Ég fór í klippingu um daginn. Það er þó varla í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að þessi klipping var aðeins öðruvísi en aðrar.

Ég ákvað það einn þriðjudaginn að nú skyldi ég gera eitthvað í mínum „hármálum“ enda lubbinn orðinn heldur mikill. Ég stökk af stað í hádeginu og ferðinni var heitið niður á Hlemm til hans Torfa á Hárhorninu. Mér snerist þó hugur á síðustu stundu og sem betur fer. Ég ákvað að hringja á aðra stofu og gá hvort þar væri laust. Ástæðan fyrir því er sú að móðir eins af mínum betri vinum á stofuna og mig langaði til að segja hæ. Ég hringdi korter í tvö og fékk tíma klukkan tvö – heppinn.

Þegar ég mætti á staðinn tók ljóshærð stúlka á móti mér og spurði strax hvort ég vildi sjampó og næringu. Það fyrsta sem ég hugsaði var: „Vá, hvað þessi stelpa er sæt, ég get ekki farið að láta hana þrífa á mér hárið.“ Ég fékk þó hárþvott og þegar ég var sestur í stólinn spurði hún mig, eins og gengur og gerist, hvernig klippingu ég vildi. Ég man að ég kom varla upp orði og endaði á því að segja að hún mætti ráða því, hún mætti lita það grænt fyrir mér.

hairdresser-epsom

Þegar hún var nýbyrjuð að klippa ákvað ég að telja í mig kjark og hefja samræður. Hún hefur eflaust fengið allar þessar spurningar áður og ég reyndi hvað ég gat að vera fyndinn, svo fyndinn reyndi ég að vera að ég hef eflaust hljómað eins og fífl alla klippinguna. Hún hló þó.

Þegar klippingunni var lokið og ég búinn að borga tók ég síðasta trikkið sem ég kunni, ég sagði bless, brosti til hennar og viti menn, hún brosti til baka – heppinn.

Þar sem ég sat úti í bíl í glampandi sólskini fór ég strax á Facebook til að reyna að finna þessa draumadís mína. Hún fannst að lokum eftir mikla leit og þá var komið að því. Ég bara varð að bjóða henni út að borða. Ég sendi henni skilaboð en fékk ekkert svar. Mínúturnar liðu og þær urðu að klukkutímum og klukkutímarnir urðu að lokum að heilum degi án svars. Ég ræddi við vin minn og bað hann um að tala við móður sína, sem er jú yfirmaður stelpunnar sem klippti mig, til að leggja inn gott orð fyrir mig. Það sem ég vissi þó ekki var að ég hafði þegar fengið gott orð lagt inn og nú bara þurfti ég að bíða.

Það kom þó að því kvöldið eftir að ég fékk svar og svarið stutt og laggott. „Já“ – heppinn.

Ég ætla ekkert að ljúga að ykkur, ég hoppaði upp. Var ótrúlega stoltur af sjálfum mér að hafa þorað að bjóða henni út og til að gera langa sögu stutta þá þarf ég ekki lengur að borga í klippingu.

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts