Þar til nýlega var ég þess handviss um að ég ætti nokkrar krúttlegar læður. Ég er jú það sem kallast getur „klikkuð kattakona“. Ég get ekki hugsað mér líf án katta. Það yrði ansi tómleg tilveran án ferfættu mjúkdýranna minna. Þetta eru gæðakettir OG MIKLAR VEIÐIKLÆR.

Kisurnar mínar búa með mér, krökkum og föður mínum. Sem er, verð ég að viðurkenna, orðinn nokkuð þreyttur á veiðigleði þeirra ferfættu. En hvernig er hægt að afþakka svartþresti og hagamýs. Það er mikið fyrir þeim haft. Kisurnar mínar skokka glaðar út í daginn og leggja á veiðilendur Garðabæjar. Þær hafa hlutverk sitt sem meindýraeyðar alveg hreint á kristaltæru.

Nánast daglega eru okkur í fjölskyldunni færðar mislifandi gjafir. Fyrrverandi mýs og fuglar finnast í ýmsum útgáfum á víð og dreif um húsið. Sum í heilu lagi og alveg sprelllifandi.

Kettirnir skilja ekki vanþakklæti tvífætlinganna og verða sármóðgaðir þegar bráðin er fjarlægð og komið fyrir úti í tunnu. Þessar gjafir jarðar sem þær lögðu svo mikið á sig að verða sér út um. Þær eru bara að launa okkur fyrir klappið og rækjurnar.

Honum hlýtur þó að fara fækkandi músastofninum í Garðabæ, vonandi.

Kettir eru vitur dýr og hafa til að bera alveg hreint einstakan persónuleika. Ég mótmæli harðlega þeim sem segja að kettir fari bara á milli matmæðra og geri sér dælt við þann sem býður best í dallinn. Það er ekki svo, kettir eru heilmikilir mannþekkjarar og ég treysti á eðilsávísun minna katta algjörlega. Geri köttur sér ekki dælt við mann þá ber honum ekki að treysta – það hef ég reynt.

Sambúðin með köttunum reynir ekki bara á föður minn heldur húsgögnin en til þess eru stólar jú að merkja sér þá með duglegu klóri og dreifa mjúkum litríkum hárum um allt. Það verður að merkja afturenda kattareiganda rækilega til að ekki fari á milli mála hversu mikið gæðafólk er á ferð.

Svo eru það þeir sem eru með ofnæmi, við þá segi ég bara, veljið ykkur bara aðra vini, þið þurfið ekki að koma í heimsókn til mín. Við kisurnar sjáum um okkur sjálf.

Kisurnar mínar, Blíða, Mía og París, sem var læða þar til fyrir stuttu. Já, já, mér getur líka skjátlast. Jæja, þá á ég sem sagt tvær læður og einn verðandi geldfress. En ekki má gleyma drottningunni í kattholtinu góða, frú Doppu. En hún bjó í kastalnum áður en ég ruddist inn á föður minn með ketti og krakka. Og eins og sannri drottningu sæmir þá fyrirlítur sú gamla undirsáta sína og lætur reglulega heyra í sér með tilheyrandi hljóðum hinum kisunum til lítillar skemmtunar. Henni er þó að takast að beygja þegna sína undir sig og er valdaröðin nokkurn veginn komin á hreint.

Kisurnar mínar gera lífið skemmtilegra líkt og Séð og heyrt í viku hverri.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts