Ég var 21 árs og vann á bensínstöð þegar ég kynntist óvænt fíkniefni sem breytti lífi mínu og hefur haldið mér gangandi í tvo áratugi.

Það var einhvern kaldan og dimman janúarmorguninn sem ég sat við dæluborðið og starði út í hríðarbylinn. Ég var þreyttur og leiður. Á lífinu, vinnunni og sjálfum mér og velti fyrir mér hvað í fjandanum hafði klikkað hjá mér. Lífið hlaut að bjóða upp á eitthvað annað og betra en þetta.

Ég hrökk upp úr helfrosnum hugleiðingunum þegar verkamannskrumla með olíubornum fingrum skellti rjúkandi heitumMóment kaffibolla merktum ESSO á borðið. „Hérna! Rífðu þig upp úr þessum doða og skelltu þessu í þig. Þú verður allur annar! Ég setti sykur í þetta og þú mátt hafa sykur í kaffinu í eina viku. Síðan byrjarðu að drekka það svart. Við erum nefnilega verkamenn. Og alvörukarlmenn.“

Þar sem ESSO var rótgróið framsóknarfyrirtæki fengum við ekkert annað en Braga kaffi og þótt það glundur geti vart talist almennilegt kaffi nú til dags fæ ég samt seint fullþakkað þeim starfsmanni á plani sem neyddi fyrsta kaffibollann ofan í mig. Þetta var eins og að fá blóðgjöf og ég varð, merkilegt nokk, allur annar.

Þetta var fyrsti og síðasti sykraði kaffibollinn minn. Enda varð ég þarna að karlmanni. Eftir vænan slatta af kaffibollum hætti ég á bensínstöðinni, drakk fleiri kaffibolla í Háskólanum og fór síðan að vinna við það sem ég hafði alltaf ætlað mér.

Fíknin í kaffið rekur mig núna fram úr rúminu alla morgna í öllum veðrum og þráin eftir fyrsta bolla dagsins fyllir mig trylltri eftirvæntingu eftir því að komast í vinnuna. Á áfangastað þarf ég svo bara að ýta á einn takka og þá fyllist bollinn af ilmandi, rjúkandi kaffi sem er sko enginn Bragi.

Og þá hefst lífið, enda er fyrsti kaffibolli hvers morguns upphafið á nýju ævintýri.

Þórarinn Þórarinsson

Related Posts