Frænkurnar Guðbjörg Aðalsteinsdóttir, Guðrún Sigurðardóttir og Lilja Vigfúsdóttir stunda allar nám við Háskóla Íslands. Á föstudögum eru pizzakvöld en þá hittast þær ásamt fleirum úr fjölskyldunni og baka pizzur. Fyrir nokkru kom upp sú hugmynd að gera sviðapizzu og þeim fannst tilvalið að gera hana núna á þorranum.

 

„Við erum allar fæddar og uppaldar á Fljótsdalshéraði og í góðum tengslum við sveitina. Við erum úr stórri fjölskyldu sem býr enn á þessu svæði og við höfum alltaf haldið góðu sambandi,“ segja þær frænkur. Lilja og Guðbjörg eru í hjúkrunarfræðinámi og Guðrún í lyfjafræði. Þær útskrifast allar vorið 2016.

„Sá hluti fjölskyldunnar sem býr í Reykjavík byrjaði að hittast á mánaðarfresti og elda saman súpu veturinn 2011-2012. Haustið 2012 varð pizza fyrir valinu og ákveðið að hittast á hverjum föstudegi þar sem við erum svo skemmtileg að einu sinni í mánuði er ekki nóg. Við höfum tekið miklum framförum í pizzagerð og gert alls konar tilraunir, þar á meðal með sviðapizzuna. Hún kom þannig til að faðir Guðrúnar, Sigurður Aðalsteinsson, veiðimeistari frá Vaðbrekku, kom suður til að kynna bók sem vinur hans Guðni Einarsson var að gefa út. Það vildi svo vel til að hann var í borginni á föstudegi og var því boðið í pizzakvöld. Þar sem Siggi borðar ekki pizzu var ákveðið að koma við í Melabúðinni og kaupa svið handa honum. Þá kom upp hugmyndin að sviðapizzunni,“ segir Lilja. „Þar fengu hann og Guðrún fagleg ráð frá Pétri í Melabúðinni um hvernig sú pizza ætti að vera en Pétur á hugmyndina að sósunni og ostablöndunni. Flestir sem heyrðu hugmyndina efuðust um hana fyrst en voru fljótir að skipta um skoðun þegar þeir voru búnir að smakka hana. Við höfðum ekkert meðlæti með pizzunni þegar við gerðum hana fyrst en núna ætlum við að hafa kartöflustöppu og rófustöppu.“

 

Svið og súrmeti

Þær frænkur borða allar þorramat enda ólust þær upp við að hann væri borðaður og þá ekkert endilega bara á þorranum. Guðrún er mest fyrir sviðasultu og hákarl, Guðbjörgu finnst hákarlinn bestur og Lilja elskar allan súrmat. Lilja og Guðbjörg eru báðar með súrfötu í ísskápnum þar sem hægt er að næla sér í góðmeti allan ársins hring. Melabúðin er í sérstöku uppáhaldi hjá Guðrúnu enda stutt að fara þar sem lyfjafræðin er kennd í háskólabyggingunni Haga, ská á móti Melabúðinni. „Á matartímum fæ ég mér oft heitan sviðakjamma hjá Péturi í Melabúðinni. Skólafélagar mínir kjósa nú oftast að fá sér kjúkling og hrylla sig við því að ég borði andlit af kind í hádegismat en þeir eru farnir að venjast þessu núna,“ segir Guðrún. „Það er kannski ekki skrítið að við séum allar einhleypar,“ bætir Guðbjörg við að lokum og þær skella upp úr.

 


 

Fullt nafn: Lilja Vigfúsdóttir.

Aldur: 21 árs.

Starf: Vinn á deild A4 (HNE-, bruna-, lýta- og æðaskurðdeild) á Landspítalanum með hjúkrunarfræðinámi.

Hjúskaparstaða: Einhleyp.

Uppáhaldskaffihús: Súfistinn eða Te og kaffi í Eymundson – eiginlega bara öll kaffihús með bókum.

Uppáhaldssjónvarpsþáttur: Criminal Minds.

Stundarðu íþróttir? Nei.

Bringusund eða skriðsund? Skriðsund.

Bómull eða spandex? Bómull.

A- eða B-manneskja? A-manneskja á kvöldin, B-manneskja á morgnanna.

Hver var fyrsta vinnan þín? Blaðburður.

Hvað er það leiðinlegasta sem þú gerir? Ryksuga.

Ertu með tattú? Ekki enn.

Fjallganga eða fjöruferð? Fjallganga.

Ertu femínisti? Auðvitað!

 


 

Fullt nafn: Guðbjörg Aðalsteinsdóttir.

Aldur: 23 ára.

Starf: Hjúkrunarnemi og ég starfa á hjarta- lungna og augnskurðdeild Landspítalans með námi.

Hjúskaparstaða: Einhleyp.

Uppáhaldskaffihús: Kaffistofan hjá Ágústu og Sólu í Eirbergi.

Uppáhaldssjónvarpsþáttur: Hart of Dixie, Chicago Fire og Grey’s.

Stundarðu íþróttir? Nei.

Bringusund eða skriðsund? Bringusund.

Bómull eða spandex? Spandex.

A- eða B-manneskja? Beggja blands eftir því sem hentar.

Hver var fyrsta vinnan þín? Vinnustúlka í húsdýragarði á Jökuldal.

Hvað er það leiðinlegasta sem þú gerir? Svara spurningunum um hjúskaparstöðu og íþróttir. 

Ertu með tattú? Nei.

Fjallganga eða fjöruferð? Fjallganga.

Ertu femínisti? Já.

 


Fullt nafn: Guðrún Sigurðardóttir.

Aldur: 24 ára.

Starf: Lyfjafræðinemi.

Hjúskaparstaða: Einhleyp.

Uppáhaldskaffihús: Kaffihús Vesturbæjar.

Uppáhaldssjónvarpsþáttur: Shameless.

Stundarðu íþróttir? Já, útihlaup.

Bringusund eða skriðsund? Má segja hvorugt, mér líkar betur að liggja í heitu pottunum sérstaklega ef það er sól.

Bómull eða spandex? Spandex.

A- eða B- manneskja? A-manneskja.

Hver var fyrsta vinnan þín? Unglingavinnan.

Hvað er það leiðinlegasta sem þú gerir? Að vaska upp.

Ertu með tattú? Nei.

Fjallganga eða fjöruferð? Fjallganga.

Ertu femínisti? Já og nei.

 

 


 

gredsSviðapizza

Botn

1 bolli heitt vatn

1 pakki þurrger

1 msk. hunang

2 tsk. salt

2 msk. olía

1 ½ bolli hveiti

1 ½ bolli heilhveiti

 

Hrærið ger og hunang út í heitt vatn í stórri skál, látið standa í 5-10 mínútur. Bætið salti, olíu og hluta af hveitinu og heilhveitinu saman við og hrærið saman. Bætið svo smáum skömmtum af hveiti út í þangað til réttri áferð er náð. Myndið því næst kúlu úr deiginu og komið fyrir í skál og látið hefast í 1-2 klst.

 

Álegg

1 sviðakjammi, meðalstór, heitur úr Melabúðinni
1 dós rófustappa, úr Melabúðinni

1 pakkning gráðaostur
1 pakkning pizzaostur

Fletjið degið út í um það bil 12 tommu pizzu, þægilegt að nota pizzagrindur úr IKEA.

Rófustappan tekin og jafnað vel yfir allan botninn, alls ekki nota pizzasósu, hún passar ekki vel með sviðunum.

Sviðakjamminn úrbeinaður og allt kjötið, skinnið og jafnvel tungan og augað af honum brytjað smátt. Það er auðveldara að brytja sviðin ef kjamminn er heitur, alla vega vel volgur. Kjötinu er svo dreift vel yfir allan botninn ofan á rófustöppuna.
Því næst er biti af gráðaostinum brytjaður smátt og dreift yfir (magn fer eftir smekk). Að lokum er venjulegum rifnum osti dreift yfir pizzuna og hún sett inn í ofn og bökuð þar til osturinn er bráðinn og kominn fallegur gljái eða u.þ.b. 8-12 mín. við 200°C.

Allt efni í pizzuna fæst í Melabúðinni.

Related Posts