Ingunn Lára Kristjánsdóttir (23) ætlar sér stóra hluti í heimi leikhússins:

Ingunn Lára Kristjánsdóttir, leikkona og dóttir fréttamannsins Kristjáns Más Unnarssonar, á sér stóra leiklistardrauma. Hún er útskrifuð úr virtum leiklistarskóla frá London en daginn fyrir útskriftina leit allt út fyrir það að leiklistardraumnum væri lokið.

GLÆSILEG: Ingunn er glæsileg ung kona og ætlar sér langt í leiklistarbransanum.

GLÆSILEG: Ingunn er glæsileg ung kona og ætlar sér langt í leiklistarbransanum.

Leikkona „Frá því að ég var lítil þá hefur mig alltaf langað að leika og það kom ekkert annað til greina hjá mér. Mamma og pabbi vissu líka alltaf að ég gæti ekki verið í einhverju skrifstofustarfi. Ég var alltaf að skrifa lítil leikrit þegar ég var yngri og reyndi að fá krakkana í skólanum með mér til að leika en það nennti því enginn,“ segir Ingunn og hlær.

GETUR ALLT: Ingunn er ekki bara frambærileg leikkona heldur skrifar hún einnig leikrit og leikstýrir. Hún segist vera týpan sem vill gera allt og ef hún finnur engin verkefni þá býr hún þau til.

GETUR ALLT: Ingunn er ekki bara frambærileg leikkona heldur skrifar hún einnig leikrit og leikstýrir. Hún segist vera týpan sem vill gera allt og ef hún finnur engin verkefni þá býr hún þau til.

Leikur og skrifar

Boltinn byrjaði snemma að rúlla hjá Ingunni sem fékk frábært tækifæri þegar hún komst inn í hinn virta leiklistarskóla Rose Bruford í London en stórleikarinn Gary Oldman er einn þeirra sem hafa útskrifast úr skólanum.

„Ég fór í áheyrnaprufu á þriðja ári í MH og það var bara til að fá reynsluna af því að fara í prufu. Ég bjóst ekkert við því að fá inngöngu í skólann og þarna þurfti ég að ákveða hvort ég ætlaði að klára menntaskóla eða fylgja leiklistardraumnum og ég ákvað að fylgja draumnum,“ segir Ingunn sem leikur ekki bara heldur skrifar einnig leikrit.

„Ég er nýflutt heim núna og er nýbúin að skrifa leikrit fyrir Halaleikhópinn sem verður sýnt í nóvember og svo skrifaði ég leikrit og sendi inn í Ungleik og ég komst áfram og það verður sýnt í Þjóðleikhúsinu í nóvember. Í ágúst var ég með leikrit sem ég skrifaði og lék í í Edinburgh Fringe sem er stærsta leiklistarsýning í heiminum og ég er bara nýkomin heim af þeirri sýningu og það var stórkostleg upplifun,“ segir Ingunn sem nýtur þess bæði að leika og skrifa leikrit og þegar hún er spurð hvort hún væri til í að leggja fyrir sig er svarið einfalt.

„Bara hvort tveggja.“

FYNDINN FEMÍNISTI: Ingunn hefur heyrt það oftar en einu sinni að hún sé lík heimsfræga grínistanum Amy Schumer. Hún hefur aldrei hitt Amy og segist ekki vera viss um að eiga neitt margt sameiginlegt með henni nema þá kannski að þær séu báðar fyndnir femínistar.

FYNDINN FEMÍNISTI: Ingunn hefur heyrt það oftar en einu sinni að hún sé lík heimsfræga grínistanum Amy Schumer. Hún hefur aldrei hitt Amy og segist ekki vera viss um að eiga neitt margt sameiginlegt með henni nema þá kannski að þær séu báðar fyndnir femínistar.

„Ég vil skrifa leikrit og leika og svo hef ég tekið upp á því að leikstýra líka. Þegar þú skrifar leikrit þá færðu að stjórna öllu og það er ótrúlega gaman að skapa sögu. Ég veit hvað ég vil leika og þar sem ég er leikari hef ég reynsluna af því að lesa handrit og það gerir skrifin þægilegri,“ segir Ingunn sem skilgreinir sig ekki sem ákveðna týpu af leikkonu.

„Ég leik sitt af hverju og er ekki endinlega föst í til dæmis gríni eða dramatík. Ég er líka lúmskt pólitísk og hef mjög gaman af svona kynjapólítik. Ég get verið svolítið farsaleg og hef meðal annars skrifað tvö leikrit sem gerast í geimnum. Ég fer bara í það sem mér finnst spennandi á hverjum tíma.“

LÍFIÐ ER LEIKUR: Líf Ingunnar snýst svo sannarlega um leiklist en þar hefur hún fundið sína hillu í lífinu og líður hvergi betur en þegar hún er á fullu í sinni vinnu.

LÍFIÐ ER LEIKUR: Líf Ingunnar snýst svo sannarlega um leiklist en þar hefur hún fundið sína hillu í lífinu og líður hvergi betur en þegar hún er á fullu í sinni vinnu.

 

Mikið áfall

Ingunn kláraði leiklistarskólann í London með glans en daginn fyrir útskrift leit út fyrir að allt væri farið í vaskinn. Það segir sig sjálft að leikarar þurfa að geta tjáð sig og þá skiptir miklu máli að geta notað vöðvana í andlitinu rétt. Ingunn upplifði martröð hvers leikara þegar hún lamaðist öðrum megin í andlitinu daginn fyrir útskrift.

Á ÖLLUM SJÚKRAHÚSUM: Ingunn var mynduð og sett á plakat á öllum sjúkrahúsum Englands vegna Bell´s Palsy-lömunarinnar.

Á ÖLLUM SJÚKRAHÚSUM: Ingunn var mynduð og sett á plakat á öllum sjúkrahúsum Englands vegna Bell´s Palsy-lömunarinnar.

„Daginn fyrir útskriftina fékk ég einhverja skrítna tilfinningu í andlitið og fór upp á sjúkrahús og þeir héldu að þetta gæti verið blóðtappi. Það kom síðan seinna í ljós að þetta var það sem kallast Bell´s Palsy og þá lamast maður öðrum megin í andlitinu. Tilfinningarússíbaninn sem fór af stað hjá mér er ólýsanlegur. Sem leikari er auðvitað hrikalegt ef maður lamast í andlitinu og ég hélt að leiklistarferillinn væri bara búinn, það voru allavega fyrstu viðbrögðin.“

„Ég ákvað að taka þetta þó með jákvæðninni og endaði á því að verða andlit NHS, heilbrigðisþjónustu Bretlands. Ég hafði samband við þá og sagði þeim mína sögu og þeim leist svo vel á þetta að þeir tóku mynd af mér sem endaði á plakati á öllum sjúkrahúsum í Englandi,“ segir Ingunn sem var þó farin að missa vonina um að lagast.

„Þetta stóð yfir í svona fjóra mánuði. Ég viðurkenni það að ég missti aðeins vonina um leiklistardrauminn en ég er það heppin að mamma mín er sjúkraþjálfari og hún hjálpaði mér mikið. Síðan notaði ég einnig leiklistartækni sem ég hafði lært í skólanum og með henni náði ég að vekja andlitið aftur, ef svo má að orði komast,“ segir Ingunn sem hætti þó ekki að leika.

„Ég hélt samt áfram að fara í áheyrnarprufur með lamað andlit og fékk meira að segja eitt hlutverk sem Pétur Pan. Ég ferðaðist um England sem Pétur Pan og rétt áður en ferðin fór af stað þá komst andlitið á mér aftur í lag.“

HÉLT AÐ DRAUMURINN VÆRI Á ENDA: Daginn fyrir útskrift Ingunnar úr Rose Bruford lamaðist hún öðrum megin í andlitinu. Ingunn hélt að leiklistardraumurinn væri úti en með jákvæðnina að vopni og mikilli vinnu er hún laus við lömunina.

HÉLT AÐ DRAUMURINN VÆRI Á ENDA: Daginn fyrir útskrift Ingunnar úr Rose Bruford lamaðist hún öðrum megin í andlitinu. Ingunn hélt að leiklistardraumurinn væri úti en með jákvæðnina að vopni og mikilli vinnu er hún laus við lömunina.

Umvafin stjörnum

Þrátt fyrir ungan feril í leiklist hefur Ingunn fengið nasaþefinn af því hvernig það er að vera stórstjarna í bransanum. Hún vann meðal annars með leikaranum Martin Freeman, sem er hvað þekktastur fyrir að leika hobbitann Bilbo Bagga, og þau náðu vel saman.

MEÐ MARTIN: Ingunn vann með stórleikaranum Martin Freeman og ber honum söguna vel. Hún segir að Martin sé jarðbundinn og skemmtilegur en á sama tíma mjög metnaðarfullur.

MEÐ MARTIN: Ingunn vann með stórleikaranum Martin Freeman og ber honum söguna vel. Hún segir að Martin sé jarðbundinn og skemmtilegur en á sama tíma mjög metnaðarfullur.

„Ég var að vinna hjá Trafalgar Studios sumarið eftir að ég kláraði skólann. Kerfið hjá þeim er þannig að maður klárar önnina og svo vinnur maður yfir sumarið og útskrifast í september. Þegar ég var að vinna hjá Trafalgar Studios vann ég með Martin Freeman fyrir Ríkharð þriðja. Við náðum mjög vel saman. Martin var sérstakur að því leyti að hann vildi alltaf hita gríðarlega mikið upp og ég hjálpaði honum oft við upphitunina með hinum ýmsu æfingum,“ segir Ingunn en Martin Freeman er ekki eina stórstjarnan sem hún hefur komist í tæri við.

„Eitt kvöldið var Martin að fagna eftir einhverja eina sýningu og hann sagðist vilja fagna með vinum sínum en vildi ekki fá of mikla athygli. Við opnuðum einn bar fyrir hann og síðan var það skemmtilegt þegar ég komst að því hverja hann var að tala um þegar hann talaði um vini sína en þá var þetta allt starfsliðið úr Sherlock-þáttunum. Ég viðurkenni það fúslega að ég varð „starstruck“ í fyrsta skipti þegar ég hitti Benedict Cumberbacth. Ég ræddi við hann um Ísland meðal annars því hann lék í Wikileaks-myndinni sem var auðvitað tekin upp á Íslandi. Hann sagðist algjörlega elska Ísland og þá sérstaklega Bláa lónið. Hann talaði einmitt um það að hann langaði mikið til að kaupa sér hús á Íslandi.“

 

Mörg verkefni

Ingunn hefur verið dugleg að finna sér og búa til verkefni í leiklistinni. Hún segir framtíð sína liggja bæði erlendis og hér á landi og hún muni alltaf finna sér eitthvað að gera.

Á SVIÐI: Ingunn hefur tekið þátt í mörgum leikritum og þarna er hún í hlutverki sínu í Litlu hryllingsbúðinni sem var sýnd í Texas árið 2012.

Á SVIÐI: Ingunn hefur tekið þátt í mörgum leikritum og þarna er hún í hlutverki sínu í Litlu hryllingsbúðinni sem var sýnd í Texas árið 2012.

„Maður heyrir marga segja að það sé svo erfitt að koma sér að hérna í leiklistinni heima en ég hugsa ekki um það. Ég bara fer í hlutina, ef ég finn enga vinnu þá bara skrifa ég leikrit og geri hlutina sjálf. Ég er ekki svona manneskja sem bíður eftir að hlutirnir gerist,“ segir Ingunn sem er með nokkur fjölbreytt verkefni í höndunum.

„Mín framtíð er bara bæði á Íslandi og erlendis. Ég er með nokkur verkefni núna og er meðal annars að fara að leikstýra óperu í Englandi um Twitter. Þetta er hugmynd sem ég bjó til og fékk styrk til að koma henni í gang og ég hlakka mikið til.“

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts