Rut Reykjalín Parrish (34) býr í draumaborginni:

Rut Reykjalín Parrish hefur verið búsett í Boston í 10 ár og starfar í áhættustýringu hjá Santander Bank N.A. og nýtur lífsins með eiginmanni sínum Brandon og Mathildu dóttur þeirra í Boston. Rut tók þátt í Fitnesss America sem var frumraun hennar í fitnesskeppni og lenti hún í fimmta sæti. Rut nýtur þess að samtvinna fjölskyldulífið, vinnuna og æfingar í Boston.

 

14468443_10154261761099584_4846800403101522616_o

FITNESSDROTTNING: Rut Reykjalín býr í Boston þar sem að hún vinnur í banka. Hún starfar í krefjandi umhverfi en það stoppar hana ekki í því að keppa í  Fitness America.

         

Bíllaus „Lífið í Boston er bara nokkuð gott þessa stundina. Lífið hér er frekar frábrugðið lífinu á Íslandi á margan hátt. Hér byrjar allt miklu fyrr á daginn og göturnar eru byrjaðar að iða af lífi klukkan 6 á morgnana en á móti kemur er að fólk er venjulega að fara að sofa fyrr en á Íslandi. Fólk byrjar að eignast börn mun seinna en á Íslandi og er mjög algengt að fólk byrji að eignast börn um 35 ára aldur aðallega vegna þess að það er mjög dýrt. Hér í Boston eru samgöngur svo miklu betri en heima þannig að fólk þarf ekki að ferðast á bíl, við eigum til dæmis ekki bíl þannig að við göngum, hjólum, tökum lestina eða Uber,” segir Rut um lífið í Boston.

Hverfin í Boston skiptast upp eftir menningu og uppruna íbúanna. North End er ítalska hverfið, Southie er írska hverfið, South End er hipster og gay-hverfið. Rut býr ásamt fjölskyldu sinni  í Brookline, sem er bær sem liggur við hliðina á Boston. Brookline er mjög alþjóðleg og Rut segir að þar sé mikið af ungum fjölskyldum aðallega vegna þess að þar eru frábærir almenningsskólar, fallegir garðar og leikvellir sem og mikið úrval af frábærum veitingastöðum. Þarna er hægt að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur út um allt og einungis nokkrir kílómetrar í miðbæ Boston.

14435254_10154261761509584_8867340293635716506_o

SÆL SAMAN Í BOSTON: Rut og Brandon eiginmaður hennar ásamt Mathildu dóttur þeirra.

 

Áhugamálið er áhættustýring í bönkum

Rut er ánægð í vinnunni í bankanum. „Ég hef rosalega gaman af vinnunni minni enda hef ég mikinn áhuga á áhættustýringu í bönkum. Ég er svo heppin að ég er oft fengin til að vinna við alls konar verkefni innan Santander hér í Bandaríkjunum þannig að ég er alltaf að læra eitthvað nýtt. Ég þarf ekki að ferðast mikið út af vinnunni sem hentar mér vel því Brandon ferðast frekar mikið.“

14409455_10154261761339584_6228389160832818194_o

ÍSLAND Á ALLTAF STAÐ Í HJARTANU:  Rut og Brandon heimsækja Ísland reglulega og elska að vera úti í náttúrunni.

 

Út að borða með eldri borgurum og Mathildu

„Ég er mikið fyrir að hreyfa mig og vera „aktív“. Áður en ég átti Mathildu þá notaði ég helgarnar til að lyfta og æfa á daginn og á kvöldin fórum við hjónin eitthvað skemmtilegt út að borða.“

„Núna fer ég mikið í göngutúra með Mathildu og hundana. Ég reyni að vera úti eins mikið og ég get, allavega á sumrin. Stundum leigjum við bíl, við eigum ekki bíl því við höfum ekki þörf fyrir bíl dags daglega, og förum t.d. til Crane Beach, sem er norðar í Massachusetts, og förum í göngutúr á ströndinni og komum svo við of fáum okkur „lobester roll“ sem er mjög vinsælt hérna í New England. Við förum enn út að borða en við erum með eldri borgurunum um klukkan 17:00 því við tökum Mathildu með okkur,“ segir Rut og brosir.

„Á veturna er oft frekar kalt og ekki mikið hægt að vera úti og þá á ég það til að kveikja upp í arninum og sitja og prjóna eða bara slappa af. Ég fer einstaka sinnum á snjóbretti en það er ágætis fjall ekki svo langt frá Boston.“

 

Matarplanið frábært

„Ég var búin að vera að reyna að koma mér í form sjálf því mig langaði að bæta heilsuna og koma mér í kjörþyngd en ég hafði verið of þung síðan ég var í menntaskóla. Ég var alltaf eitthvað að æfa og hreyfa mig en sá ekki nógu góðan árangur þannig að ég ákvað að fá mér þjálfara, þetta var í júlí 2014. Í fyrstu var markmið mitt að bæta heilsuna og vera komin í kjörþyngd áður en ég eignaðist barn. En markmiðið breyttist frekar fljótt eftir að ég byrjaði að æfa og borða samkvæmt áætlun þjálfarans því ég sá svo frábæran árangur og fannst þetta svo rosalega gaman. Matarplanið var líka svo frábært því þetta snérist um að borða venjulegan mat bara í réttum skömmtun og leyfa sér smávegis inn á milli. Cathee, þjálfarinn minn, hefur sjálf verið að keppa í fitness og spurði mig hvort ég hefði áhuga á því og ég fór eiginlega bara að hlæja fyrst og sagði henni að það kæmi sko ekki til greina að ég færi að standa hálfnakin upp á sviði og það væri ekki séns að ég gæti komist í þannig form. En svo úr því að allt gekk svona vel ákvað ég að slá til og skráði mig í keppni í fitness-flokki í maí 2015. “

14468703_10154261761169584_8051914078885474410_o

PÓSAR MEÐ STÍL: Réttu stellingarnar skipta máli í fitness.

 

Skemmtileg lífreynsla að taka þátt í Fitness America

Rut tók þátt í keppni sem heitir Fitness America sem haldin var í Foxwoods í Connecticut og keppti hún þar í áhugamannaflokki. „Þetta var rosalega skemmtileg lífsreynsla og gaman því að þjálfarinn minn var líka að keppa. Mér gekk ágætlega og var ég í 5. sæti í mínum flokki sem var bara frábært eftir að hafa bara verið að æfa í 10 mánuði. Mamma og Brandon komu með mér og voru þarna að horfa á kroppakeppni í heilan dag, þau voru frekar fegin þegar þetta var allt saman búið enda er ég alls ekki auðveld í umgengni þegar ég er svöng.“

 

Hlé á æfingum – sólargeisli kom í heiminn

Rut tók sér hlé frá æfingum þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn og byrjaði aftur að æfa þegar Mathilda var um þriggja mánaða, þegar hún fór aftur að vinna, en byrjaði hægt og varlega. „Ég var rosalega dugleg að fara út að ganga meðan ég var í fæðingarorlofi og byjaði að gera smávegis styrktaræfingar. Ég byrjaði svo af fullum krafti þegar Mathilda var orðin fimm mánaða því mér fannst ég þá loksins líkamlega tilbúin til þess. Ég reyni að lyfta lóðum fimm sinnum í viku og svo þolæfingar svona tvisvar í viku.“

 

Rut er ekki viss um að hún stefni aftur að því að keppa í fitness. „Núna er ég aðallega að leggja áherslu á að vera í góðu andlegu og líkamlegu formi svo ég hafi sem mesta orku til að takast á við öll verkefni dagsins. Mér fannst líka svolítið erfitt andlega að fara frá því að vera í keppnisformi í að vera ólétt. Ég gerði eiginlega ráð fyrir því að ég yrði enga stund að koma mér aftur í form eftir að ég átti Mathildu og átti mjög erfitt með að sætta mig við það að þetta tekur tíma. Loksins er ég bara frekar sátt í eigin líkama og er búin að sjá það að þetta kemur allt saman með tímanum.“

14468257_10154261761569584_5127670259878173534_o

ELSKAR DÓTTURINA: „Dóttir mín stendur upp úr í lífi mínu. Ég sé ekki sólina fyrir henni, þó svo að það sé ekki alltaf auðvelt og oft stressandi að vera með ungabarn þá eru hún ljósið í lífinu okkar.

 

14409886_10154261761174584_7445959351168936825_o

 

Mathilda búin að umturna lífinu

Rut segir að lífið hafi allt annan forgang eftir að litli sólargeislinn leit dagsins ljós og er að springa úr ást.  „Mathilda er sko algjört æði,“ segir Rut og brosir allan hringinn. „Rútínan mín hefur kannski ekki breyst svo mikið svona dags daglega, ég var vön að vakna snemma og fara snemma að sofa en núna er bara meira að gera. Ég vinn líka ekki eins lengi og ég var vön og er farin út á slaginu 17:00 og stundum aðeins fyrr því ég vil komast heim til að leika mér við hana. En hún er gjörsamlega búin að umturna lífi mínu á margan annan hátt og ég er að springa úr ást! Lífið mitt hefur allt annan forgang í dag og heimurinn okkar snýst um hana.“

 

Facebook er málið

Rut kann svo vel við sig í Boston að hún fær sjaldan heimþrá. „En ég sakna fjölskyldunnar oft og mikið, sem betur fer eru svo frábærar samgöngur milli Boston og Íslands að það er auðvelt fyrir fjölskylduna að koma í heimsókn eða fyrir mig að fara til Íslands. Þess á milli er það bara facetime, SMS og myndir á Facebook og Instagram. Þarf að læra á Snapchat.“

14362500_10154261761479584_3106177502733519048_o

 Hefðbundinn vinnudagur hjá Rut   

 • Rútínumanneskja – allir dagar nánast eins
 • Vakna á milli kl. 5:00 og 5:30
 • Útbý pela fyrir Mathildu, hafragraut með bláberjum og eggjahvítu fyrir Brandon og mig og Nespresso-kaffi
 • Snæðum öll saman morgunverð
 • 6:30–6:45 legg ég af stað til vinnu hjólandi ef veður leyfir
 • 7:00 Brandon fer með Mathildu á leikskólann
 • 7:00-7:15 í gjaldfrjálsu ræktina í byggingunni þar sem vinna mín er
 • 8:00–8:30 mætt í vinnuna
 • 17:00 vinnudegi lokið og sæki Mathildu í leikskólann
 • 17:45 við mæðgurnar komnar heim og leikum okkur aðeins. Síðan fer Mathildur í bað og fær pela og er sofnuð kl.19:00
 • Kl:19:00 Brandon kemur heim og við eldum okkur kvöldmat og förum yfir daginn
 • Undirbúningur fyrir næsta dag, útbý nesti, pakka saman vinnu- og æfingafötum og horfi kannski aðeins á Netflix í tölvunni en við eigum ekki sjónvarp
 • Kl:21:00 til 21:30 komin í háttinn

 Séð og Heyrt fylgist með fitness.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Related Posts