k6

Amal starfar sem lögfræðingur á Doughty Street Chambers. En lögfræðingar í Bretland sameinast um að eiga og reka stofur

Amal Ramzi Alamuddin er gáfuð, glæsileg og heilsteypt kona. Hún er þekktur mannréttindalögfræðingur í heimalandi sínu Bretlandi og hefur meðal annars beitt sér mjög í brottvísunarmálum. Að auki hefur hún sérhæft sig í refsirétti og alþjóðalöggjöf. Amal kemst oft á lista yfir best klæddu konur Bretlands og nú þegar hún er gift George Clooney er næsta víst að augu heimsins munu beinast að henni í auknum mæli.

 

Amal fæddist í Beirút í Líbanon þann 3. febrúar 1978. Faðir hennar var prófessor í viðskiptafræði við Ameríska háskólann þar í landi og kenndi einnig ferðamennsku. Fjölskyldan flúði frá Líbanon í borgarastríðinu árið 1980 og settist að í London. Móðir hennar, Bariaa Miknass Alamuddin er ritstjóri erlendra frétta á Lúndúnaskrifstofu dagblaðsins, al-Hayat. Ritstjórnarstefna þess er kennd við Pan Arab eða sameiningu araba og þar er talað fyrir umburðarlyndi og því að arabalöndin rækti vináttu sín á milli.

 

Faðir hennar Ramzi er af virtri ætt drúsa en þeir eru um 5% líbönsku þjóðarinnar. Samkvæmt innanríkissamningum þjóðarbrotanna í Líbanon verður æðsti yfirmaður hersins ævinlega að vera drúsi. Bariaa er hins vegar súní-múslimi þannig að strax í æsku kynntist Amal ákveðnu umburðarlyndi vegna ólíkra skoðana. Ramzi var giftur áður og átti með fyrri konu sinni tvo syni, þá Zamer og Ziad en Amal á eina alsystur, Tölu, sem nú er búsett í Singapore.

Amal stundaði nám við Dr. Challoner’s Girl School og fór þaðan í St. Hughs College í Oxford og vann þar til bæði námsstyrks og verðlauna fyrir framúrskarandi árangur. Hún hóf nám við New York University School of Law árið 2001 og lauk þaðan meistaraprófi tveimur árum seinna. Þar hlaut hún minningarverðlaun Jack J. Katz fyrir einstaka þekkingu á lögum sem varða skemmtanabransann. Hún vann einnig með fram náminu á skrifstofum Soniu Sotomayer sem þá var dómari við miðdómsstig Bandaríkjanna, The United States Court of Appeals, en þessi fyrrverandi vinnuveitandi hennar er nú orðinn hæstaréttardómari.

Að námi loknu hóf Amal störf við lögfræðiskrifstofu, Sullivan & Cromwell í New York. Meðal mála sem hún kom að þar var rannsókn og lagaleg úrvinnsla þeirra fjármálaflækja sem urðu í kjölfar hruns Enrons og fjárfestingafélagsins, Arthur Andersen. Hún sýndi strax næman skilning á mannréttindamálum og nefna má að Julian Assange og Yulia Tymochenko, fyrrverandi forseti Úkraínu, voru meðal skjólstæðinga hennar. Nokkur mál sem tengdust stríðsglæpum og mannréttindabrotum í Kambódíu voru á hennar borði, mál fyrrverandi yfirmanns líbönsku leynilögreglunnar, Abdullah Al Senussi, og hún veitti Bahrain konungi ráðgjöf. Amal tók einnig sæti í sérstakri nefnd skipaðri af Sameinuðu þjóðunum til að fara yfir mál Líbanons og starfaði með nefnd sem vann við úrvinnslu þeirra stríðsglæpamála sem komu upp í fyrrum Júgóslavíu.

Hún flutti aftur til London árið 2010 og gekk þar inn í lögfræðistofu en venjan er sú að lögfræðingar eigi hlut í þeim skrifstofum sem þeir vinna fyrir. Þrátt fyrir búsetu í Englandi héldu menn hjá Sameinuðu þjóðunum áfram að leita til hennar þegar mikið lá við. Í fyrra var hún beðin um að vera ráðgjafi sendimanns Kofi Annan í Sýrlandi og vera ráðgefandi og lögfræðingur Drone-rannsóknarinnar sem leidd var af Ben Emmerson Qc og ætlað að skoða notkun mannlausra fjarstýrða flugvéla í aðgerðum gegn hryðjuverkastarfsemi. Hún talar þrjú tungumál reiprennandi; arabísku, ensku og frönsku og á því ákaflega auðvelt með samskipti við fólk af mörgum þjóðernum.

Amal var kölluð á fund Williams Hague, utanríkisráðherra Breta, í maí en þar voru einnig viðstaddar aðrar konur sem höfðu verið leiðandi í mannréttindabaráttu þar í landi og þær beðnar að koma með tillögur að því hvernig hefja mætti alþjóðlega baráttu til að vernda börn á átakasvæðum gegn kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. Þessar umræður voru liður í að undarbúa alþjóðlega ráðstefnu, til að enda kynferðisofbeldi í átökum, sem haldin var í London í júní á þessu ári og var tengd starfi breska utanríkisráðuneytisins í því skyni að vinna gegn kynferðisofbeldi í öllum sínum myndum. Hún hefur síðan verið í starfshópi utanríkisráðuneytisins sem vinnur að því að finna leiðir til að útrýma kynferðisglæpum tengdum hernaði.

K2

Amal Alamuddin hefur unnið mikið á alþjóðavettvangi og meðal annars verið ráðgefandi og farið fyrir nefndum á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Í ágúst var hún síðan valin einn þriggja meðlima nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem ætlað er að skoða hugsanlega stríðsglæpi og brot á alþjóðalögum á Gaza. Hún taldi sig ekki geta tekið starfið að sér en var ómyrk í máli þegar hún talaði við fjölmiðla eftir að hafnað því: „Að undanförnu hafa birst margar fréttir um að ég hafi verið skipuð einn þriggja nefndarmanna í rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna vegna átakanna á Gaza-svæðinu. Ég fyllist skelfingu þegar ég hugsa um ástandið á hinni herteknu Gaza-strönd, ekki hvað síst þegar ég lít til þeirra ótal óbreyttu borgara sem hafa fallið og tel hafið yfir allan vafa að þörf er á óháðri hlutlausri rannsókn og einhver verði að bera ábyrgð á þeim glæpum sem hafa verið framdir.“

Amal kynntist George Clooney fyrir réttu ári á Ítalíu. Hann hafði fram að því verið talinn harðasti piparsveinn Hollywood og fæstir áttu von á að hann myndi nokkurn tíma gifta sig aftur en hjónaband hans og Talíu Balsam varði í fjögur ár eða frá 1989 til 1993. Samband þeirra vakti gríðarlega mikla athygli um leið og það byrjaði og margir töldu að vegna ólíks uppruna, menningar og trúarbragða yrði það ekki langlíft. George varð óskaplega reiður þegar breska slúðurblaðið Daily Mail fullyrti að Bariaa, móðir Amal, væri alfarið á móti sambandinu. Ritstjórnin neyddist til að draga fréttina til baka og viðurkenna að hún væri röng. Parið var beðið afsökunar en George neitaði að taka afsökunarbeiðnina til greina og kallaði blaðið „versta snepil af sinni gerð“. Nú ætti hins vegar að vera alveg ljóst að þau munu ekki láta neitt slíkt standa í vegi fyrir sér.

George hefur verið yfirlýsingaglaður og sagst hvorki hafa þörf fyrir eiginkonu né börn. Gælusvínið hans var lengi hans nánasti vinur og félagi og að sögn eigandans svo áhugaverður persónuleiki að vart væri þörf á öðru. Eftir skilnaðinn frá Talíu átti hann í ástarsamböndum við margar af glæsilegustu og hæfileikaríkustu konum í heimi. Má þar meðal annars nefna ítölsku leikkonuna Elisabetta Canalis, Kelly Preston og Renée Zellweger.

Þrátt fyrir að hvert glæsikvendið á fætur öðru hafi sést í fylgd með honum opinberlega var engu að síður uppi þrálátur orðrómur um að George væri samkynhneigður. Aðspurður um hvort eitthvað væri til í því svaraði hann: „Það síðasta sem þið munuð sjá mig gera er að hoppa upp og niður og kalla: „Þetta eru lygar.“ Það væri bæði kuldalegt og ósanngjarnt gagnvart vinum mínum í hópi samkynhneigðra. Mér dettur ekki í hug að láta nokkurn mann komast upp með að koma því þannig fyrir að það virðist á einhvern hátt slæmt að vera samkynhneigður.“

En hvort brúðkaup hans og Amal muni kæfa efasemdaraddirnar á eftir að koma í ljós, það er hins vegar víst að íbúar Feneyja dáðust að bæði hjónunum og gestum þeirra. Talið er að allt að 150 heimsþekktar stjörnur hafi verið viðstaddar um helgina og gestir tóku að streyma að þegar föstudaginn 26. september. Aldrei kom annað til greina en að brúðkaupið yrði haldið á Ítalíu þar sem þau hittust fyrst en staðsetningin var lengi á reiki. Lengi vel taldi pressan að til stæði að halda það við Como-vatn. Feneyjar urðu að lokum fyrir valinu og athöfnin fór fram þann 27. september á Ca’ Farsetti-höllinni. Vinur George, Walter Veltroni, fyrrverandi borgarstjóri í Róm, gaf þau saman. Hátíðahöldunum lauk svo þegar hjónin fóru saman og skrifuðu undir í skrásetningabók hjá borgaryfirvöldum til staðfestingar giftingu sinni þann 29. september.

Related Posts