Sætabrauðsdrengirnir syngja eins og englar og kunna að njóta lífsins. Í hvert sinn sem þeir koma saman til að æfa kemur matur við sögu, hollur og góður. Svo mikilvægur er maturinn að þeir félagar geta sjaldnast hafið æfingar fyrr en hann hefur verið borinn á borð. Nú stendur mikið til því fram undan eru tónleikar í Hörpu svo þeir félagar æfa stíft og þá verður til ýmiss konar góðgæti.VI1411034824-7

Sætabrauðsdrengirnir eru þeir Gissur Páll Gissurarson, Bergþór Pálsson, Garðar Thor Cortes og Viðar Gunnarsson. Þeir skiptast á að koma með kaffimeðlæti á æfingar en þegar Vikan leit inn hafði enginn þeirra haft tíma til að gera neitt svo Albert Eiríksson, eiginmaður Bergþórs, hljóp undir bagga og setti saman máltíð fyrir þá. Er það satt, Gissur Páll, að enginn ykkar komi upp hljóði fyrr en búið er að borða? „Best er að bera þetta saman við bílinn,“ svarar hann. „Til þess að hann gangi þarf bensín og við þurfum eitthvað gott í magann til að geta lagt orku í sönginn.“

Það orð fer af Sætabrauðsdrengjunum að þeir séu miklir mataráhugamenn, er það rétt? „Já,“ segir Gissur Páll með mikilli áherslu. „Við eldum allir og höfum mikinn áhuga á bæði matreiðslu, hráefnum og öllu sem fylgir góðu eldhúsi.“

Er hollusta matarins stórt atriði? „Ég myndi klárlega segja að hún væri sett í fyrirrúm en svo er hollusta auðvitað svo afstæð. Ég held að mesta hollustan finnist í góðu hráefni. Ef menn ætla að borða fitu skiptir miklu að velja þá góða fitu og ef menn vilja kolvetni að velja þá það sem betra er og hollara. Hráefnin skipta öllu máli í matargerð.“

Ert þú jafnvígur á bakstur og matreiðslu? „Nei, hjá mér er komið að tómum kofanaum þegar bakstur er annars vegar. Ég er svo vel giftur að konan mín sér alfarið um þá hlið mála. Bakstur er vísindi en matargerð ástríða. Ég er ekki voðalega nákvæmur þegar kemur að eldamennsku en í bakstri er nauðsynlegt að hafa allt í réttum hlutföllum. Í matargerð má slumpa og sletta og það á ágætlega við mig.“

Áttu þér eitthvert uppáhaldskrydd? „Það er kannski pínulítið púkalegt en eiginlega eru salt og pipar í algjöru uppáhaldi en af ferskum jurtum er ég mjög hrifinn af blóðbergi, eða tímíani, og basilíka er algjör grunnur, enda bjó ég á Ítalíu svo lengi þar sem hún er mikið notuð. Svo er salvía alveg meiriháttar, sjúklega góð.“

Sætabrauðsdrengirnir þurfa líklega að færa beltissylgjuna um eitt gat á næstunni því fram undan eru tvennir tónleikar í Norðurljósasal Hörpu, þeir fyrri þann 9. og seinni kvöldið eftir. Það verður því mikið um æfingar með tilheyrandi veitingum og veisluhöldum. Hvernig tónleikar eru þetta? „Þetta eru hreinræktaðir jólaskemmtunartónleikar. Alltaf þegar við hittumst er mjög gaman. Með okkur hefur tekist mikill og góður vinskapur. En það er alveg ómetanlegt í svona einyrkjaumhverfi sem tónlistargeirinn er. Yfirleitt hittir maður samstarfsfólk sitt aðeins í nokkra klukkutíma til að takast á við eitthvert verkefni og svo er því lokið. Söngvarinn er voðalega oft einn innan um allt fólkið en í þessum hópi erum við allir nokkurn veginn á sama stað og þetta er afskaplega góður klúbbur. Þetta er ekki bara samstarf, matur og tónlist, heldur heilun og einlægur vinskapur. Við setjumst hins vegar niður í lok vinnudags drekkum kaffi og borðum sætabrauð áður en við förum að æfa. Ég myndi segja að eitt það skemmtilegasta við að koma og sjá okkur á tónleikum er sá andi sem ríkir. Þegar tónlistarmennirnir sjálfir hafa gaman af því sem þeir eru að gera smitast það til áhorfenda og allir hrífast með. Við ætlum að taka jólalög úr öllum áttum og Halldór Smárason píanóleikari leikur með. Hann er barnið í hópnum en kemur með ferskan andblæ inn í þetta samstarf og við fögnum honum mjög.“

 

Fylltar döðlur með geitaosti

„Það er kjörið að útbúa döðlurnar kvöldinu áður og láta þær „taka sig“ yfir nóttina,“ segir Albert Eiríksson matgæðingur. „Þessi ótrúlega blanda passar einstaklega vel saman. Ekki vera hrædd við að setja piparinn VI1411034824-3saman við sykurinn, ég veit að þetta hljómar einkennilega en trúið mér, þetta er afar gott. Ef þið finnið hvergi geitaost má vel nota rjómaost eða mascarpone.“

 

1 msk. sykur

½ tsk. grófmalaður pipar

smávegis salt

1 msk. vatn

1 dl pekanhnetur, klofnar í tvennt

1 tsk. þurrkað tímían

1 tsk. rifinn appelsínubörkur

½ b geitaostur, við stofuhita

u.þ.b. 24 mjúkar döðlur

Setjið sykur, pipar og salt í pott og brúnið, stöðvið brunann með vatni. Hrærið í smástund og setjið loks pekanhneturnar út í. Slökkvið undir og hrærið í smástund. Setjið á disk og látið kólna.

Blandið saman tímíani, appelsínuberki og osti. Skerið döðlur í tvennt, látið u.þ.b. ½ tsk. af maukinu í hverja döðlu og hálfa hnetu ofan á. Látið standa í ísskáp í nokkrar klst.

 

Gulróta- og linsusúpa

Þótt súpan sé ekkert sérstaklega sterk geta þeir sem vilja haft hana mildari, minnkað kryddið.

 

1 laukur, saxaðurVI1411034824-4

olía til steikingar

u.þ.b. 1 msk. rifið ferskt engifer

10 gulrætur, skornar í bita

1 msk. karrí

1 tsk. chili

5-7 dl vatn

1 dós kókosmjólk

grænmetiskraftur

1 dl linsubaunir

salt og pipar

 

Steikið laukinn í olíunni, bætið við engifer og karríi og steikið áfram. Látið gulrætur, chili, vatn, grænmetiskraft, linsubaunir, salt og pipar saman við og sjóðið í um 25 mín. Bætið kókosmjólkinni við í lokin og maukið súpuna.

 

Mangóterta

Strangt til tekið telst þessi terta ekki hráterta þótt hún sé óbökuð. Mikið svakalega óskaplega er hún bragðgóð og fersk. Ef þið eigið ekki ferskt mangó má nota frosið. VI1411034824-1

 

Botn:

250 g möndlur

1 dl fræ (sesam-, graskers-, hör- eða önnur fræ)

12 döðlur, mjúkar

2-3 msk. kókosolía, fljótandi

smávegis salt

1 dl bláberjasulta

 

Fylling:

250 g 60% marsípan, við stofuhita

2 pk. mascarpone-ostur, við stofuhita (samtals 500 g)

1 tsk. vanilludropar

safi úr ½ sítrónu

2 þroskuð mangó, söxuð gróft.

 

Botn: Setjið allt í matvinnsluvél og maukið. Látið hringform á tertudisk (ekki botninn) og setjið „deigið“ þar í. Þrýstið því niður og aðeins upp með hliðunum. Dreifið úr bláberjasultunni yfir og kælið á meðan fyllingin er útbúin.

 

Fylling: Setjið marsípan, mascarpone, vanilludropa og sítrónusafa í matvinnsluvél og blandið vel saman. Bætið loks við mangóinu og maukið í smástund. Hellið þessu yfir botninn og látið kökuna standa í um klst. áður en hún er borin fram.

 

 

Grillaður humar fyrir 4

VI1411034824-2

(stórir humarhalar, 3 stk. á mann)

150 g smjör

6 hvílauksgeirar

1 stk. rautt chili (best ferskt)

steinselja

salt og pipar

 

Kljúfið humarhalana eftir endilöngu og hreinsið vel. Setjið humarinn í ofnskúffu, skelin láti snúa niður. Hvítlaukurinn saxaður fínt. Chili hreinsað og saxað fínt. Smjörið brætt og hvítlauknum og chili bætt út í. Smjörinu hellt yfir humarinn, saltið og piprið og grillað í 4 mínútur. Steinseljunni, smátt skorinni, stráð yfir.

 

Salsasalat

½ hunangsmelóna

1 avókadó

1 rauðlaukur

1 mangó

1 safi úr einni sítrónu

kóríander

 

Allt skorið í jafnstóra teninga og blandað saman. Dreifið að síðustu sítrónusafanum yfir og kóríander að vild.

 

Humarsósa

Hráefni:

1 msk. majones

1 dós sýrður rjómi

1-2 tsk. fínt rifinn laukur

safi úr ½ sítrónu

1-2 tsk. sinnep

salt, pipar

Related Posts