Kvikmynd um tilhugalíf þeirra Baracks Obama Bandaríkjaforseta og Michelle eiginkonu hans er í bígerð í Hollywood. Vinnuheiti myndarinnar er Southside With You en þau Barack og Michelle fóru á sitt fyrsta stefnumót í Southside hverfi Chicago sumarið 1989.

Í frétt á vefsíðunni Deadline Hollywood kemur fram að Barack hafi þurft að hafa verulega fyrir því að fá Michelle á stefnumót með sér. Hann var þá nýráðinn sem sumarafleysingamaður á lögmannsstofunni Sidley Austin í Chicago eftir að hafa lokið prófi frá lagadeild Harvard háskólans. Michelle var yfirmaður hans á stofunni.

Kvikmyndin mun fjalla um daginn þegar þau fóru á þetta fyrsta stefnumót sitt. Á því heimsóttu þau m.a. Art Institue, fóru í langa gönguferð og luku deginum með því að sjá myndina Do The Right Thing í leikstjórn Spike Lee í nálægu kvikmyndahúsi. Þau giftu sig síðan árið 1992.

Þegar hefur verið ákveðið að leikkonan Tika Sumpter leiki Michelle en verið er að leita að leikara til að taka að sér hlutverk hins unga Barack Obama.

Related Posts