Jólakúlur og óróar unnir í samstarfi við listamenn:

 

Sú skemmtilega hefð hefur skapast hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra að gefa út fyrir jólin Kærleikskúlu og jólaóróa sem hvort tveggja er unnið í samstarfi við íslenska listamenn. Ágóði af sölu þessa fallega alíslenska skrauts fer til styrktar lömuðum og fötluðum börnum og ungmennum. Það er því varla hægt að hugsa sér betri leið til að skreyta heimili sitt.

 

oroiJólaóróinn er samstarfsverkefni hönnuðar og skálds og að þessu sinni komu þau saman Linda Björg Árnadóttir og Bubbi Morthens með túlkun á Giljagaur; þeim sem kom annar með gráa hausinn sinn og skreið ofan úr gili og skaust í fjósið inn. Linda hannaði óróann en Bubbi orti kvæði.
Kærleikskúlan fær einnig nýtt útlit á hverju ári í höndum nýs listamanns. Í ár er það Davíð Örn Halldórsson og ber kúla hans heitið Mandarína.

En þar með er ekki allt talið. Kærleikskúlan er á hverju ári afhent einhverjum úr hópi fatlaðra sem þykir fyrirmynd annarra. Að þessu sinni hlutu systurnar Snædís og Áslaug Hjartardætur kúluna en þær eru miklir mannréttindasinnar og húmoristar og hafa barist ötullega fyrir því að bætt verði túlkaþjónusta fyrir fólk með heyrnarskerðingu. Báðar eru mikið sjón- og heyrnarskertar vegna taugahrörnunarsjúkdóms og hafa þrátt fyrir ungan aldur verið virkar og sýnilegar í baráttu fatlaðs fólks fyrir mannréttindum í nokkur ár, m.a. með viðtölum, skrifum, í sumarvinnu og á samfélagsmiðlum.

Árið 2012 störfuðu þær í sumarvinnu á vegum Blindrafélagsins og Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Til varð hópurinn Skytturnar þrjár og þriðja skyttan var Helga Dögg Heimisdóttir. Þessar vösku stúlkur létu að sér kveða svo eftir var tekið. Verkefni þeirra var að skoða aðgengi fyrir fatlað fólk í Reykjavík með það að markmiði að bæta það. Ábendingar þeirra vöktu mikla athygli og sendu þær m.a. erindi til Páls Magnússonar, þáverandi útvarpsstjóra, þess efnis að verulega mætti bæta textun sjónvarpsefnis, sérstaklega frétta. Þá fóru þær á fund þáverandi borgarstjóra, Jóns Gnarr, og afhentu honum lokaskýrslu verkefnisins með áskorun um að stuðla að bættu aðgengi fyrir fatlað fólk í miðbænum.

Gaf út skáldssögu

bledSumarið 2013 störfuðu þær að svipuðum verkefnum; að vekja athygli á aðgengismálum, en einnig tóku þær þátt í að undirbúa viðburð á alþjóðlegum degi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Árið 2011 kom út fyrsta, en vonandi ekki síðasta, skáld- og ævintýrasaga Áslaugar, Undur og örlög, og í sumar starfaði hún á skrifstofu Fjólu, félags fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, og vann þar m.a. efni sem birtast mun á heimasíðu félagsins þegar hún lítur dagsins ljós. Í ágúst í ár fór Snædís í nokkurra daga ferð þar sem siglt var á kanóum um vötn Kanada. Ferðalagið vakti athygli þar sem Snædís fór þvert gegn almennum ranghugmyndim um getu fólks með fötlun.

Áslaug og Snædís starfa ávallt með kjörorð Áslaugar að leiðarljósi: „Tala minna, gera meira!“ Nýlega vöktu þær síðan mikla athygli þjóðarinnar þegar þær komu fram í Kastljósi Ríkissjónvarpsins, ásamt foreldrum sínum, og sýndu áhorfendum hvernig hið opinbera braut gróflega á mannréttindum þeirra með því að neita þeim um túlkaþjónustu. Framganga þeirra varð örugglega sá vendipunktur sem þurfti til að fá mennta- og menningarmálaráðherra til að samþykkja viðbótarframlag í félagslegan túlkasjóð Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Á alþjóðadegi fatlaðra þann 3. desember fengu þær systur fyrstu kærleikskúlurnar afhentar úr hendi Jóns Gnarr fyrrverandi borgarstjóra. Hann minntist þess í ræðu sinni þegar hann hitti þær fyrst og tók við skýrslu þeirra um aðgengismál. Hann sagði að hún væri enn höfð til hliðsjónar við vinnu að skipulagsmálum í borginni svo vönduð var vinna þeirra og aðgengileg. Hann kom líka að því hve kímnin og húmorinn væru mikilvægt vopn í allri mannréttindabartáttu og nauðsynlegur þeim sem kjósa að skipa sér í framvarðarsveit slíkrar vinnu. Hann sagði þær vel að viðurkenningunni komnar, enda þekkja þær mannréttindabrotin mörg af eigin reynslu. Bæði Áslaug og Snædís þökkuðu fyrir sig með þeim orðum að þær ætluðu ekki að láta deigan síga og myndu halda áfram hér eftir sem hingað til. .

Þessar öflugu systur hafa kosið að láta fötlun sína ekki standa í vegi fyrir sér og stunda báðar nám við MH og eiga sér þann draum að fara í nám erlendis og ef marka má kraft og einbeitni systranna hingað til munu þær finna leið til að láta hann rætast. Þær hafa verið öðru fötluðu fólki mikilvæg hvatning og fyrirmynd og eiga eftir að verða enn öflugri um ókomin ár. Styrkur þeirra liggur fyrst og fremst í því hversu rökfastar þær eru í baráttunni, taka mótlætinu af miklu æðruleysi og hafa til að bera heillandi og mannbætandi húmor sem gerir baráttu þeirra enn áhrifaríkari. Þær hafa verið öðru fötluðu fólki mikilvæg hvatning og fyrirmynd og eiga eftir að verða enn öflugri um ókomin ár. Með kaupum á jólaóróanum og Kærleikskúlunni gefst almenningi tækifæri til að leggja þeim og öðrum ungmennum í svipaðri stöðu lið.

Related Posts