eirLitlar styrjaldir skipta okkur meira máli en stórar í erli dagsins og nú er hafið kaffistríð í verslunum Víðis.

Víðir hefur síðustu mánuðina boðið Gevalia-kaffi á frábæru verði, eða á rétt rúmar 700 krónur pakkann. Og flestir teygja sig fyrir bragðið í Gevalia og kasta í körfuna því aðrar tegundir voru að sleikja þúsund króna markið.

Fyrir bragðið skapaðist stór hópur neytenda sem kalla má Gevalia-fólkið því það drakk Gevalia og bauð gestum Gevalia – því það voru bestu kaupin.

Svo gerast þau ósköp rétt í þessu að Merrild stillir sér upp í búðarhillunum hjá Víði á 689 krónur 500 grömmin. Þá hikar Gevalia-fólkið, snýr sér í hálfhring með körfuna en skiptir svo um kaffitegund eins og ekkert sé og er allt í einu komið í Merrild-hópinn.

Svona gerast kaupin á kaffimarkaði almennings. Bragðið skiptir ekki öllu, heldur verðið.

Reyndar rísa bæði Gevalia og Merrild undir nafni sem gott heimiliskaffi en ná þó aldrei því besta í bænum sem er ítalska kaffið hjá Kaffifélaginu á Skólavörðustíg en það er dýrara; 500 krónur bollinn og fyrir þann pening má fá marga bolla af Gevalia heima og enn fleiri bolla af Merrild eins og staðan er nú í kaffistríðinu í Víði.

Kaffistríð eru indæl eins og Séð og Heyrt – gera lífið skemmtilegra.

 

Eiríkur Jónsson

Related Posts