Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur er alltaf með einhver ný verkefni í takinu en stundum bætast ný verkefni óvænt við. Nýja skáldsagan hennar, Gæðakonur, braut sér til dæmis farveg upp úr annarri skáldsögu sem Steinunn er langt komin með, rétt eins og hvert annað eldgos. Henni finnst það þó viðeigandi þar sem söguhetjan er einmitt eldfjallafræðingur.

 

Nafn: Steinunn Sigurðardóttir.

Aldur: 64 ára.

Starf: Rithöfundur.

Maki: Þorsteinn Hauksson.

Börn: Tinna Traustadóttir.

Gæludýr: Nei, takk! Og alls ekki hamstur.

Áhugamál: Tré, helst að setja þau niður og horfa á þau vaxa.

Á döfinni: Flutningur milli landa.

 

Hvað ertu að lesa?

Ég er að lesa Æsku eftir Lev Tolstoj í snilldarþýðingu Áslaugar Agnarsdóttur. Hún var að senda frá sér þríleikinn, æviminningar hans. Þetta er óviðjafnanleg lestrarnautn, einstök á mínum lestrarferli.

Hvað lastu síðast?

The Childhood of Jesus eftir Coetzee sem hafði djúp áhrif á mig. Þessi dularfulla saga er drifin áfram af einstakri virðingu fyrir barninu sem sjálfstæðum einstaklingi en ekki sem framlengingu af fullorða fólkinu – sem er ríkjandi viðhorf og gerir börnum mikið mein. Svo fór ég aftur að glugga í Ástir eftir Javier Marias, í þýðingu Sigrúnar Eiríksdóttur. Af samtímahöfundum er þetta mín allra stærsta uppgötvun og hreinn lúxus að mega lesa bókina á móðurmáli sínu. Hún fjallar á dýpri og safaríkari hátt en flestar skáldsögur sem ég man eftir um yfirborðið og það sem undir því er, um litlu glæpina í daglega lífinu og um stóru glæpina vina og fjölskyldumeðlima á milli, afbrot sem aldrei komast upp.

Hvaða bækur eru á náttborðinu þínu?

Ritsafn Jónasar Hallgrímssonar er þar enn þá eftir að ég gluggaði óspart í náttúrufræðigreinarnar hans þegar ég var að semja Gæðakonur. Annar fastagestur er Skáld í New York, eftir Garcia Lorca, í klassískri þýðingu Jóns Halls Stefánssonar. Og svo bækurnar hans W.G. Sebald sem falla ekki í neinn flokk, heldur eru þær óræðar og magnaðar og opna nýjar víddir.

Hvaða bók hefur mótað líf þitt?

Barnabók sem heitir Labbi Hvíta-skott sem er um héra sem vildi ekki vera dýrið sem hann var heldur annað dýr – bara hvað sem var annað en héri. Ég lærði fljótt að lesa og saumakonan okkar trúði því nú ekki að ég gæti lesið þessa bók fyrir hana, fjögurra ára, þegar ég bauðst til þess. Og svo bætti ég við: „En þú verður að passa þig að fara ekki að gráta. Þetta er svo sorgleg bók.“ Svo var það víst litli lesarinn sem komst ekki áfram með bókina fyrir táraflaumi.

Hvaða lesefni mælir þú með?

Ef fólk vill endilega lesa reyfara, þá ætti það að velja sér góða reyfara. Af erlendum reyfarahöfundum verður fyrst fyrir John LeCarré. Hann er stórskáld í mínum huga og er algjörlega með puttann á púlsinum. En auðvitað óska ég þess að undraland lestrarins sé opið sem flestum, að lesandinn sé LÍFSreynslu ríkari þegar bókinni er lokið. Og má ég leyfa mér að mæla með bókum eftir gæðaskáldkonur því þær skrifa allt öðruvísi en karlar og ná inn á svæði í sálinni eins og þeim einum er lagið; til dæmis Málfríður Einarsdóttir, Toni Morrison og Virginia Woolf.

Hefur þú lesið einhverjar bækur oftar en tvisvar?

Ég geri mikið af því að lesa bækur aftur og oftar en tvisvar. Líklega er það Heimsljós og Brekkukotsannáll sem ég hef oftast lesið og svo sonnettur Shakespeares.

 

Related Posts