Sjálfhverfa er eitt helsta þjóðareinkenni Íslendinga. Við lítum gjarnan á okkur sem miðpunkt alheimsins og færa má fjölmörg rök fyrir þeirri fullyrðingu. Við erum óendanlega áhugasöm og forvitin um náungann og ágætis dæmi um það er sjónvarpsþátturinn Landinn sem gengur út á að heimsækja fólk úti um allt land og forvitnast um hagi þess og lífsviðhorf.

 
Þegar heimsviðburðir verða reynum við að finna íslenskan vinkil á þeim til þess að við getum fundið til samkenndar heima í stofu. Ef framin eru hryðjuverk eða náttúruhamfarir eiga sér stað þá er reynt að leita uppi Íslendinga sem verið hafa í námunda við atburðinn. Íslendingar sem eru að meika það erlendis eru vinsælt umfjöllunarefni og upphefðin kemur að utan fyrir þjóð sem einkennist af undarlegri blöndu af minnimáttarkennd og mikilmennskubrjálæði.

 
Sem betur fer er samsetning þjóðarinnar að breytast þó ekki hafi farið mikið fyrir því í fjölmiðlum. Nú er verið að sýna þættina Rætur á RÚV og þeir eru bráðskemmtilegir. Þar er kastljósinu loksins beint að innfluttum útlendingum sem koma með ný viðhorf og framlag til samfélagsins. Hingað til hafa fréttir um innflytjendur einkum beinst að hælisleitendum og farandverkamönnum en ekki þeim sem fest hafa rætur í íslensku samfélagi. Flestir eru fljótir að aðlagast íslenskum siðum og því tökum við ekki sérstaklega eftir þeim. Í þættinum var talað við fjölmargar konur og var gaman að heyra hvað margar þeirra lögðu sig fram við að tileinka sér tungumálið. Fjölleikamaðurinn Lee Nelson frá Ástralíu segir að fólk sé í grunninn alls staðar eins en hann hefur gert líf okkar skemmtilegra með því að stofna Sirkus Íslands og gera hann að alvörufjölleikahúsi.

 
Íslendingar eru í sjötta sæti á heimsvísu yfir fjölda fæddra landsmanna sem búa í erlendu ríki en 11,7% innfæddra Íslendinga búa annars staðar en hér á landi. Okkur þætti líklega skrýtið ef farið væri fram á að við tileinkuðum okkur tungumál og siði þeirra þjóða sem við flyttum til og okkur þykir sjálfsagt að við séum aufúsugestir alls staðar. Þess vegna er svo undarlegt hvað margir eru á móti því ágæta fólki sem kemur hingað til að fá að njóta þess sjálfsagða frelsis að búa annars staðar en í fæðingarlandi sínu. Nú eru um 25.000 erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi og vonandi tekst okkur að þroska með okkur þá samkennd og skilning að þeim fjölgi sem mest í framtíðinni.

Loftur Atli Eiríksson

Related Posts