Fótboltagúrúinn, sjónvarps- og útvarpsmaðurinn Hjörvar Hafliðason er annar stjórnenda Brennslunnar á FM957 og tíður gestur í sjónvarpi landsmanna þegar rætt er um knattspyrnu. Hann talar, hugsar og dreymir knattspyrnu og nú er komið að því að kóngurinn í Kópavogi svari spurningum vikunnar.

SH1611248741-1

MÉR FINNST GAMAN AÐ … keyra bíla sem ég hef ekki keyrt áður. Ég hafði aldrei áhuga á bílum fyrr en á síðasta ári.

SÍÐASTA KVÖLDMÁLTÍÐIN? Það var heiðarlega steikt ýsa hjá mömmu.

BRENNDUR EÐA GRAFINN? Ég hef aldrei spáð í það. Ég á enn þá nóg eftir vona ég.

HVAÐ FÆRÐU ÞÉR Á PYLSUNA? Allt nema tómatsósu. Vinur minn notaði oft tómatsósu sem blóð þegar hann var að stríða mér og síðan þá hef ég aldrei borðað tómatsósu.

FACEBOOK EÐA TWITTER? Ég er mun meira á Twitter. En ég skoða Facebook alveg. Hef rosalega gaman af fullorðnu fólki á Facebook. Það eru hinir raunverulegu sigurvegarar þar inni.

HVAR LÆTURÐU KLIPPA ÞIG? Ég fór til Robba á Carter í Hafnafirði í 20 ár en það er svo langt að keyra þangað. Núna fer ég til Orra á Rvk Hair í Borgartúni.

HVAÐ GERIRÐU MILLI 5 OG 7 Á DAGINN? Mig langar að segja að þjálfa. En ég get ekki þjálfað þessa dagana því ég er svo haltur. Síðustu daga hef ég notað þennan tíma til að fara í ræktina.

HVAÐ ERTU MEÐ Í VINSTRI VASANUM? Ég er með starfsmannakort frá 365. Það nota ég til að komast inn og kaupa í mötuneytinu. Geggjað kort.

BJÓR EÐA HVÍTVÍN? Bjór. Ekkert snobb og engir stælar. Bara venjulegir bjórar. Ekkert pale ale, hvítöl, porter-öl, IPA og hvað þetta heitir allt. Ég vil aðeins heiðarlega bjóra sem bjórsnobbarar drekka ekki. Gull, Víking og svona fjöldaframleitt dæmi er í uppáhaldi. Svo auðvitað Guinness líka en bara á krana.

UPPÁHALDSÚTVARPSMAÐUR? Hjörvar Hafliðason á morgnana á FM. En fyrir utan hann bara allt liðið á FM. Mér finnst Egill Einarsson mjög fyndinn í FM95BLÖ.

HVER STJÓRNAR SJÓNVARPSFJARSTÝRINGUNNI Á HEIMILINU? Ég stjórna alltaf. Ég gef hana aldrei frá mér.

HVERNIG VAR FYRSTI KOSSINN? Það var eitthvað ömurlegt dæmi sem var algjört klúður.

HVER VÆRI TITILL ÆVISÖGU ÞINNAR? Númer eitt.

HVER ER DRAUMABÍLLINN? Ég er ekki mikill Benz-maður en Mercedes Benz G-Class er draumabíllinn, 40 ára klassísk hönnun. Ótrúleg fegurð og mjög stílhreinn. Ég horfi alltaf öfundaraugum þegar ég sé nýja slíka bíla í umferðinni.

FYRSTA STARFIÐ? Ég vann myrkranna á milli í loðnuverksmiðju í Sandgerði sem unglingur. Þess vegna er ég svona harður.

FLOTTASTA KIRKJA Á ÍSLANDI ER … Kópavogskirkja. En svo finnst mér kirkjan í Ólafsvík mjög falleg.

LANDSPÍTALI VIÐ HRINGBRAUT? Já, auðvitað.

FALLEGASTI STAÐUR Á LANDINU? Ég hef ekki skoðað landið nógu vel. En ætli ég verði ekki að segja Fossvogsdalur. Þar er gott veður og fínt að vera.

HVAÐA RÉTT ERTU BESTUR AÐ ELDA? Ég er bestur í að poppa. En fyrir utan það er ég góður að elda allar gerðir af nautasteikum.

HVAÐA OFURKRAFT VÆRIR ÞÚ TIL Í AÐ VERA MEÐ? Ég er með léleg hné. Því væri ég til í að geta flogið. Svo væri ég líka til í að vera ósýnilegur.

GIST Í FANGAKLEFA? Nei.

STURTA EÐA BAÐ? Eftir að ég fékk vatnsheldan síma þá elska ég að vera í baði.

HVAÐA LEYNDA HÆFILEIKA HEFUR ÞÚ? Ég get drukkið meira af Guinness en nokkur annar á jörðinni. Flestir gefast upp eftir nokkra. Ég get endalaust.

HVAÐ ER Í MATINN Á JÓLUNUM? Það veit ég ekki. Bara vonandi ekki svín.

HVAÐA SÖGU SEGJA FORELDRAR ÞÍNIR ENDURTEKIÐ AF ÞÉR? Engar. Þau muna ekkert eftir mér sem barni. Það fór ekkert fyrir mér.

HVAÐA BÓK EÐA KVIKMYND FÉKK ÞIG SÍÐAST TIL AÐ TÁRAST? Ég var eitthvað voða lítill í mér yfir myndinn The Accountant. Það er mjög vandræðalegt svona eftir á að hyggja.

ERTU MEÐ EINHVERJA FÓBÍU? Nei.

HVER ER BESTA ÁKVÖRÐUN SEM ÞÚ HEFUR TEKIÐ? Að fara að fylgjast með fótbolta af fullum krafti þegar ég var 5 ára. Ég get ekki hugsað mér lífið án þess að tala um hann, hugsa um hann eða láta mig dreyma um hann.

FURÐULEGASTI MATUR SEM ÞÚ HEFUR BORÐAÐ? Stundum fer það í taugarnar á mér hvað ég hef lifað óspennandi lífi á margan hátt. Held ég hafi aldrei borðað eitthvað rosalegt. Jú, ég borðaði einu sinni síli sem ég veiddi í Fossvogi til að komast inn í eitthvert gengi sem við vorum að stofna.

HVAÐ ER NEYÐARLEGASTA ATVIK SEM ÞÚ HEFUR LENT Í Á KNATTSPYRNUVELLINUM? Það er án efa 06.06.06 í leik KR-Breiðabliks í Vesturbænum. Ég var þá fyrirliði Blika og gerði hörmulega mistök sem kostuðu leikinn. Ég svaf ekkert eftir það rugl.

KLUKKAN HVAÐ FERÐU Á FÆTUR? Svona 06:15.

ICELANDAIR EÐA WOW? Ég vil ekki gera upp á milli þeirra. Mér þykir vænt um bæði þessi fyrirtæki.

LEIGIRÐU EÐA ÁTTU? Á.

HVAÐA BÓK ER Á NÁTTBORÐINU? Ævisaga Joey Barton, fyrrum leikmanns Man City, QPR, Marseille, Newcastle og fleiri liða. Góð bók.

DAGBLAÐ EÐA NET Á MORGNANA? Opna aldrei dagblað nema erlendis. Les blöðin í tölvunni.

HVER ER FYRSTA ENDURMINNING ÞÍN? Eitthvað óveður 84 held ég. Þakplatan flaug af Efstahjallablokkinni og ég var skíthræddur. Eða kannski var þetta 85. Hef ekki hugmynd. En ég man eftir þessu.

Séð og Heyrt spyr spurninga.

Related Posts