Ég hef aldrei verið mikil pæja, skvísustand er eitthvað sem aðrar konur kunna en ekki ég. Háir hælar og „meiköpp“ var mér framandi langt fram á menntaskólaárin. Mín tilvera snerist að mestu um að rífa kjaft og bjarga heiminum frá óréttlæti með öllum tiltækum ráðum. Lengi vel klæddist ég helst gamalli ullarpeysu af móður minni, sem var í öllum regnbogans litum, grænbláum buxum og appelsínugulum skóm. Milletúlpunum með hárvængina og sinkpastað á vörunum þótti ég lítið töff.
En einn daginn þegar stúlka fékk blikk frá ungum manni áttaði hún sig á því að kannski væri kominn tími til að læra að skvísast aðeins. Það gekk á ýmsu við þær tilraunir, flestar líkust þær stórkostlegu tískuslysi á þess tíma mælikvarða. En öll þessi tilraunastarfsemi var í rauninni leit unglings að eigin sjálfi og stíl sem passaði við. Einhvern veginn tókst stúlku að verða að konu og lærði á því ferðalagi ýmislegt sem tengist skvísustandi. Mikilvægasta lexían var þó sú að ég játa mig sigraða á leiksviði pjatts og punts og leita því reglulega til sérfræðinga á því sviði þegar ég þarf aðstoðar við.

 

En af hverju ekki? Ég hringi á rafvirkja þegar þarf að laga eitthvað stórfenglegra en að skipta um peru og hvers vegna þá ekki að leita á náðir sérfræðinga þegar kemur að því að laga útlit frú krullu? Konurnar sem laga mig kunna sitt fag og ég treysti þeim fullkomlega.

 

Konan sem lagar á mér neglurnar er annað og meira en listagóð í höndunum hún er jafnframt ráðgjafi minn í ástamálum og þar veit stúlka sínu viti enda með sérmenntun á sviði félagsvísinda. Það jafnast á við góðan tíma hjá sálfræðingi að setjast við naglaborðið hjá henni og heyra af speki hennar á sama tíma og hún umbreytir grýlukrumlum mínum í þolanlegar skvísuhendur.

 

Sælir eru heimahagar og þar er mín snyrtistofa. Stúlkurnar þar vita hvernig best er að dubba mig upp, ég mæti iðulega næstum því of seint og alltaf á hlaupum með krullurnar í vígaham og gleraugun hálfskökk á nefinu. Þær umvefja lætin í mér inn í heitt teppi og strjúka mjúkum og sterkum höndum yfir fæturna og afvopna ærslabelginn um leið. Að tímanum loknum valhoppa ég nudduð og sæt um stræti Garðabæjar, alsæl með nýja „lúkkið“.

 

Ein er sú sem er Konan í snyrtilífi mínu og það með stóru K-i. Konan sú lagar mig alla, ekki bara hrukkur, bólur og bólgur heldur sálina og geðið líka. Hún er svona mamma, sterk, ráðagóð og heil. Við höfum þekkst frá barnæsku en samt ekki verið í daglegum samskiptum, aldrei. En það breytir því ekki að hún er minn trúnaðarvinur, ég teysti henni algjörlega. Hjá henni legg ég allt mitt til hliðar og um leið og hún fer faglegum höndum um húð mína og smyr mig með galdrakremum og undraolíum leysast öll heimsins hversdagsvandamál. Frá henni fer ég alltaf hamingjusamari en ég kom og fyrir það er ég þakklát.

 

Konurnar sem laga mig gera líf mitt og útlit betra, þær veita tilverunni birtu og gleði, líkt og Séð og Heyrt gerir í viku hverri.

Related Posts