Brynhildur Björnsdóttir (38) framkvæmdastjóri:

GG verktakar fögnuðu ISO gæðavottun sinni með glæsilegri veislu í Glersalnum í Kópavogi. Starfsmenn GG ásamt öllum helstu byrgjum byggingarbransans skemmtu sér eins og þeim einum er lagið og veltust svo um af hlátri þegar grínistinn Ari Eldjárn mætti á svæðið og sagði sögur.
Mikill vöxtur „Við vorum að fá ISO gæðavottun og erum þá annar byggingarverktakinn á landinu til að fá þessa vottun. ÍAV fengu hana árið 2009 og þetta er því svolítið stórt mál. Við byrjuðum sem lítið fjölskyldufyrirtæki en höfum vaxið mikið síðustu ár,“ segir Brynhildur.

GG verktakar

EIGENDURNIR: Gunnar Gunnarsson eldri og synirnir Gunnar Gunnarsson yngri og Helgi Gunnarsson voru manna stoltastir af ISO vottuninni.

„Þriðji ættliðurinn af smiðum stofnaði þetta fyrirtæki árið 2006. Það má segja að við höfum náð mjög langt á stuttum tíma. ÍAV eru svona stjarnan í byggingarbransanum en okkur tókst að fá þessa ISO vottun á níu mánuðum sem er í raun einsdæmi, mig minnir að það hafi tekið ÍAV fjögur ár að fá vottunina þannig að við erum mjög stolt af þessu.“

Lítið af konum í bransanum

Brynhildur tekur undir það að fæstir hugsi um kvenmann þegar rætt er um framkvæmdastjóra byggingarfyrirtækis.
„Það er lítið um konur í þessum bransa og það er alls ekki algengt að kona sé framkvæmdastjóri. Ég held að ég hafi til dæmis aldrei fundað með konu. Ég kann ekki að halda á hamri en er ágæt í Excel og rekstri,“ segir Brynhildur og hlær.

„Nú erum við með um fimmtíu starfsmenn en árið 2006 byrjuðu þeir bara þrír, Gunnar Gunnarsson, pabbinn, og bræðurnir Helgi Gunnarsson og Gunnar Gunnarsson.“

GG verktakar

GLÆSILEG: Hallmundur Albertsson, lögfræðingur hjá LMB, Brynhildur S. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri GG Verk ehf., Þorvaldur E. Sigurðsson verkfræðingur og Ingveldur Björg Jónsdóttir, rekstrarstjóri Veðurstofu Íslands, skemmtu sér vel.

Brynhildur segir ISO vottunina vera mikinn gæðastimpil og eitthvað sem fyrirtækið hafi stefnt að lengi.

„Það er algjörlega frábært að fá þessa vottun og auðvitað ekkert annað í stöðunni en að halda veglega upp á áfangann. Það var æðislega gaman á kvöldinu, það mættu helstu byrgjarnir í bransanum þangað og Ari Eldjárn hélt svo uppi stuðinu. Hann sló algjörlega í gegn, maður bókstaflega grét úr hlátri. Hann kann þetta alveg og tók byggingarbransann aðeins fyrir, enda úr nægu að taka,“ segir Brynhildur sátt við sig og sína.

Related Posts