Feðgin brjóta blað í sögu Eurovision

Í ár tekur Ísland þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, eða Eurovision, í þrítugasta sinn en við tókum fyrst þátt 1986. Síðan þá höfum við tekið þátt á hverju ári fyrir utan tvö ár, 1998 og 2002, en þá máttum við ekki taka þátt vegna lélegs árangurs árin á undan, 1997 og 2001. Gengi okkar í keppninni hefur verið nokkuð brösótt, við höfum aðeins fimm sinnum lent í efstu tíu sætunum. Sautján sinnum höfum við verið í sætum 12–20 og tvisvar neðar. Og eftir að keppninni var skipt upp í tvær undankeppnir höfum við fimm sinnum ekki komist upp úr þeim í aðalkeppnina.

Bankinn hefur ekki gefið mikla vexti

Við ætluðum svo sannarlega að vinna keppnina þegar við tókum fyrst þátt og fulltrúar Íslands, ICY hópurinn, steig sigurviss á svið í Bergen í Noregi. Gleðibankinn var okkar, hvert mannsbarn á Íslandi kunni lagið og við vorum fullviss um að Evrópa myndi leggja fullt af stigum í bankann og við fara með sigur af hólmi, en svo var nú aldeilis ekki. Hin þrettán ára gamla Sandra Kim frá Belgíu kom, sá og sigraði enda „fíla“ allir söngva um hversu heitt við elskum lífið. Íslendingar ákváðu því að leggja höfuðið í bleyti og næsta ár förum við okkur „Hægt og hljótt“, sem auðvitað skilaði okkur bara aftur í sextánda sæti, þar vorum við fyrstu þrjú árin, þar til „Það sem enginn sér“ var akkúrat það og við lentum í neðsta sæti með núll stig.

Nú voru góð ráð dýr og fyrir Íslands hönd fór ein vinsælasta söngkona Íslands þá og síðar, Sigga Beinteins, og Stjórnin með „Eitt lag enn“ og núna loksins fór eitthvað að gerast. Sigga sjarmeraði Evrópu í rauða kjólnum á sviðinu í Zagreb í Júgóslavíu, við lentum í fjórða sæti og landinn tók Eurovisiongleðina á ný. Ári seinna varð hún aftur bara draumur þegar fimmtánda sætið varð okkar og við náðum ekki betri árangri fyrr en níu árum seinna, þegar Selma var samt „All out of luck“, þegar hin sænska Charlotte Nilsson „stal“ sigrinum af okkur með aðeins 17 stigum og Selma var í öðru sæti. Árið 1999 var líka árið sem við gáfumst upp á að syngja á móðurmálinu, enda skilja það bara um 340 þúsund einstaklingar og sumir þeirra skilja það jafnvel ekki. Síðan þá hefur Ísland flutt framlag sitt á ensku í keppninni, fyrir utan 2013, þegar Eyþór Ingi átti líf, en ekki life. Við vorum líka nálægt því að vinna 2009 þegar fiðla hins norska Alexander Rybak var betri punktur yfir i-ið en blái kjóllinn hennar Jóhönnu, en bæði framlögin voru mjög svo frambærileg og eftirminnileg.

Því má samt ekki gleyma að íslensku framlögin hafa mörg hver lifað lengi eftir að keppni lýkur og mörg þeirra höfum við tekið ástfóstri við. Þar fer fremst í flokki Nína þeirra Stebba og Eyfa sem fagnar í ár 26 ára afmæli sínu. Og þrátt fyrir brösótt gengi þá eigum við alls ekki versta árangur í keppninni. Sem dæmi má nefna að Kýpur hefur tekið þátt 33 sinnum og hæst komist í fimmta sæti og Portúgal 48 sinnum og hæst komist í sjötta sæti.

Þrítugasta skiptið og blað brotið í Eurovision-sögunni

Í ár er komið að Svölu að stíga á svið með lagið Paper, en hún sigraði með yfirburðum í keppninni hér heima. Keppnin fer fram í Kiev í Úkraínu og þar var hún líka haldin 2005, þegar Selma fór í annað sinn fyrir hönd Íslands með lagið „If I Had Your Love“. Því miður átti hún ekki ást Evrópu líkt og sex árum áður og Ísland komst ekki upp úr undankeppninni það ár. Vonandi fer betur fyrir Svölu, þó ekki væri nema fyrir það sem framlag okkar gerir fyrir sögu Eurovision. Svala er önnur kynslóð keppenda í Eurovision, en eins og kunnugt er keppti faðir hennar, Björgvin Halldórsson, fyrir okkar hönd 1995 með „Núna“ og lenti í 15. sæti. Auk þess sem hann tók nokkrum sinnum þátt í undankeppnum hér heima. Svala og Björgvin eru fyrstu feðgin í sögu Eurovision sem keppa fyrir sama land.

Feðgarnir Benny Andersson í ABBA og sonur hans, Peter Grönvall, kepptu í Eurovision með tuttugu og tveggja ára millibili líkt og Svala og Björgvin. Benny Andersson var í hljómsveitinni ABBA sem vann keppnina 1974 með „Waterloo,“ en Peter Grönvall lenti í þriðja sæti 1996 með hljómsveit sinni, One more time, með „Den vilda“, sem Íslendingar þekkja best sem Dansaðu vindur í flutningi Eyvarar.

Björgvin, faðir Svölu, mun einnig kynna stig íslensku dómnefndarinnar í Eurovision í ár og það myndi því klárlega snerta streng í brjósti íslenskra Eurovision-aðdáenda ef Svala kemst áfram í kvöld og Björgvin getur skilað kveðju og kossi til dóttur sinnar í gegnum sjónvarpsskjáinn á laugardagskvöld. Við vonum því það besta fyrir hönd Svölu og Íslands í kvöld, en Svala er þrettánda á svið og talan 13 er því lukkunúmer Íslands í dag.

Gleðilega Eurovision-hátíð!

Eurovisionvefur DV. 

Related Posts