er frábær, sér varla á honum og ástæðan fyrir verðinu var einfaldlega sú að þetta voru eldri hjón sem ætluðu að losa sig við allt settið því þau „ákváðu að skella sér í leðrið“ eins og kallinn talaði um. Smá „upgrade“ í gangi hjá þeim og ég naut góðs af því.

Í framhaldinu keypti ég mér jólabjórinn frá Tuborg eins og svo margir aðrir og finnst hann bara nokkuð góður. Þar kemur stóllinn líka sterkur inn því það er algjörlega himneskt að setjast í stólinn eftir langan dag, stilla á íþróttastöðina og fá sér einn jólabjór. „So Lazy.“

Senn líður að jólum og það er kominn einn hlutur á jólagjafalistann hjá mér. Mig vantar nýjan kodda. Svona stóran og þykkan kodda sem kaffærir á þér andlitið, vonandi ertu að lesa þetta mamma.

Annars er ég mikið jólabarn en nenni þó aldrei að skreyta of mikið. Ég þarf jólatré, eitthvað lítið og nett til að setja upp í íbúðinni, og mögulega eina jólaseríu í gluggasylluna. Annars eru jólin sá tími sem ég elska hvað mest. Jólaseríur á trjánum, snjór á götunni og blankalogn er draumastöffið. Það er þó sjaldnast þannig því við búum á Íslandi, eins og þið vitið.

Þar sem ég hef íbúð til afnota hefur myndast sú stemning að vinir mínir og ég finnum okkur oftast eitthvað að gera heima hjá mér. Við spilum spil, tökum einn FIFA-leik, rífumst og hlæjum og skjótum skotum hver á annan. Það er jólastemningin mín og ég myndi engu breyta hvað það varðar. Mitt „comfort zone“ er heima hjá mér, umvafinn vinum mínum og oft þurfum við ekki að segja eitt aukatekið orð.

Þó enn sé nóvember og jólin byrji ekki fyrr en Stekkjastaur kemur í bæinn er ég sjálfur kominn á hraðferð inn í fyrstu jólin mín með Lazy Boy. Þetta verður huggulegt.

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts