„Það er ekkert bara Arnaldur,“ segir Jón Axel Ólafsson, eigandi Eddu-útgáfu, sem nýlega lét prenta Frozen-hárbókina í 100.000 eintökum. „Bókin er fjórða vinsælasta bókin á Íslandi í þessum töluðu orðum og rýkur út í Bandaríkjunum þar sem hún hefur selst í 30.000 eintökum á einni viku,“ segir Jón Axel.

Frozen-hárbókin er eftir Theodóru Mjöll sem hefur áður gefið út nokkrar vinsælar hárgreiðslubækur á Íslandi. Jón Axel leggur áherslu á að hárbókin sé alíslensk hugmynd og framleiðsla sem hafi vakið mikla ánægju hjá Disney í Bandaríkjunum og segir ljóst að hann þurfi fljótlega að prenta meira af henni til þess að anna eftirspurn.

Edda gefur einnig út aðra hárgreiðslubók eftir Theodóru fyrir jólin, bók um prinsessuhárgreiðslur sem einnig er tengd þekktum og dáðum Disney-persónum. Sú bók hefur verið prentuð í 30.000 eintökum, sama upplagi og fyrsta prentun af nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar, Kamp Knox.

Það hefur engin íslensk útgáfa, hvorki fyrr né síðar, selt jafnstórt upplag á jafnstuttum tíma og Edda með þessari Frozen-bók,“ segir Jón Axel og bendir á að þegar hann beri árangurinn saman við árangur Arnalds Indriðasonar verði að hafa í huga að fjölmargar útgáfur gefi hann út um allan heim. Hin íslenska Edda hafi hins vegar ein og sér lagt undir sig Ísland og Bandaríkin með hugmyndaríkum tengingum við vinsælt efni frá Disney.

Þetta er mjög óalgengt,“ segir Jón Axel um að Disney skuli ítrekað veðja á tilbúnar bækur frá útgáfu í öðru landi enda hafi fyrirtækið þann háttinn á að framleiða og hanna sjálft allt sem það sendir frá sér. „Þetta heldur svo bara áfram og við verðum með tuttugu titla á næsta ári og erum með fullt af Frozen-bókum í gangi á Íslandi núna,“ segir Jón Axel en fádæma vinsældir kvikmyndarinnar Frozen hafa orðið til þess að alls kyns varningur tengdur henni selst eins og heitar lummur út um allan heim. „Við erum svo að semja við fleiri fyrirtæki og erum til dæmis nýbúin að ganga frá samningi við Dreamworks.“ Jón Axel hyggur því á enn frekari landvinninga á erlendri grundu og sér ýmsa möguleika á að gera íslenska hugmyndaauðgi að innbundinni söluvöru ytra.

Jón Axel er að sjálfsögðu einnig umboðsmaður hinnar ómótstæðilegu og geðstirðu andar Andrésar á Íslandi og af þeim gamla stegg er einnig allt gott að frétta. „Andrés er alltaf hress og stendur fyrir sínu,“ segir Jón Axel sem hefur stillt upp öflugu sóknarliði með helstu og vinsælustu persónunum úr smiðju Disneys.

Related Posts