Það verður seint sagt að ég hafi alist upp í allsnægtum. Fyrstu árum ævi minnar var varið í 30 fermetrum á Flókagötunni og þar á eftir var flutt upp í Breiðholtið í félagsíbúð sem þó var 80 fermetrar. Þegar mamma var ein með mig þá áttum við ekki bíl, það var farið leiðar sinnar með „gula einkabílnum“ eins og hún kallaði það.

Á unglingsárunum átti ég ekki fínu Diesel-gallabuxurnar og ég átti ekki hlaupahjól þannig að ég þurfti að hlaupa á eftir krökkunum um allan Fossvoginn, ég var alltaf í ótrúlega góðu formi. Þegar hinir krakkarnir voru að æfa þrjár íþróttagreinar og í píanónámi þá þurfti ég að velja mér eitt áhugamál og sinna því af öllum mínum kröftum.

Á þessum fyrstu árum ævi minnar kunni ég ekki að meta þetta en eftir því sem árin hafa færst yfir og vitið hefur aukist samhliða, vonandi, þá hef ég séð skoplegu og dýrmætu hliðarnar á þessu máli.

Ég lærði nægjusemi sem hefur komið mér langt á litlu. Ég lærði að taka að mér fáa hluti í einu og einbeita mér að þeim af fullum krafti. Ég lærði að það þarf ekki mikið til að vera hamingjusamur, oft felst hamingjan í einfaldleikanum.

Uppeldið hefur samt fengið mig til að leggja harðar að mér til að koma í veg fyrir að ég eigi á hættu að lifa við mikinn skort. Kvíðahnúturinn í maganum eykst stundum þegar ég labba fram hjá búðum sem bera það utan á sér að efnaminna fólk verslar þar. Stundum þegar ég legg leið mína í Bónus þá kemur yfir mig minningaflóð sem kallar upp elskulega kvíðahnútinn enn og aftur.

Verkefni síðustu mánuði hefur þó verið að segja kvíðahnútnum stríð á hendur. Hann á ekkert heima þarna í maganum á mér. Það er engin ástæða fyrir honum og ég skil eiginlega ekki tilvist hans. Ef það er eitt sem ég lærði á mínum yngri árum þá er það það að peningar og hamingja hafa ekkert með hvort annað að gera.

Peningar geta eflaust einfaldað lífið til muna en fært hamingju geta þeir ekki.

 

Anna Gréta Oddsdóttir

Related Posts