Fékk skjóta og góða þjónustu á sjúkrahúsi án þess að borga krónu:

Listheimspekingurinn Jón Proppé er nýkominn úr mánaðarferð til Indlands þar sem hann var Sviðstaddur viðamikla sýningu listmannsins og arkiteksins Guðjóns Bjarnasonar. Sýningin var haldin í Þjóðarlistasafni Indlands eins og greint hefur verið frá hér á vefnum sjá hér: http://sedogheyrt.is/gudjon-bjarna-slaer-gegn-indlandi/

Eftir að sýningin var opnuð með pomp og prakt dvaldi Jón um fjögurra vikna skeið á Indlandi. Og hann segist hafa hitt fullt af fólki í gegnum Guðjón. „Indland er furðuheimur þar sem maður stendur með annan fótinn í miðöldum og hinn í náinni framtíð en þarna er 8% hagvöxtur og mikill uppgangur,“ segir Jón. „Heilbrigðiskerfið kom mér á óvart.“

Jón segir að seint að kvöldi, eftir veislu hjá franskri barónessu hafi hann fengið eitthvert bráðaofnæmi og þurft að fara á sjúkrahús um miðnættið. „Ég var tekinn inn, greindur og fékk sprautu við þessu á um hálftíma eftir komuna,“ segir Jón. „Og ég þurfti ekki að borga krónu fyrir þetta, ókunnugur maðurinn. Ég þráspurði raunar hvort ég þyrfti ekki að borga en svarið var nei og horft á mig eins og ég væri bjáni fyrir að spyrja.“

Megninu af tímanum eyddi Jón með Guðjóni í suðurhluta Indlands. „Dagurinn hófst á morgunmat á kaffihúsi við ströndina. Morgunmaturinn samanstóð af te og litlum kökum úr muldum hrísgrjónum og linsubaunum með sterkri sósu,“ segir Jón. „Frábært og næringarríkt.“

Annars er höfuðborgin Delí einna minnisstæðust enda svakaleg. „Það er ekkert sem býr mann undir mengunina og mannmergðina í borginni þótt maður hafi séð fjölda af kvikmyndum,“ segir Jón. „Þarna er mikil misskipting auðs en 60% borgarbúa lifa á minna en  30 þúsund kr.  á mánuði.“

Jón segir þannig að s.l. þriðjudag hafi hann setið á tröppum á götu úti á meðan skóbustari lagaði  og saumaði upp skóna hans. „Á meðan spjölluðum við um heima og geima,“ segir Jón. „Klukkustund síðar var ég kominn í elsta og fínasta klúbb borgarinnar að spjalla við einn ríkasta mann Indlands sem er samstarfsmaður Guðjóns Bjarnasonar.“

Jón segir að maður fái aðra sýn á lífið með því að ferðast út fyrir Vesturlöndin. Á Indlandi sé Evrópa einskonar jaðarsvæði. „Veröldin breytist hratt og við hér fyrir norðan verðum að breyta hugarfari okkar ef við ætlum að fylgja með,“ segir Jón.

Related Posts