María Tinna Hauksdóttir (13) er með dansinn í blóðinu:

Dansparið María Tinna Hauksdóttir og Gylfi Már Hrafnsson eru með þeim efnilegustu í sínum aldursflokki. Þau hafa verið óstöðvandi eftir að þau byrjuðu að dansa saman og eru það sem af er ári ósigruð í ballroom og latíndönsum. María Tinna á ekki langt að sækja hæfileikana þar sem amma hennar og afi og foreldrar eiga að baki glæstan feril á gólfinu.

EFNILEG: María Tinna og Gylfi Már smullu saman þegar þau byrjuðu að dansa saman og raða nú inn bikurunum.

EFNILEG: María Tinna og Gylfi Már smullu saman þegar þau byrjuðu að dansa saman og raða nú inn bikurunum.

María Tinna er dóttir dansparsins Esterar Ingu Níelsdóttur og Hauks Ragnarssonar, margfaldra Íslandsmeistara og fyrrum atvinnupars í dansi. Ester varð, með fyrri dansherra, fyrst íslenskra dansara til þess að keppa á erlendri grundu þegar hún sveif um dansgólfið í Blackpool 1987.
„Við náðum mjög góðum árangri, bæði hér heima og í útlöndum,“ segir Ester. „Og það má segja að við höfum verið brautryðjendur fyrir þá sem komu á eftir og opnuðum á meiri möguleika fyrir íslenska dansara.“

Eldri systkini Maríu Tinnu, þau Aníta Lóa Hauksdóttir og Kristófer Haukur Hauksson, eru einnig liðtækir dansarar þannig að dansinn dunar í blóði fjölskyldunnar. Kannski ekki furða þar sem amma þeirra og afi, foreldrar Esterar, Níels Einarsson og Rakel Guðmundsdóttir, voru á sínum tíma glæsilegt danspar og frumkvöðlar í dansinum á Íslandi.

„Já, já, það er ekki spurning að dansinn er í blóðinu,“ segir Ester. „Mamma og pabbi ráku Nýja dansskólann í mörg ár. Hættu svo rekstrinum og kenndu í mörg ár í Bandaríkjunum. Nú kenna bæði þau og ég hjá HK. Þau stóðu líka fyrir fyrstu dansskeppninni á Íslandi, sem var sýningakeppni og fjögur bestu danspör heims þá voru fengin til að dansa í Súlnasalnum.“

MAMMA OG PABBI: Foreldrar Maríu Tinnu, Ester og Haukur, voru glæsilegt atvinnupar í dansinum.

MAMMA OG PABBI:
Foreldrar Maríu Tinnu, Ester og Haukur, voru glæsilegt atvinnupar í dansinum.

Í ljósi fjölskyldusögunnar hlýtur maður að spyrja hvort ástin kvikni á dansgólfinu og hvort það sé kannski illmögulegt annað en að falla fyrir dansfélaga sínum?
„Ég og maðurinn minn kynntumst nú fyrir utan dansinn. Hann var í körfuboltanum. Ég dró hann í dansinn og þjálfaði hann upp. Hann byrjaði ekki að dansa fyrr en hann var orðinn átján ára,“ segir Ester og hlær.

María Tinna er yngsti meðlimur dansfjölskyldunnar miklu og á framtíðina fyrir sér. „Hún er nýorðin þrettán ára og hefur dansað síðan hún var þriggja ára. Þegar hún og Gylfi Már byrjuðu að dansa saman í fyrrasumar small allt saman. Henni hafði gengið þokkalega áður en það hafði alltaf verið svolítið erfitt í keppnum og hann var í svipaðri stöðu. Þau eru búin að vinna allar keppnir frá áramótum, gekk mjög vel í Blackpool og komust í úrslit í sínum aldursflokki bæði í ballroom og latín í Kaupmannahöfn. Það er virkilega gaman að sjá þau blómstra svona saman, enda eiga þau það bæði svo innilega skilið. Þetta eru hörkuduglegir og skemmtilegir krakkar.“

KYNSLÓÐIRNAR ÞRJÁR: Afi og amma, Níels Einarsson og Rakel Guðmundsdóttir,  María Tinna, og mamma, Ester Inga Níelsdóttir.

KYNSLÓÐIRNAR ÞRJÁR:
Afi og amma, Níels Einarsson og Rakel Guðmundsdóttir, María Tinna, og mamma, Ester Inga Níelsdóttir.

AMMA OG AFI: Níels Einarsson og Rakel Guðmundsdóttir voru framarlega í dansinum á sínum tíma og eru enn að kenna.

AMMA OG AFI: Níels Einarsson og Rakel Guðmundsdóttir voru framarlega í dansinum á sínum tíma og eru enn að kenna.

Related Posts