Kona er bara „krass-búmm“. Fékk ekkert sumarfrí svo heitið geti og hef undanfarið tekið tilveruna með miklum stæl og nú er svo komið að Duracell-kanínan, ég , er búin á því, algjörlega.

Og þá er bara eitt að gera og það er að taka sjálfa sig úr sambandi við hversdaginn og endurhlaða rafhlöðurnar þar sem kyrrðin og friðurinn ríkir. Stilla kompásinn og finna rétt hitastig í tilverunni. Velta sér upp úr haustlaufunum og hlaupa úti í rigningunni – kona þarf ekki alltaf kampavín og kavíar til að vera kát.

Ég hef verið líkt og barn á jólum því tilhlökkunin hefur yfirtekið flestar hugsanir síðustu daga, það verður gott að komast í endurvinnslu á sjálfum sér, dítoxa sálina og geðið.

Að losna við áreiti og síbylju og komast í frí frá ægivaldi tómstundadagskrár sem stjórnar lífinu eftir vinnu af mikilli hörku. Hvað það verður ljúft að gefa þvotti og uppvaski frí og leyfa vekjaraklukkunni að sofa út.

Og hvert skal haldið í frí er ég spurð? Það segi ég ekki því að það er hluti af planinu að vera algjörlega utan þjónustusvæðis í víðum skilningi þess orðs.

Því einfaldari sem dagskráin er því meira frí. Ég hef fyrir löngu gefist upp á maraþondagskrá þar sem komast skal yfir sem mest á korteri. Keppni í því hver kemst í flest „moll“ er allsráðandi og enginn maður með mönnum ef að hann fer ekki í alla skemmtigarða sem í boði eru og á minnst þrenna tónleika á einni helgi. Það er ekki frí – það er sturlun.

Pakka létt – ef þú getur ekki borið töskuna þá skaltu ekki fylla hana, sagði pabbi alltaf, og kona tekur mið af því. Hlaupagalli, sundföt, gönguskór, jú, og tvær bækur. Það er ekki mikið annað sem þarf í gott frí. Ég mun meira að segja skilja kettina eftir heima svo staðráðin er ég í því að hvíla mig.
Gott frí – gerir lífið skemmtilegra eins og Séð og Heyrt gerir í viku hverri – njótum, slökum og dveljum í gleðinni.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts