Arna María Hálfdánardóttir (29) opnar laktósafría ísbúð og kaffihús:

 
Arna María er Ísfirðingur og mun annast rekstur á nýju kaffihúsi sem verður opnað fljótlega á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi og er í eigu Jóns von Tetzchner. Staðurinn verður bæði ísbúð og kaffihús og verður allt vöruval í boði laktósafrítt og er staðurinn fyrstur sinnar tegundar á Íslandi. Ætlunin er að reyna að hafa sambærilegt framboð og er að finna á öðrum kaffihúsum og ísbúðum en þó mun þess vera gætt að ekkert innihaldi laktósa. Ísinn og aðrar mjólkurvörur koma frá Mjólkurvinnslunni Örnu í Bolungarvík.

 

 
ÍS OG MJÓLK Arna hefur starfað hjá Mjólkurvinnslunni Örnu frá byrjun en fyrir stuttu fagnaði fyrirtækið þriggja ára starfsafmæli sínu. ,,Ég hef bæði verið í sumarstörfum og unnið samhliða skóla og hef ég verið í hinum og þessum verkefnum en þó einna helst tekið þátt í markaðsstörfum fyrirtækisins, sem mér finnst sérstaklega skemmtilegt,“ segir Arna glaðvær. Gaman er að segja frá því að fyrirtækið heitir í höfuð á Örnu. ,,Ég er ekkert lítið stolt af því. Arna er ótrúlega flott og stækkandi fyrirtæki og vörurnar hafa án efa verið kærkomin viðbót í mjólkurvöruflóruna á Íslandi og þá sérstaklega fyrir þá sem eru með mjólkuróþol. Ég verð seint talin hlutlaus þegar kemur að Örnu en mjólkurvörurnar hans pabba eru með þeim betri sem ég veit um og ég get fullyrt að ísinn er dásamlegur,“ segir Arna María stolt á svip.

 

Aldís Pálsdóttir, Arna María Hálfdánardóttir, séð & heyrt, SH1609297330, Sjöfn Þórðardóttir, laktósafrítt kaffihús, ísbúð, Seltjarnarnes,

SPENNT OG STOLT: Arna María er bæði spennt og stolt af laktósafríu ísbúðinni og kaffihúsinu sem verður opnað í bráð.

 

 

Hugmyndin af laktósafríum ís
,,Jón er stór hluthafi í Örnu, framleiðslunni hans pabba og hugmyndin að laktósafríu kaffihúsi og ísbúð kviknaði út frá pælingum um það hvernig væri mögulegt að koma laktósafríum ís í sölu. Tilraunir til þess að koma ísnum í þær ísbúðir sem nú þegar eru á markaðnum, sem margar eru samningsbundnar við stærri aðilana höfðu gengið erfiðlega og bara ekki. Út frá því kviknaði hugmynd um að opna laktósafría ísbúð,“ segir Arna María brosandi. En Arna hefur framleitt laktósafría ísblöndu fyrir ísvélar og hefur hún fengist í sjoppunni Hamraborg á Ísafirði. ,,Við erum þó að fikra okkur inn á nýjar slóðir í ísgerðinni með því að framleiða laktósafrían gelato-ís og fyrstu tilraunir hafa tekist með eindæmum vel. Framhaldið verður skemmtilegt,“ segir Arna María.

 

Aldís Pálsdóttir, Arna María Hálfdánardóttir, séð & heyrt, SH1609297330, Sjöfn Þórðardóttir, laktósafrítt kaffihús, ísbúð, Seltjarnarnes,

LJÚFFENGT OG FREISTANDI: Splúnkunýr og freistandi gelato-kúluísinn frá Örnu nýtur sín fulls.

Þar sem hjartað slær
Áhugavert er að sjá hve frumkvöðlaverkefnin blómstra á Nesinu. En Jón er frá Seltjarnarnesi og þegar hann var í þeirri stöðu að fjárfesta, lá það beinast við að fókusa á Ísland og þá sérstaklega Seltjarnarnes. ,,Hann á mikið af ættingjum hér og fjölskyldan hans eyðir miklum tíma hérna líka. Fyrir þremur árum voru skrifstofurými til sölu á Eiðistorgi og torgið sjálft hefur upp á svo margt að bjóða, því þótti honum það vera dýrmæt fjárfesting. Ef hann gæti fengið fleira fólk hingað, þá myndi það auka lífið á torginu og úr varð að hann stofnaði Innovation House, sem kom með 100 manns, 20 nýsköpunarfyrirtæki sem leigja skrifstofuhúsnæði þar og hans eigið fyrirtæki, Vivaldi Technology sem er starfrækt á torginu,“ segir Arna María. ,,Ein af öðrum fjárfestingum hans var í Mjólkurvinnslunni Örnu og þegar tækifæri gafst á að eignast húsnæðið hérna á horninu, ákváðu Jón og pabbi að hrinda hugmyndinni um laktósafría ísbúð í framkvæmd og úr varð sem fyrr sagði. Fyrir allar fjölskyldur þar sem mjólkuróþol er til staðar, þó svo að það sé bara einn einstaklingur innan fjölskyldunnar, þá er þetta leið fyrir þær til þess að njóta þess saman að fá sér laktósafrían ís og annað sem verður í boði. Helsta markmið Jóns er alltaf að gefa til baka í sinn heimabæ og við vonum að þetta verði ein leið til þess að við getum gert það. Einnig er frábært að koma með Örnu vörurnar í nágrennið, sem þó eru nú þegar fáanlegar í Hagkaup á Eiðistorgi,“ segir Arna María hreykin.
Glæsileg opnun fram undan á Eiðistorginu
,,Við erum í standsetningu og undirbúningi þessa dagana og stefnum að því að opna um leið og allt er klárt, við gerum ráð fyrir að það verði á næstu vikum. Það er margt sem þarf að huga að og því mikil vinna í gangi, öll skemmtileg enda er þetta ótrúlega spennandi verkefni að takast á við. Ég er mjög spennt fyrir opnuninni, sem og við öll sem að þessu komum og vonandi verða viðtökurnar góðar og nóg að gera,“ segir Arna María en draumurinn er auðvita að geta opnað fleiri sambærilega staði í framtíðinni. Arna María er sannfærð um að það verði markaður fyrir það og það verði bara að koma í ljós hvað verður. ,,Við tökum bara eitt skref í einu.“

Related Posts