VI1502061989-1

Nafn: Þorgrímur Þráinsson. Aldur: 56 ára. Starf: Ég vinn við að halda fyrirlestra og skrifa bækur. Maki: Ragnhildur Eiríksdóttir. Börn: Kristófer, 22 ára, Kolfinna, 18 ára, Þorlákur Helgi, 14 ára. Gæludýr: Birta sæta. Áhugamál: Mannlífið, heilbrigt líf, kyrrðin. Á döfinni: Halda áfram að hitta frábæra unglinga sem eru dásamlegir upp til hópa og gera gagn í samfélaginu.

Þorgrímur Þráinsson er svo heppinn að fá að heimsækja alla grunnskóla á Íslandi og ræða við nemendur í 10. bekk um mikilvægi þess að vera ástfanginn af lífinu, bera sig eftir draumum sínum, fara út fyrir þægindarammann, vera flottur karakter og gera sér grein fyrir því að lífið er núna, ekki í gær og ekki á morgun. Auk þess er hann í verkefni fyrir ráðherranefnd um bætta lýðheilsu barna og ungmenna.

Hvað ertu að lesa?

Ég legg mig fram um að lesa í lífið alla daga og bregðast við ólíkum aðstæðum. Þar fyrir utan opna ég ,,bók“ daglega sem heitir Ég elska máva, eftir ónafngreindan höfund. Hún kemur vonandi fyrir sjónir almennings um næstu jól.

Hvað lastu síðast?

Ég ætlaði að ljúka við Öræfi en datt fljótlega ofan í of djúpa sprungu og efast um að ég komist upp úr henni. Þar fyrir utan las ég nýlega Þrír sneru aftur eftir Guðberg Bergsson og Drápu eftir Gerði Kristnýju sem er ein af mínum eftirlætiskonum.

Hvaða bækur eru á náttborðinu þínu?

Kristur í oss, sem er skyldulesning fyrir þá sem vill láta gott af sér leiða. Outliers eftir Malcolm Gladwell og The Compound Effect eftir Darren Hardy. Svo eru vinir mínir og snillingarnir Einar Kárason og Þórarinn Eldjárn alltaf í seilingarfjarlægð.

Hvaða bók hefur mótað líf þitt?

Það hefur engin ákveðin bók mótað líf mitt en Andrés Önd og Aristóteles hafa hreyft við mér sem og fjöldi höfunda og karaktera. Ég las Kristur í oss nýlega, eftir að hafa gleymt henni í 30 ár, en hún talar beint til mín. Að lesa góða og áhrifaríka bók er hvíld frá lífinu og tíminn er of dýrmætur til þess að rembast í gegnum bók sem snertir mig ekki. Way of the Peaceful Warrior hafði áhrif á mig og ég kýs frekar að lesa bjartar bækur í stað þess að reyna að leysa gátur um morð og misþyrmingar sem tröllríður bókum og sjónvarpsþáttum. Það vantar gleði, von og hamingju í bækur því annað dregur okkur niður — þótt við gerum okkur ekki grein fyrir því. Að lokum er bók eftir OSHO merkileg að mínu mati, hún heitir Courage, the Joy of Living Dangerously.

Hvaða lesefni mælir þú með?

Þar sem engir tveir einstaklingar eru eins er erfitt með að mæla með bókum fyrir aðra. En ofangreindar bækur hafa haft áhrif á mig og ég hvet fólk til að lesa bækur sem lyfta andanum alveg eins og ég hvet fólk til að umgangast fólk sem er bjart, jákvætt og talar fallega um aðra.
Hefur þú lesið einhverjar bækur oftar en tvisvar?
Ég man ekki eftir neinum titlum í augnablikinu en oft nota ég merkipenna þegar ég les bækur sem fjalla um lífsgleði og hamingju og merki við það sem ég vil lesa aftur. En eftirleiðis mun ég lesa Kristur í oss árlega.

 

Umsjón: Hildur Friðriksdóttir
Myndir: Aldís Pálsdóttir

Related Posts