Það er sitthvað gæfa eða gjörvileiki:

Töffarar Bandaríska tímaritið People hefur haft það fyrir venju áratugum saman að velja kynþokkafyllsta núlifandi karlmanninn ár hvert. Leikarinn Chris Hemsworth nýtur þess heiðurs að bera titilinn í ár en það er þó engin trygging fyrir ævarandi vinsældum og velgengni að komast á forsíðu People undir þessum formerkjum. Þetta sést best með því að líta um öxl og skoða örlög manna sem hafa í gegnum árin notið þessa heiðurs.

MEL GIBSON 1985

Ástralska kyntröllið Mel Gibson var á hátindi frægðar sinnar um miðjan níunda áratuginn. Hann þótti skarta einhverjum þeim flottasta karlmannsrassi sem sést hafði. Túlkun hans á klikkuðu löggunni Martin Riggs í hinum vinsælu Lethal Weapon-myndum lyfti honum í hæstu hæðir og seinna meir sló hann í gegn sem leikstjóri.

Eftir að hafa tekið nokkur æðisköst í ölæði, drullað yfir og lamið barnsmóður sína og úthúðað gyðingum er Mel einangraður og illa liðinn í Hollywood en virðist vera að ná vopnum sínum á ný. En hann hefur látið á sjá og er ekki svipur hjá sjón.

MARK HARMON 1986

Mark Harmon naut þess að vera kynþokkafyllsti karlinn 1986. Hann naut vinsælda í sjónvarpi og reyndi fyrir sér í kvikmyndum með takmörkuðum árangri. Þokki hans fjaraði líka fljótt út en hann fær enn greidd laun fyrir að vera aðalgæinn í sjónvarpsþáttunum NCIS.

HARRY HAMLIN 1987

Harry Hamlin er annar sjónvarpsleikari sem komst á forsíðu People. Hann naut vinsælda í þáttunum L.A. Law á sínum tíma en er öllum gleymdur í dag.

SEAN CONNERY 1989

Skoski James Bond-leikarinn Sean Connery er sá eini á þessum lista sem gæti staðið undir nafnbótinni kynþokkafyllsti karlmaður allra tíma. Hann var heitur þegar hann lék Bond fyrst 1963 og þrátt fyrir skalla og hrukkur er hann enn sexí og munar þar mest um röddina og töffaralega framkomuna. Hann er hættur að leika og nýtur þess að spila golf og getur verið þess fullviss að hann muni enda sem fagurt lík.

TOM CRUISE 1990

Tom Cruise var einu sinni ungur og sætur og hefur nánast ekkert breyst. Ætla má að hann hafi selt sálu sína fyrir eilífa æsku og ekki kæmi á óvart ef hann ætti málverk af sér uppi á háalofti sem hrörnar og eldist á meðan hann lætur sjálfur hvergi á sjá.

PATRICK SWAYZE 1991

Patrick Swayze var mesti kvennaljómi í heimi eftir Dirty Dancing 1987 og festi sig enn frekar í sessi með hinni rómantísku mynd Ghost 1990. Ári síðar var hann enda valinn kynþokkafyllsti karlmaðurinn hjá People. Því miður eiga þeir það til að deyja ungir sem guðirnir og konur elska og krabbamein dró leikarann til dauða, aðeins 57 ára gamlan, árið 2009.

Related Posts