Shonda Rhimes er aðalframleiðandi og höfundur nokkurra þekktustu og vinsælustu sjónvarpsþátta seinni ára. Henni hefur verið lýst sem valdamesta, svarta, kvenkynsstjórnanda í bandaríska sjónvarpinu en margir hafa bent á að það séu fullmörg lýsingarorð. Hún er einfaldlega ein af valdamestu stjórnendunum, punktur.

Shonda Rhimes fæddist í Chicago árið 1970. Hún var yngst sex systkina, þriggja systra og tveggja bræðra. Foreldrar hennar voru Vera sem starfaði á háskólaskrifstofu og Ilee Rhimes, háskólaprófessor. Shonda sýndi snemma mikla tilburði til frásagnarlistar en hún vann sjálfboðavinnu á elliheimilum þar sem hún las fyrir heimilisgesti og sagði sögur. Hún fékk einnig snemma að kynnast því að konur þyrftu ekki að láta neitt stöðva sig. Mamma hennar ákvað að fara í háskólanám meðfram því að vinna og sinna börnum sínum sex. Vera útskrifaðist loks með doktorsgráðu sama ár og Shonda útskrifaðist með sína fyrstu háskólagráðu.

Kvikmyndaskólinn skemmtileg áskorun

Shonda 2

Shonda ásamt Betsy Beers, meðeiganda Shondaland, er þær tóku við viðurkenningu frá Directors Guild of America.

Shonda stundaði nám í kaþólskum gagnfræðiskóla til átján ára aldurs og að því loknu kom aldrei neitt annað til greina en að fara í háskóla. Hún komst inn í hinn virta Dartmouth-háskóla og lærði ensku og kvikmyndafræði. Samhliða náminu gekk hún til liðs við Black Underground Theater Association þar sem hún fékk bæði tækifæri til að leika og leikstýra, ásamt því að skrifa fyrir háskólablaðið.

Hún útskrifaðist frá Dartmouth með BA-gráðu árið 1991. Skömmu seinna las hún blaðagrein í The Times sem sagði að það væri erfiðara að komast inn í kvikmyndanámið í University of Southern California en í laganámið í Harvard. Hún sá það sem skemmtilega áskorun og ásetti sér að komast inn, sem hún og gerði.
Nám í handritaskrifum varð fyrir valinu hjá Shondu í USC og hún undi sér vel. Á meðan á náminu stóð fékk hún lærlingsstöðu hjá framleiðslufyrirtæki Denzel Washington, Mundy Lane Entertainment. Það var Debra Martin Chase sem réð hana og tók hana undir sinn væng en Shonda hefur oft þakkað Debru þá velgegni sem hún hefur hlotið. Þær störfuðu síðar aftur saman að myndinni The Princess Diaries 2.

Eftir útskrift átti Shonda erfitt með að finna fasta vinnu sem handritshöfundur og vann fjöldamörg íhlaupastörf á meðan hún var að reyna að koma sér á framfæri. Þar á meðal starfaði hún sem ráðgjafi hjá atvinnumiðstöð þar sem hún kenndi heimilislausum og einstaklingum með geðræn vandamál nauðsynlega færni til þess að fá vinnu.
Árið 1998 þreytti Shonda frumraun sína sem leikstóri með stuttmyndinni Blossoms and Veils en í henni lék meðal annars Jada Pinkett-Smith, eiginkona Will Smith. Þá fór boltinn að rúlla og 1999 keypti New Line Cinema handrit af Shondu og hún skrifaði einnig handritið fyrir HBO sjónvarpsmyndina Introducing Dorothy Dandridge sem Halle Berry lék aðalhlutverkið í og fékk mikið lof fyrir.

Mamma með meiru

Shonda 3

Kröftugar konur í aðalhlutverkum: Keri Washington, Viola Davis og Ellen Pompeo sem eru aðalsöguhetjurnar í Scandal, How to Get Away with Murder og Grey’s Anatomy.

Shonda þráði að eignast fjölskyldu sem er ekki furða þar sem hún ólst sjálf upp í stórri fjölskyldu. Þegar ráðist var á tvíburaturnana í New York í september 2001 var hún stödd í Vermont að skrifa kvikmyndahandrit og hörmungarnar fengu hana til að endurmeta framtíðarplön sín og forgangsraða upp á nýtt.

Efst á listanum var að eignast barn svo hún lét eiginmannsleysi ekki stöðva sig heldur ákvað að ættleiða upp á eigin spýtur. Níu mánuðum síðar, í júní 2002, tók hún á móti elstu dóttur sinni, Harper, og í febrúar árið 2012 ættleiddi hún aðra dóttur sem fékk nafnið Emerson. Þriðja dóttirin, Beckett, kom svo í heiminn í september á síðasta ári með hjálp staðgöngumóður.
Eins og margar konur er Shonda stöðugt að reyna að finna jafnvægi milli fjölskyldu og vinnu. Hennar upplifun er sú að ef henni gengur vel í öðru þá er henni vafalaust að mistakast í hinu. Hún segist aldrei með fullkomna stjórn á öllu og það sé fórnin sem hún þurfi að færa til að vera bæði valdamikil kona á atvinnumarkaði og inni á heimilinu.

Hún hefur þó náð að finna góðar lausnir til að auðvelda sér lífið. Hún rekur sitt eigið framleiðslufyrirtæki sem sér um alla sjónvarpsþættina. Í höfuðstöðvum fyrirtækisins, hinum megin við ganginn frá skrifstofu Shondu, eiga dætur hennar sín eigin herbergi þar sem þær geta verið fyrir og eftir skóla.
Það var einmitt þegar Harper var ungbarn og átti mjög erfitt með svefn að Shonda byrjaði að horfa á sjónvarpið og skoða það sem mögulegan starfsvettvang. Með litlu stelpuna á bringunni sat hún tímunum saman og horfði á þætti á borð við Buffy the Vampire Slayer, Felicity og 24.

Shonda var að eigin sögn alveg hissa á því hvað sjónvarpsefnið var gott. Hún var orðin þreytt á að skrifa kvikmyndahandrit um unglingsstúlkur og þeirra drama en hún hafði þá unnið að bæði The Princess Diaries 2 og Crossroads með Britney Spears í aðalhlutverki. Hún sá sér leik á borði og vildi skrifa um kröftugar konur.
Fyrsta sjónvarpshandritið sem hún skrifaði fjallaði um stríðsfréttaritara. Þátturinn var því miður aldrei framleiddur þar sem Íraksstríðið skall á skömmu síðar. Hún hélt þó ótrauð áfram og næsta hugmyndin sem hún þróaði var Grey’s Anatomy.

Endurspeglar fjölbreytileikann

Í Grey’s Anatomy-þáttaröðinni er fylgst með skurðlæknunum á Seattle Grace-sjúkrahúsinu. Hasarinn og dramað fer nær eingöngu fram innan veggja spítalans þar sem læknarnir vinna, sofa, leika sér og ýmislegt þar á milli. Þættirnir hófu göngu sína árið 2005 og hlutu óvæntar vinsældir og nú í ár er ellefta serían í gangi.
Í kjölfar vinsælda Grey’s Anatomy hefur Shonda bætt fleiri sjónvarpsþáttum við sem allir hafa einnig notið mikilla vinsælda, Private Practice sem lauk árið 2013 eftir sex seríur, Scandal sem er nú á sinni þriðju seríu og How to Get Away with Murder sem hóf göngu sína nú á þessu ári.

Þættir Shondu eiga ýmislegt sameiginlegt, hárbeitt samtöl, sjóðandi heit ástarsambönd, mikinn hasar og mikið drama. Hún leggur einnig mikið upp úr því að leikaraval endurspegli fjölbreytileikann í hinum raunverulega heimi þegar kemur að kynþáttum. Hún er þekkt fyrir að skrifa persónur ekki með ákveðinn kynþátt í huga og velja þannig leikara eftir því hvernig þeir túlka hlutverkið. Árið 2013 fengu Shonda og meðeigandi hennar að Shondaland, Betsy Beers, viðurkenningu fyrir þennan fjölbreytileika frá Directors Guild of America.
Þættirnir eiga líka það sameiginlegt að aðalpersónur þeirra eru sterkar konur og margir gera ráð fyrir að þeir höfði því eingöngu til kvenna. Shondu finnst það mjög móðgandi og hún segir jafnframt óþolandi að þættir sem höfði til kvenna séu sjálfkrafa metnir minna en þeir sem eru gerðir fyrir karlmenn.

Shonda 4

Shonda ásamt nokkrum af aðalleikurum Grey’s Anatomy, Private Practice og Scandal.

Ekkert lát virðist vera á velgengni Shondu og þættir hennar eru stöðugt tilnefndir til verðlauna. Hún segir það sé því að þakka að hún hafi hætt að láta sig dreyma hlutina. „Marga dreymir stóra drauma en hamingjusamasta, áhugaverðasta og valdamesta fólkið sem nýtur mestrar velgengni eru það sem framkvæmir hlutina í stað þess að láta sig dreyma um þá.“

Related Posts