Í þeirri kuldatíð sem nú ríkir er full ástæða til að halda á sér hita. Það er ekki nóg að setja upp húfu og drekka kakó, það er líka bráðnauðsynlegt að hafa ástina heita. Hér eru nokkur góð ráð til þess.
1: Byrjaðu daginn vel og færðu ástinni þinni kaffibolla í rúmið, njótið svo samverunnar undir sænginni í smástund í viðbót. Til að toppa góða morgunstund og ef þú ert í sérstaklega góðu skapi þá er alveg tilvalið að setja saman morgunverð fyrir ástina þín og njóta saman.

2: Að loknum vinnudegi er nauðsynlegt að gera upp daginn saman, gefið ykkur tíma fyrir koss og knús. Það er magnað hvað tíu sekúndur geta gert fyrir sambandið.

3: Skipuleggið samverustundir fram í tímann. Það eykur tilhlökkun og spennu. Það þarf ekki alltaf kampavín og kavíar þó að það sé vissulega skemmtilegt, ísbíltúr getur verið einstaklega rómantískur, sérstaklega ef þið borðið einn ís saman á sama tíma.

4: Veittu ástinni þinni athygli, leggðu frá þér símann og sjónvarpsfjarstýringuna, og hlustaðu af öllu hjarta. Fátt staðfestir ástina betur en raunverulegur áhugi á því sem ástin í lífi þínu er að gera.

5: Hrósaðu ástinni þinni. Verið dugleg að minna á fegurð hins og nefnið styrkleika. Segðu eitthvað jákvætt á hverjum degi, leyfðu því að koma frá hjartanu þá aðeins er það satt.

6: Kveðjist innilega á morgnanna, kyssist og segið hvort öðru að þið hlakkið til að hittast aftur í lok dags.

7: Litlir hlutir skipta máli, líka í ástinni. Smágjafir gleðja, lítil páskaegg, ein rauð rós eða jafnvel túnfífll úr garðinum geta gert kraftaverk fyrir ástina.

8: Hlustaðu eftir áhyggjum og veittu því athygli ef ástinni þinni líður illa. Eitt faðmlag getur birtu í dagsljós breytt og allir þurfa styrka öxl til að halla sér að . Þó að áhyggjurnar kunni að virðast léttvægar þá er mikilvægt að hafa einhvern sem maður treystir til að tala við.

9: Gerðu eitthvað óvænt, leigðu sportbíl og farið í ökuferð. Skreyttu húsið með rósablöðum, láttu renna í huggulegt freyðibað, eldaðu fimm stjörnumáltíð og dekkaðu fallega upp. Dekraðu við ástina þína og þú færð það margfalt til baka.

10: Virðing og traust eru lykillinn að góðu sambandi, en gott kynlíf er ekki síður mikilvægt. Gefið hvort öðru tíma til að njóta og leyfið ykkur þann munað að elskast í ró og friði.

Related Posts