Merkar konur:

Nokkur stærstu snyrtivörumerki í heimi bera nöfn þeirra kvenna sem upphaflega hrintu línunum úr vör. Þessar konur eiga það sameiginlegt að hafa átt áhugaverða ævi og vera stórkostlegir frumkvöðlar.

Snyrtivörudrottningar

KLÁR: Helena lagði stund á læknisfræði.

 

SMÁVAXIN EN HUGSAÐI STÓRT
Helena Rubinstein fæddist í Kraków í Ungverjalandi (nú Póllandi) 25. desember árið 1870 eða 1871. Hún var elst átta systkina og ólst upp við kröpp kjör. Hún lagði stund á læknisfræði í Sviss en hætti námi og flutti til Austurríkis. Hún hóf að framleiða eigin snyrtivörur með því að blanda læknisfræðilegum formúlum við ýmsar olíur sem hún þekkti af eigin raun. Þær lyktuðu ekki allar vel en Helena þekkti rakagefandi mátt þeirra þannig að hún notaði ilmjurtir eins og lavender og vatnaliljur til að draga úr lyktinni.

Helena var aðeins 147 cm á hæð en á ótrúlega stuttum tíma byggði þessi litla kona upp stórveldi í viðskiptalífinu. Systir hennar Ceska opnaði búð í Melbourne í Ástralíu með vörum hennar og sjálf flutti hún til London og lagði drög að frekari alþjóðavæðingu. Á þessum tíma gátu konur ekki fengið lán til að stofna fyrirtæki þannig að Helena lagði fyrir og notaði eigin peninga til að byrja. Hún flutti til Bandaríkjanna í byrjun heimstyrjaldarinnar fyrri. Þar kom hún á fót stórri verksmiðju þar sem hún rannsakaði, setti saman og þróaði nýjar vörur. Helena lést árið 1965 en fyrirtæki hennar heldur áfram að vera leiðandi í snyrtivöruframleiðslu.

 

 

Snyrtivörudrottningar

VINSÆL: Enn í dag eru vörur Elizabeth Arden meðal vönduðustu og bestu snyrtivara á markaðnu

HAFÐI BRENNANDI ÁHUGA Á EFNAFRÆÐI
Elizabeth Arden hét Florence Nightingale Graham og fæddist 31. desember árið 1878 í Ontario í Kanada. Hún fékk vinnu hjá lyfjafyrirtæki sem bókhaldari en eyddi meiri tíma á rannsóknarstofu þess að spyrja um húðvörur og húðmeðferð en yfir klöddunum. Í kjölfarið fékk hún vinnu hjá snyrtivörufyrirtæki Eleanor Adair og lærði snyrtifræði. Hún stofnaði eigið fyrirtæki með vinkonu sinni Elizabeth Hubbard en þegar upp úr samstarfi þeirra slitnaði stofnaði hún eigið fyrirtæki undir nafninu Elizabeth Arden. Fornafnið valdi hún eftir fyrrum samstarfskonu sinni og seinna nafnið er komið úr ljóði Tennysons um Enoch Arden.

Hún fór til Frakklands og lærði þar frekari fegrunar- og andlitsmeðferðir, þ.á m. nudd, og kom heim með ótal sýnishorn af alls konar snyrtivörum. Hún hóf samstarf við efnafræðinginn A. Fabian Swanson og í sameiningu bjuggu þau til fyrsta andlitskremið hennar, Venetian Cream Amoretta. Þetta var bylting í framleiðslu snyrtivara því áður hafði það ekki tíðkast að byggja snyrtivörur á vísindalegum grunni. Enn í dag eru vörur Elizabeth Arden meðal vönduðustu og bestu snyrtivara á markaðnum og þær fást jafnvel í Tíbet.

 

SNILLINGUR Í SÖLUMENNSKU

Snyrtivörudrottningar

METNAÐUR: Mary sá um heimilið frá unga aldri en móðirin hvatti dóttur sína mjög áfram og efldi sjálfstraust hennar og trú á eigin getu.

Mary Kay Ash var á sínum tíma ameríski draumurinn holdi klæddur. Hún ólst upp við mikla fátækt, enda faðir hennar berklaveikur og móðir hennar varð að vinna fyrir fjölskyldunni. Mary sá um heimilið frá unga aldri en móðirin hvatti dóttur sína mjög áfram og efldi sjálfstraust hennar og trú á eigin getu.

Hún vann lengst af við sölumennsku og hafði ótrúlega hæfileika á því sviði. Hún beitti aðferðum sem eru almennt viðurkenndar í dag og virðist hafa nýtt sér innsæi sitt og skilning á mannlegu eðli í þeim aðferðum sem hún notaði. Þegar hún var komin á fimmtugsaldur missti hún mann sinn og ákvað þá að stofna eigið fyrirtæki og láta reyna á hæfni sína sjálfri sér í hag. Mary Kay var hugrökk, jarðbundin og rökvís kona sem nýttist henni vel í fyrirtækjarekstrinum, en ekki síður leikni í mannlegum samskiptum. Hún hóf að selja snyrtivörur og þjálfaði upp sölufulltrúa sem fóru á milli bæja, bönkuðu upp hjá konum og kynntu þeim varninginn.

Snyrtivörudrottningar

GJAFMILD: Mary Kay gaf duglegum sölufulltrúum bleika kadílakka og enn í dag eru bleikir bílar verðlaun fyrir framúrskarandi árangur hjá fyrirtækinu.

Fyrirtækið gekk vel frá upphafi og söluaðferð hennar, þ.e. heimakynningar, var ný af nálinni og fegurðarráðgjafar Mary Kay ferðuðust um öll Bandaríkin. Ekki var nóg með að aðferðin byggði upp margra milljarða viðskiptaveldi stofnandans heldur veitti hún tugþúsundum kvenna tækifæri til að afla sér eigin tekna og lagði grunn að fjárhagslegu sjálfstæði margra þeirra. Mary Kay var ekki yfirlýstur femínisti en engu að síður var framlag hennar til aukins jafnréttis og sjálfstæði bandarískra kvenna ómetanlegt.

 

 

 

 

 

SNJÖLL KAUPSÝSLUKONA

VI-estee_lauder_historic

NAFNIÐ: Heima var hún þó alltaf kölluð Etsy sem með ungverskum hreim föður hennar varð Estée og það nafn festist við hana.

Josephine Esther Mentzer fæddist í Corona í Queens þann 1. júlí árið 1906. Hún var annað barn þeirra Rose Schotz Rosenthal og Max Mentzer. Rose átti franska móður en ungverskan föður. Hún fluttist með fyrri manni sínum, Abraham Rosenthal, og fimm börnum þeirra til Bandaríkjanna árið 1898. Þau skildu þegar Rose kynnist búðareigandanum Max sem giftu sig árið 1905. Estée var annað barn þeirra saman og átti upphaflega að heita Etsy eftir móðursystur Rose og uppáhaldsfrænku. Þegar skrá átti nafnið skipti Rose um skoðun af ótta við að nafnið væri of framandlegt fyrir Bandaríkjamenn og lét stúlkuna heita Esther.
Heima var hún þó alltaf kölluð Etsy sem með ungverskum hreim föður hennar varð Estée og það nafn festist við hana. Hún ólst upp við mikla fátækt, enda voru átta börn á heimilinu og þau þurftu öll að hjálpa til og létta undir með foreldrunum. Estée vann í járnvöruverslun föður síns og fékk þar innsýn í sölumennsku og hvað þarf til að reka fyrirtæki. Þegar hún varð eldri hjálpaði hún móðurbróður sínum dr. John Schotz í fyrirtæki hans New Way Laboratories. John var efnafræðingur og framleiddi margs konar áburð, krem, kinnaliti og ilmvötn. Hún heillaðist alveg af þeirri vinnu og ákvað að einbeita sér að henni eftir að hafa lokið prófi frá Newtown High School.

Snyrtivörudrottningar

SNJÖLL: Hún þótti einstaklega snjöll kaupsýslukona og var eina konan sem rataði á lista tímaritsins Time yfir tuttugu áhrifamestu kaupsýslurisa 20. aldar árið 1998.

Hún hóf að taka vörur með sér heim úr vinnunni og selja vinkonum sínum. Fljótlega víkkaði hún sjóndeildarhring sinn og gekk í snyrtivöruverslanir og kom sér fyrir á ströndinni með stand af sólaráburði og salan gekk sífellt betur. Dag nokkurn spurði hárgreiðslukonan hennar hvernig hún héldi húð sinni svona fallegri og Estée færði henni umsviflaust prufur af kremum frænda síns og sýndi honum hvernig ætti að nota þau. Hún varð svo hrifin að hún bauð Estée vinnu við að selja krem á hárgreiðslustofu sinni. Árið 1953 setti Estée saman sinn fyrsta ilm, Youth Dew, en í stað þess að setja hann á ilmvatnsflöskur blandaði hún hann olíu og hvatti konur til að setja hann út í baðvatnið. Hugmyndin sló i gegn og á einu ári seldust 50.000 flöskur af Youth Dew en árið 1978 var tekin saman heildarsölutalan og þá kom í ljós að yfir 150 milljónir flaskna höfðu selst í Bandaríkjunum einum.
Hún kynntist Joseph Lauter og þau giftust 15. janúar árið 1930. Þau breyttu nafni sínu úr Lauter í Lauder og stofnuðu saman snyrtivörufyrirtækið sem enn ber nafn Estée. Fyrsta barn þeirra, Leonard, fæddist 19. mars árið 1933. Estée og Joseph skildu árið 1939 en tóku saman aftur árið 1942. Yngri sonurinn Ronald fæddist svo árið 1944.
Hún þótti einstaklega snjöll kaupsýslukona og var eina konan sem rataði á lista tímaritsins Time yfir tuttugu áhrifamestu kaupsýslurisa 20. aldar árið 1998. Hún var sæmd frelsisorðu Bandaríkjaforseta fyrir árangur sinn í viðskiptalífinu og fékk einnig sess í U.S. Business Hall of Fame. Í heimildamynd sem gerð var um líf hennar, The Sweet Smell of Success, var hún beðin að skýra hvers vegna hún héldi að hún hefði náð svo miklum árangri og hún svaraði: „Allt mitt líf hef ég ekki unnið einn einasta dag án þess að vinnan snúist um að selja eitthvað. Ef ég hef trú á einhverju sel ég öðrum það og sel af krafti.“

Related Posts