Elín Ósk Hreindal (25) lærði í háborg tískunnar:

Elín Ósk Hreindal Ólafsdóttir saumaði flíkur á Haffa Haff fyrir nokkrum árum þegar hann var sem mest áberandi. Síðan fór hún í nám í Mílanó, háborg tískunnar, og lærði fatahönnun og sníðagerð. Hún er með próf frá svo virtum skóla að í raun standa henni allar dyr opnar en áður en hún heldur á vit frekari ævintýra ætlar hún að njóta roksins á Íslandi.

Elín Ósk

GAMAN SAMAN: Með vinkonum á góðri stund.

Klár „Ég var mjög ung þegar ég byrjaði að hanna og sauma, eitthvað um tíu ára. Þannig að það var eiginlega aldrei spurning um annað en að ég myndi leggja þetta fyrir mig og ég held að það hafi ekki komið neinum á óvart sem þekkir mig,“ segir Elín Ósk.

„Þetta byrjaði sem hobbí hjá mér og svo útskrifaðist ég af fatahönnunarbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti og fór að hanna á Haffa Haff upp úr því.“ Elín skellti sér svo í nám við „háttvirtan“ skóla í Mílanó á Ítalíu þar sem hún lærði fatahönnun og sníðagerð sem er flóknari vísindi en margan grunar. „Sníðagerðin er stórkostlega flókin og skólinn sem ég var í er svakalega virtur og þeir sem útskrifast þaðan fara yfirleitt beint í hátískuna. Ganga bara beint í störf þar.“

Elín Ósk

SMART: Elín Ósk er með flott próf upp á vasann og henni standa flestar dyr opnar í tískuheiminum.

Elín Ósk ætlar sér að sjálfsögðu að taka sömu stefnu og aðrir nemendur skólans en fyrst ætlar hún aðeins að njóta lífsins á Íslandi. „Þetta er einkaskóli og námsgjöldin í takt við það en maður þurfti fyrst og fremst að sýna brennandi áhuga til þess að komast þar inn og þetta var algjörlega þess virði. Einnig lærðum við einstaka nákvæmni við sniðagerð og saumaskap sem er einmitt það sem að svo fleytir nemendum beint inn í hátískuhúsin.“

Elín Ósk stefnir að því að starfa sjálfstætt með íslenskum fatahönnuðum hér heima og tekur að sér einnig að sérsníða flíkur fyrir sérstaka atburði svo sem fermingar eða giftingar og annað, áður en hún heldur út aftur í hinn stóra heim tískunnar. „Ég kom heim rétt fyrir jólin og var þá búin að vinna í eitt ár hjá fyrirtæki sem sníðir fyrir Armani og fleiri stóra. Mér fannst tími kominn til að fara heim. Það er alltaf logn í Mílanó þannig að það bærist aldrei hár á höfði og ég var farin að sakna íslenska roksins, fjölskyldunnar og vina. Ég er bara komin hingað í tímabundið hlé og langaði að sjá hvað væri í gangi hérna áður en ég fer í frekari ævintýri úti í heimi. Kuldi og frost fara mér ekkert sérstaklega vel þótt ég sé íslensk.“

Elín Ósk

Í GÓÐUM GÍR: Elín Ósk með útlenskum vinkonum sínum á góðri stundu.

 

Nýtt Séð og Heyrt á leiðinni…

Related Posts