Gylfi K. Sigurðsson (75) og fyrsti farsíminn:

Gylfi K. Sigurðsson var til umfjöllunar hjá Séð og Heyrt fyrir fjórtán árum. Hann er sá sem keypti fyrsta farsímann á Íslandi. Nú eru liðin fjórtán ár síðan Gylfi rifjaði upp þessi kaup og rúmir þrír áratugir síðan hann keypti símann. Gylfi þarf ekki fínan snjallsíma, er hættur ökukennslu og segir eldri borgara á Íslandi lifa við erfiðar aðstæður.

GÓÐUR: Gylfi er sestur í helgan stein og reynir að njóta lífsins eins vel og hann getur.

GÓÐUR: Gylfi er sestur í helgan stein og reynir að njóta lífsins eins vel og hann getur.

Sími „Nei, ég á hann ekki lengur, hann var seldur þegar það kom nýtt kerfi. Þetta var AP-sími frá Danmörku sem ég keypti hjá Heimilistækjum,“ segir Gylfi um símann góða.

Símanúmerið sem Gylfi fékk var 002 og hann hefur haldið því síðan þótt nokkrir tölustafir hafi bæst við. Gylfi starfaði sem ökukennari og eftir að fyrsti farsíminn var festur í bílinn jukust vinsældir hans til muna.

„Ég er afskaplega veikur fyrir númerum. Ég reyni að velja númer sem er gott að muna. Ég starfaði sem ökukennari og þessi sími var gríðarlega vinsæll og skipti verulegu máli á sínum tíma. Eftir að ég fékk símann þá ruddist fólk í nám hjá mér. Það voru allir hrikalega spenntir fyrir því að vera í bíl með síma.“

 

Þarf ekki snjalltæki

Farsímar hafa tekið gríðarlegum framförum á síðustu árum og stór apparöt eins og AP-síminn heyra sögunni til. Gylfi er þó ekki einn af þeim fjölmörgu sem fjárfesta í dýrum snjalltækjum og lætur gamlan Nokia-síma duga.

„Núna er ég bara með gamlan Nokia-síma, ég er hættur að kenna núna og sestur í helgan stein og þarf ekki svona snjalltæki sem brjóta niður heilann. Nokia-síminn dugir fyrir mig.“

14 ÁR: Gylfi var í viðtali við Séð og Heyrt fyrir fjórtán árum.

14 ÁR: Gylfi var í viðtali við Séð og Heyrt fyrir fjórtán árum.

Þegar Gylfi var til umfjöllunar í Séð og Heyrt á sínum tíma var tekin mynd af honum þar sem hann talar í síma undir stýri. Það er jú skondið í ljósi þess að hann er ökukennari en lög um handfrjálsan búnað tóku gildi 1. nóvember 2001. Bíllinn var þó ekki í gangi þegar myndin var tekin árið 2002 en skondin er hún engu að síður.

„Ökukennarinn telst vera ökumaður í hverju tilviki þannig að þetta er skondin mynd. Þarna er handfrjálsi búnaðurinn tiltölulega nýkominn á markað en þegar ég fékk fyrsta símann þá var handfrjáls búnaður ekki í boði. Tímarnir eru breyttir,“ segir Gylfi sem nú er sestur í helgan stein og segist vera að njóta lífsins þótt það geti verið erfitt.

„Það eru um tíu ár síðan ég hætti ökukennslu og nú er ég bara njóta lífsins eins vel og margsveltir eldri borgarar þurfa að gera í dag.“

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts